03.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (963)

86. mál, Landsbankarannsókn

Ráðherra (B. J.):

Eg vona að eg þurfi ekki að segja mörg orð um málið framar. Eg lít svo á, sem fyrirspyrjandi, háttv. 5. kgk. þm., hafi sýnt það með framhaldsræðu sinni, að þetta, sem hann aðhefst, er ekki annað en tilefnislaus árás á hina nýju stjórn. Hér er um engan annan aðsúg að bankanum að tefla en þann, sem minni hlutinn og starfsmenn bankans sjálfir hafa vakið. Hann reyndi að sýna fram á það, að auglýsing sú um hag bankans, er bankastjórnin gaf út, hafi stöðvað að súginn. En hún kom á 4. degi, þegar aðsúgurinn var alveg að hætta, ef aðsúg skyldi kalla; hvernig gat hún þá afstýrt honum? Hún kom þegar engrar varnar þurfti við framar.

Hann sagði, að eg hefði vanrækt eftirlitsskyldu mína við hinn bankann, Íslandsbanka. Það er æði snemt að tala um vanrækslu í þessu efni, þegar ekki eru liðnir nema örfáir dagar síðan stjórnin tók við. Sú aðfinsla er hégómi. Enda þarf rannsókn á bönkunum ekki að fara fram jafnsnemma. Landsbankinn mun vera miklu nær því að geta heitið hjarta þjóðarinnar, eins og hann sagði, heldur en hinu, og er því eðlilegt, að fyrst sé litið eftir honum. Háttv. þm. vildi nærri því kalla þessa ráðstöfun lagabrot, af því að í lögunum stæði, að stjórnin gœti látið rannsaka hag bankans. Hann álítur líklega, að það þýði, að stjórnin megi ekki gera það nema minni hlutanum sé það þóknanlegt. Þessi ráðstöfun er þvert á móti í fylsta samræmi við lögin. Fleira heitir í lögum fyrirmæli en fyrirskipanir; alt er mælt fyrir í lögum, hvort sem það er bein skipun eða ekki. Hann var að reyna að toga það út úr þessu, sem stjórnin hefir gert til að afstýra aðsúg að bankanum (fyrir æsingatilraunir minni hlutans), að stjórnin hefði séð sig um hönd. Þessi tilraun er aumkunarleg og hlægileg; stjórnin þarf alls ekki að sjá sig um hönd. Þessi 3 atriði, sem hann sagði að eg hefði fundið bankanum til foráttu, eru helber útúrsnúningur. Það vita allir, að ekki þarf nema nefnd til að rannsaka það, sem stjórninni var fullkunnugt áður, hvort reikningar bankans hafa verið sendir til stjórnarráðsins til úrskurðar og kvittunar; það vitum vér að hefir ekki verið gert. Þessi útúrsnúningur er að eins sprottinn af hinni alþektu ástríðu þessa manns til að gera sig að prókúrator og fara krókaleiðir í öllum málum.

Um störf nefndarinnar er það að segja, að þau eru enn í byrjun; varla 1/50 hluta þeirra lokið. Eg veit ekkert um þau, og enda mundi eg ekki gera það heyrinkunnugt, þó eg hefði fengið vitneskju hjá henni um eitthvað athugavert við stjórn bankans.

Á sömu bókina var lært það, sem hann reyndi að afsaka það með, sem stóð í hans blaði um óreiðumanninn, er lánaðar voru 35,000 kr. án nokkurrar tryggingar eða veðs, að hann sagði. Þetta ætlaði hávirðulegur fyrirspyrjandi að fóðra með því, að sá maður væri á hausnum. Það er þá ávirðingarlaust, að lána mönnum, sem eru á hausnum, án veðs! Það á eftir því að sýna bankanum eftirlitslaust traust, þegar hann, fyrirspyrjandinn, er nýbúinn að sýna, að honum er svona gætilega stjórnað! Þetta, eða þessu líkt, gæti þó oftar að borið, og ætti þá fremur að veikja traust bankans en styrkja.

Eg hefi hvergi sagt neitt um, hvort bankinn eigi traust eða vantraust skilið, en þegar búið er að rannsaka hag hans, er tími til að tala um þetta. Ef skoðunin sýnir, að eitthvað er athugavert, smátt eða stórt, hvað þá?

Eitt til marks um hve lítilmótlegur og veikur málstaður hávirðulegs fyrirspyrjanda er, eru tilvitnanir hans í þau blöð, sem hann nefndi. Um annað þeirra er það að segja, að það hefi á þessu þingi verið miklu fremur til stuðnings minni hlutanum og flutt árásir á ráðherrann, og get eg ekki skilið annað, en hávirðul. fyrirspyrjandi segi það í háði eða gamni sínu, sem hann mælti um það mál. Og þó svo væri, að þetta blað væri flokksblað meiri hlutans, þá væri framkoma þess vottur þess, að blöðum þess flokks er ekki haldið undir neinum aga eða harðstjórn, heldur látið nokkurn veginn frjálst, hvernig þau taka í það eða það mál, sem og á að vera. En í hinum flokknum má víst ekki annað koma í blöðin en höfðingjar hans vilja vera láta. Um ummæli hins blaðsins, Þjóðólfs, er það að segja, að með allri virðingu fyrir því og ritstjóra þess, hlýt eg að vera þeirrar skoðunar, að ef það talar um fljótræði af hendi ráðherra, þá er sá dómur sprottinn af fljótræði blaðsins sjálfs. En eg erfi það ekki né tel til lýta; slíkt getur öllum á orðið, og tilgangurinn getur verið góður.

Eg fæ ekki betur séð, en þetta mál sé nú fullskýrt, að enginn maður sé nú lengur í vafa um, að hér er ekki annað á ferðinni en bíræfin tilraun hjá minni hlutanum til þess að ráðast ófyrirsynju að ráðherranum og meiri hlutanum; og þessi tilraun er því bíræfnari, sem þeir verða sjálfir að ganga á það, sem þeim er skylt að verja, nfl. Landsbankann. Þeir teygja svo úr þessu ástæðulausa hjali til þess að reyna að skaða stofnunina og svala sér á meiri hlutanum og ráðherranum.