12.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

83. mál, verslunarlöggjöf

Lárus H. Bjarnason:

Eg get verið samþykkur niðurlagsorðum háttv. flutningsmanns, þó eg sé ekki jafn samþykkur forsendunum.

Það er vafamál, hvort það er eins sjálfsagt og hann álítur, að verzlunarskilyrðin séu sem hörðust. Reyndar eru þau sumstaðar, t. d. á Norðurlöndum, harðari en hér, en aftur eru þau sumstaðar vægari, t. d. á Englandi. En þó að farið væri að herða á verzlunarskilyrðunum á pappírnum, þá væri lítil bót að því, því mörg eru þau þess eðlis, að ekkert er hægara en að fara í kringum þau, t. d. búsetan. Þó hún væri lögleidd hér mundi verða óspart farið í kringum hana með leppmensku, enda eru þess mjög mörg dæmi að verzlanir hafi verið og séu leppaðar hér.

Mér skildist á háttv. flutningsm. sem hann héldi að ekki þyrfti myndugleika til að reka verzlun hér. Það er ekki rétt, hann er heimtaður í lögum. — Fæðingjarétt þarf hins vegar ekki til verzlunar, en aftur getur enginn orðið skipstjóri hér nema hann hafi fæðingjarétt. Það væri því ef til vill ástæða til að jafna þetta, heimta fæðingjarétt af báðum, kaupmanninum og skipstjóranum, eða þá af hvorugum, en lítið er þó upp úr þeim rétti leggjandi, meðan svo standa sakir sem nú.

Eg er samþykkur háttv. flutningsm. um að þetta mál beri að athuga. Sé ekki kostur á milliþinganefnd, er betra að það sé falið stjórninni en ekkert sé gert. Og ætti þá að draga saman öll þau ákvæði sem nú eru hingað og þangað, koma jöfnuði á þar sem nú er ójöfnuður, en aðallega þyrfti að setja trygg ákvæði um vissa grein verzlunar, sem sé verzlun hlutafélaga. Það er algerlega óviðunanlegt að landstjórnin hafi ekkert eftirlit með hlutafélagsskap. Hann er miklu hættulegri landinu en einstakra manna verzlanir. Oft er hann blátt áfram hegningarverður fjárglæfraskapur. Eins og nú til hagar er ekkert lítið eftir því, að hlutafélögin hafi það fé sem upp er gefið, og því síður er nokkuð eftirlit með því, að vel sé farið með hlutaféð.

Slík lög eru til í flestum löndum nema á Íslandi. Og hér er sannarlega nægilegt tilefni til að lögleiða skarpt eftirlit með verzlunarfélögum og líkum félagsskap.

Af þessum ástæðum get eg verið með tillögu háttv. flutningsmanns, sérstaklega ef hann, sem meirihlutamaður, vildi veita fylgi sitt til þess að stjórninni verði veitt fé til að útvega sér aðstoð sérfróðra manna, því að hennar mundi hún þurfa við.