03.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

86. mál, Landsbankarannsókn

Ráðherra (B. J.):

Háttv. deild og heiðraðir áheyrendur hafa nú um hríð átt kost á að heyra mörg digur orð og móði þrungin, mörg hátíðleg orð og yfirlætismikil frá flutningsmanni þessarar fyrirspurnar. En hann kannast sjálfsagt við það sem skáldið segir:

Orð, orð,

innantóm,

fylla storð, o. s. frv.

Og er það grunur minn, að verði svo um nokkur orð sagt, sem í margra manna áheyrn hafa mælt verið, þá muni mega segja það ekki sízt um margt þeirra orða, sem hávirðulegur fyrirspyrjandi hefir nú mælt hér í deildinni. Ef nokkurn tíma hafa verið töluð innantóm orð, þá var svo nú. Og er eg í engum vafa um, að um það lýkur, verða allir áheyrendur mínir mér um það samdóma.

Ráðstöfun sú, sem hér er um að tefla, og vakið hefir þennan litla þyt frá þeim mönnum, er sízt skyldi, er í rauninni svo blátt áfram og sjálfsögð, sem mest má verða; og er enginn vafi á því hins vegar, að hefðu ekki sjálfir vinir og vildarmenn bankans gert þennan úlfaþyt, gert þetta óp og uppnám, mundi alls enginn aðsúgur hafa verið að bankanum gerður. Það er þeim sjálfum einum að kenna.

Það hefir verið komist svo að orði, að hér hafi verið hafin opinber rannsókn; þótt ekki hafi verið sagt sakamálsrannsókn, þá virðist hafa verið beint ætlast til að almenningur skyldi það svo — ætlast til þess af þeim, er nota vildu þessa ráðstöfun til ásakana á hendur stjórninni.

En því fer harla fjarri. Það vita þeir vel, sem eru að reyna að æsa almenning út af þessu.

Hér er ekki annað á ferðum, en að stjórnin nýja vill kynna sér hag bankans lögum samkvæmt vegna stjórnarskiftanna. Það stendur í bankalögunum, að stjórnin geti kynt sér hag bankans þegar henni sýnist, og eigi það ekki að vera dauður bókstafur, þá veit eg ekki hvenær meiri ástæða er til að gera það en einmitt þegar stjórnarskifti verða. Eftir því sem í lögunum stendur, verður ekki annað séð, en að til þess sé ætlast, hvenær sem henta þykir.

Þetta er kallað opinber rannsókn. Hverjir hafa gert hana opinbera, ef svo á hún endilega að heita? Ekki stjórnin. Hún hefir ekki gert annað en skrifa þeim mönnum bréf, sem hún lætur framkvæma skoðunina (rannsóknina) fyrir sína hönd. Það bréf kom engum öðrum við en þeim, og stjórn bankans. Það er hún og starfsmenn bankans, sem gera ráðstöfunina heyrinkunna, æpa undan henni út um stræti og gatnamót, og tala um hana eins og eitthvert ódæði. Það er ódæði að stjórn gerir sína lagaskyldu. Þeir hafa gert sitt til, að vekja tortrygni gegn bankanum, og fá gerðan aðsúg að honum, sem mundi hafa enginn orðið, ef þeir hefðu ekki látið svona. Mikinn tókst þeim ekki að gera hann, hvernig sem þeir létu. Hann varð furðu lítill. Alls og alls teknar út úr bankanum af innlánseigendum þar 80 þús. kr. á 4 dögum. Teknar út 80 þús. kr. af nær 3 miljóna inneign alls í bankanum. Það er alt og sumt. Það kann að þykja ekki svo lítil fjárhæð, 80 þúsundir króna. En borið saman við alla inneignina, er það þó ekki stórt. Annars skal eg leyfa mér að taka það til samanburðar, sem mér hefir sagt gjaldkeri Íslandsbanka, að þar er alls ekki ótítt að út séu teknar 20—30 þús. kr. á dag, einkum þegar skip eru á ferð. En það er meira en þetta til uppjafnaðar.

Til dæmis um þá samvizkusemi og sannsögli, sem hér hefir lýst sér í herbúðum minnihlutans, skal eg geta þess, að fyrsta daginn sem byrjað var að slá ryki í augu almennings um þetta mál, sagði þá frétt mjög mikils háttar maður í því liði, að þá væri um kvöldið búið að taka út úr bankanum 90 þúsundir kr.; en ef satt skal segja, voru það milli 18 og 19 þús. Þetta var sýnilega tómur tilbúningur til að koma hrópinu sem hæst, og hræða almenning og æsa hann upp gegn stjórninni, sem væri að níðast á aðalpeningastofnun landsins, og það hinni þjóðlegri.

Sýnu merkilegra er þó það, að þann sama dag var einn af þjónum bankans — um sjálfan starfstímann þar— úti á stræti að fárast við þá, sem fram hjá gengu, um ódæði það, er hér væri verið að vinna á hendur bankanum af stjórnarinnar hendi og hvern voða honum væri í stofnað með margnefndri ráðstöfun. En látum nú svo vera, að þjónar bankans þeyti þessari loftbólu fyrir augu manna. En þá má segja, að skörin sé farin að færast upp í bekkinn, já, þá má segja, að bitið sé höfuðið af skömminni, þegar sjálfir löggjafar þjóðarinnar eru farnir að hampa þessum útburði.

Ein sagan, sem lostið var upp af einum svo nefndum »vini« bankans var sú, að verðbréf bankans væru fallin í verði á Kaupmannahafnar kaupskaparhöll um 7%. Þessi uppspuni stappar næst hreinni lýgi; þar er enginn flugufótur fyrir. Fyrst og fremst hafa verðbréf bankans alls ekki lækkað í verði minstu vitund, og sízt þó á »Børsen«, því þar hafa þau aldrei gengið kaupum og sölum. Þar af er ljóst, að greinilegri uppspuni hefir aldrei verið smíðaður.

Annar uppspuninn er sá, að ráðstöfun þessi hefði átt að vera gerð að miklu og bankanum háskalegu umtalsefni í dönskum blöðum. Ritsímafyrirspurn héðan út af því til Ritzaus Bureau hefi eg nýfengið þannig svarað:

»Bladene hidtil intet indeholdt om Landsbanken«.

Að skipaðir hafa verið ekki færri en þrír menn í þessa bankarannsókn, er ekki af öðru en því, að þetta er svo mikið verk, en þarf að vera rækilega gert, úr því að verið er að því á annað borð. Kák er verra en ekki neitt.

Hávirðulegur fyrirspyrjandi fór um það fjálgnum orðum, að bankar væru hjartað í viðskiftum landsins, og að það væri að særa hana í hjartastað, að leggja til þeirra. En er það ekki einmitt að vernda þetta hjarta, að taka fyrir eða bæla niður hviksögur um slíka stofnun, þær er henni getur staðið háski af? Og er ekki lögboðin stjórnarrannsókn á öllum hag bankans einmitt ráðið til þess?

Sé eitthvað athugavert í rekstri bankans, þá er sjálfsagt að það komi sem fyrst í ljós. Og reynist ekkert athugavert, þá hlýtur það að styrkja traust almennings á honum og verða honum til góðs og annars ekki.

Eg geri miklu fremur ráð fyrir því, að ekkert sé stórvægilegt að athuga við stjórn bankans.

En hitt getur mér ekki dulist, að full vorkunn væri þó ekki væri menn alveg öruggir um það.

Hvernig stendur á því til dæmis að taka, að 5 ár samfleytt undanfarin hefir þeim fyrirmælum bankalaganna (frá 1886) alls ekki verið hlýtt, að senda landstjórninni ársreikning bankans til úrskurðar og kvittunar áður en hann er auglýstur?

Annað atriði skal eg og minnast á. Í reglugjörð bankans frá 8. apríl 1894, er talað um gjörðabók, sem þessi stofnun eigi að halda. — Rannsókn sú á hag bankans, er nú stendur yfir, er að vísu skamt komin. En ekki hefir enn orðið vart við neina slíka bók, og hefi eg fyrir satt, að hún sé alls ekki til, hafi aldrei verið haldin.

Að öðru leyti vil eg taka það fram, að ekki er ætlast til, að gert sé heyrinkunnugt jafnóðum það, er kynni að vitnast um ólag á stjórn bankans eða vanrækslu af hennar hendi, ef eitthvað væri. Það liggur naumast á því.

Eg skal engan dóm á það leggja af né á, hvort Landsbankanum er tiltakanlega vel stjórnað eða ekki. En vitna mætti í minnihlutamenn, stjórnarandstæðingana, sem nú eru, um það, að misbrestur geti á því verið. Blað eitt hér í bæ, og það blað, sem er á allra vitorði að hávirðulegur fyrirspyrjandi (L. H. B.) ræður fyrir, flutti í haust þá frásögn, er enginn hefir efast um að sé eftir hann sjálfan, að maður, er honum sagðist svo frá, að væri mesti fjárglæframaður, hefði fengið í bankanum þá nýlega meira en 30 þús. kr. lán án nokkurrar tryggingar. Hver mundi treysta sér til að rengja sögusögn slíks sannleiksvotts og mikilmennis. Og mundi eigi mörgum verða fyrir að spyrja sem svo: úr því að slíkum manni, og það einhverjum mesta alúðarvin og venzlamanni landsbankastjórans, segist þann vegfrá, væri þá láandi þótt trúað væri öðrum sögum, sem rýra kynnu traust bankans?

Fyrirspyrjanda er mjög hugleikið, að fá því komið að og trúnað á það lagðan, að stjórnin iðrist þessa verks og mundi fegin vilja hafa það ógert. En hann hefir þar ekki neitt fyrir sig að bera. Enda mótmæli eg því alveg. Það á ekkert skilt þar við, þó að reynt hafi verið af stjórnarinnar hendi að hnekkja tilraunum minnihlutamanna til að vinna bankanum mein, með því að æsa menn til að gera aðsúg að honum, —stofnun, sem þeir látast bera hvað mest fyrir brjósti sjálfir. Það er henni bæði ljúft og skylt. Hún gerði meðal annars ráðstöfun til, að hlaupið yrði undir bagga með sparisjóði Landsbankans, ef lánast hefði þeim félögum, minnihlutamönnum, að gera háskalegan aðsúg að honum. En rannsóknina metur hún jafn réttmæta og sjálfsagða hvað sem því líður.

Þessi mikli blástur og uppivaðsla út af því, að hin nýja stjórn sýnir sig líklega til að beita lögum landsins, hvort sem þeim líkar betur eða ver, er voru áður í meirihluta á þingi og réðu því, hverjum lögum var beitt og hverjum ekki, — það er því líkast, sem minnihlutanum finnist hann eigi enn tilkall til hins sama og áður, tilkall til, að vera ekki háður öðrum lögum né stjórn, en honum er geðfeldast, honum og hans gæðingum. En eg hygg það vera heilræði fyrir þá félaga, að fara nú að lægja þau segl úr þessu.