27.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

85. mál, lögaldur

Framsögumaður (Lárus H. Bjarnason):

Eg gat þess síðast þegar frumv. um lögaldur var til umræðu hér í deildinni, að það varð að samkomulagi milli flutningsmanns frumv. og annara nefndarmanna, að hann tæki frumv. aftur, en þingsályktunartillaga þessi kæmi í þess stað.

Eins og öllum er kunnugt, er myndugleiki tvenns konar, persónulegur og fjárhagslegur. Frumv. það er hér var á ferðinni á dögunum, gerði að eins nokkrar breytingar að því er snerta hinn fjárhagslega myndugleika, en hafði engin ákvæði um persónulegan myndugleika.

Nefndin vill að dregin séu saman í einn stað öll þau ákvæði, er myndugleika snerta, bæði fjárhagslegan og persónulegan. Nú eru þessi ákvæði á við og dreif, og um sum atriði vantar skýr fyrirmæli, t. d. er ekkert beint lagaákvæði um það, hve nær menn verði persónulega myndugir. Það má að vísu leiða það út úr fátækralögunum frá 10. nóv. 1905, 3. gr., og hjúatilskipuninni frá 26. jan. 1866, 1. gr., að persónulegur myndugleiki byrji þá er menn eru 16 ára, en að öllu leyti eru menn þó ekki persónulega myndugir fyr en þeir eru 18 ára, t. d. geta þeir sem yngri eru en 18 ára ekki leyst sóknarband, sbr. lög 12. maí 1882, ekki geta heldur þeir sem eru innan 18 ára ráðið sig sjálfir til iðnaðarnáms samkvæmt lögum 16. sept. 1893. Eg álít réttast, að alt þetta væri bundið við sama aldurstakmark, og þá líklega 16 ára aldur.

Nú verða menn hálfráðir fjár síns 18 ára, en fullráðir 25 ára, eða áður, ef þeir fá sérstakt leyfisbréf, eða missi gift kona mann sinn Ákvæðin um fjárhagslegan myndugleika eru nú á víð og dreif, t. d. Chr. V. Dönsku lög III—17, tilsk. 18. febr. 1847, tilsk; 4. júní 1864, 4. janúar 1861, lög 12. apríl 1878, 12. jan. 1900, lög 20. okt. 1905.

Breytingartillögur háttv. þingm. Ísf. gengu í þá átt, að afnema hálfræði, og svo skyldu menn vera fullráðir fjár síns 21 árs.

Nefndin álítur viðurhlutalítið að færa niður fullveldisaldurinn, svo sem þegar hefir verið gert í flestum löndum nema Danmörku. En ef til vill væri þó heppilegt að hafa aldurinn hærri, að því er fullræði í einstakar áttir snertir, t. d. til þess að geta tekið á sig ábyrgð fyrir aðra, því að miklu hættara er við því, að ungir menn steypi sér í vandræði með ábyrgðum fyrir aðra en fullorðnir menn, og skal eg þó játa, að aldurinn einn er ekki næg trygging í þessu efni. Ef til vill ætti og aldurstakmarkið að vera hærra til þess að hafa forráðamensku fyrir aðra á hendi.

Aftur á móti álít eg varhugavert, að afnema hálfræði. Nú er það eins konar reynsluskóli — nokkurs konar göngustóll —, þar sem menn fá æfingu í því að stjórna sínum eigin fjármálum. Þessum göngustól álít eg viðurhlutamikið að kippa burt. Hins vegar finst mér að hálfræði í fjárhagslegum efnum ætti að byrja samtímis og persónulegur myndugleiki. Víða þekkist hálfræði ekki, t. d. í Svíþjóð og á Englandi. Aftur á móti er það enn í lögum bæði í Þýzkalandi, Noregi og Danmörku. En verði þingsályktunartillagan samþykt, þá er það stjórnarinnar að meta þetta, og draga öll ákvæði, er að þessu lúta, saman á einn stað, og leggja frumv. um það efni fyrir alþingi Eg hygg að það, er eg hér hefi sagt, sé í samræmi við skoðanir nefndarinnar, nema ef vera skyldi, að háttv þm. Ísf. ekki hefði sömu efasemdir og eg, að því er til þess kemur að afnema hálfræði.