15.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

82. mál, póstafgreiðsla í Vík

Flutningsm. (Gunnar Ólafsson):

Ástæðan til þess að eg hefi leyft mér koma með þessa tillögu til þingsályktunar er sú, að ástandið að því er snertir póstgöngur til Víkur er lítt viðunandi sem stendur. Meðan ekki var verzlun í Vík mátti una við það, en síðan verzlun kom þar upp, hefir það komið æ betur í ljós, að það er óviðunanlegt. Það er nauðsynlegt að koma upp póstafgreiðslu þar. Oft eru ábyrgðarsendingar sendar þaðan og þangað, og sérstaklega eru peningar oft sendir þaðan, og eins og nú til hagar verða menn að senda svo að segja utan tösku, og er það auðvitað mjög ótrygt. Yrðu vanskil á, gæti vel farið svo, að póststjórnin neitaði að borga, enda eru þess dæmi að hún hefir gjört það. Kostnaðurinn yrði mjög lítill. Eg geri ráð fyrir að bréfhirðingarmaðurinn yrði póstafgreiðslumaður, og fengi lítilsháttar launa viðbót, svo sem 50 kr. Eg þykist vita, að deildin muni ekki verða á móti þessu.

Þá er hitt atriðið, að póstferðum verði fjölgað um helming milli Odda og Víkur á þeim tíma árs, er póstvagn gengur vikulega milli Reykjavíkur og Ægissíðu. Eins og nú er ástatt á þetta hérað við samgönguleysi að stríða, bæði á sjó og landi. Það væri mikill munur, ef hægt væri að hafa gagn af strandferðaskipunum, en svo er ekki. T. d. má nefna, að árið 1907 kom báturinn alls ekki við í Vík í þrjá mánuði, svo að sending, sem sett var á póstinn í júní, kom ekki til Víkur fyr en í október. Mönnum, sem þar búa, getur oft verið stór bagi að því, að sent sé með strandbátunum, þar eð ferðirnar eru svo ótryggar.

Væri póstferðunum fjölgað, eins og hér er farið fram á, mundi nálega aldrei koma fyrir að áríðandi bréf væru send sjóleiðis.

Sérstaklega hefir óánægjan vaxið þar eystra, síðan póstvagninn byrjaði að ganga milli Reykjavíkur og Ægissíðu. Vagninn er oft ekki í sambandi við aðalpóstinn, svo að sendingar frá Vík verða oft að bíða alt að vikutíma í Odda eða Ægissíðu. Sambandið við Reykjavík er því jafnvel verra en áður en vagninn kom. Yfir þessu hefir verið kvartað til póststjórnar, og að vísu hefir nokkur bót á orðið, að því leyti að vagnferðirnar eru nú settar í samband við póstinn, en þó er ástandið enn lítt viðunandi, vegna þess hve ferðirnar eru strjálar. Verzlun er orðin æði mikil í Vík og því er þörf á að koma bréfum miklu oftar en hingað til hefir verið hægt. Í Ægissíðu er meira en hálfnuð leið til Víkur. Til Ægissíðu fer vagninn vikulega, en póstur þaðan til Víkur að eins rúmlega einu sinni á mánuði. Virðist það því ekki vera ósanngjörn beiðni, að póstleiðum milli Víkur og Odda sé fjölgað um helming á þeim tíma árs, er vagninn gengur. Kostnaðaraukinn, er af fjölguninni leiddi, yrði ekki mikill. Það er ætlast til að bætt sé við 7 ferðum. Þar eð hér er um sumartíma að ræða, og flutningur varla verður mikill, mundi nægja einn maður með 2 hesta, er væri burtu 3 daga. Hver ferð mundi þá kosta 16—18 kr., eða 7 ferðir 112—125 kr. Þetta er ekki stór upphæð, en gæti komið að miklu gagni. Þess ber einnig að gæta, að ekki að eins Víkin ein, heldur alt svæðið milli Víkur og Odda, mundi njóta góðs af þessum ferðum, og því eðlilegra væri það, að fé væri veitt til þeirra.

Eg skal geta þess, að eg hefi komið með breyt.till. (þgskj. 178) við tillöguna, að í stað »efri deild alþingis« komi: alþingi.

Fer eg svo ekki fleiri orðum um tillöguna að sinni, en vona að hún nái fram að ganga.