15.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

82. mál, póstafgreiðsla í Vík

Flutningsmaður (Gunnar Ólafsson):

Eg bjóst ekki við svo miklum umræðum um þetta mál.

Háttv. 4. kgk. þm. sagði að málið væri lítilfjörlegt. En hvaða ástæða er þá til að hafa svo langar umræður um það, eða heimta mikil skjöl og skýrslur því viðvíkjandi?

Sami háttv. þm. sagði einnig, að hér væri farið fram á, að þingið tæki fram í dagleg störf umboðsstjórnarinnar. Þingið á að gefa gætur að daglegum störfum umboðsstjórnar, ef þess þarf með. Auk þess þarf að fá heimild þings til þess, að stjórnin megi verja fé til þess arna eða annars.

Sami háttv. þm. bjóst við tugum slíkra tillagna, ef þessi verður samþykt. Eg er ekkert hræddur við það. Það er ávalt á valdi þingsins að taka í taumana. — Orðin »stefna« og «princip« klingja altaf, ef stungið er upp á einhverju nýju hér; það er eins og ekkert nýtt megi gera, vegna þess að sérstök stefna gæti myndast út af því.

Eg sé ekki að þetta mál sé það stórmál, að ástæða sé til að setja það í nefnd, en óski deildin þess, mun eg ekki verða á móti því.

Að endingu vona eg að deildin lofi tillögunni að fara áfram til Nd.