03.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

86. mál, Landsbankarannsókn

Lárus H. Bjarnason:

Eg þarf ekki að eyða mörgum orðum að því að svara háttv. þm. Akureyrar. Það að hann flutti hina rökstuddu dagskrá meiri hlutans, en ekki háttv. sessunautur hans, þm. Ísafjarðar, er eitt út af fyrir sig nægileg upplýsing fyrir mig um það, hvernig meiri hlutinn — eða skynsamari mennirnir í honum — lítur á þetta mál.

Eg ætlaði mér ekki að minnast á »Thore« málið og sambandsmálið, en úr því háttv. þm. Ak. fór að tala um þau, þá mætti eg ef til vill segja honum, að eg öfunda hvorki meiri hlutann né hæstv. ráðherra af þessum 2 þrekvirkjum, fremur en af Landsbankaatreiðinni núna. Og eg þykist vita að enda margir meirihlutamenn muni álíta nóg komið af svo góðu á ekki lengri stjórnartíma, einum 4 vikum, þó að þeir reyni að bera sig karlmannlega. Annars gæti eg sem minni hluta maður verið ánægður með dagskrá meiri hlutans, en hefði eg verið í meira hluta, þá hefði eg barist á móti því með hnúum og hnefum, að flokkur minn færi að ata sig út á því að gefa ráðherra traustyfirlýsingu út af jafn óforsvaranlegu tilræði og nefndarsetningin er.

Hæstv. ráðherra sagði að minni hlutinn og hans blöð hefði stutt að því eftir megni, að gera þennan »hvell« til þess að mynda aðsúg að bankanum, en þetta er alveg tilhæfulaust eins og svo margt úr þeirri átt. því til sönnunar get eg vitnað í »Rvík« 28. f. m., sem fyrst talaði um nefndarskipunina. Þar er svo komist að orði:

»Vér vonum nú samt að betur úrrætist en áhorfist.

Sérstaklega vonumst vér að Íslendingar, sem eiga fé í vöxtum í bankanum, treysti betur ráðvendni bankastjóranna en ráðdeild ráðherrans.« . . .

Hefði eg og aðrir minni hluta menn gert oss far um að gera bankanum ógagn, þá hefði t. d. eg og kunningjar mínir getað tekið þaðan nokkur þúsund kr. En við höfum einmitt gert alt sem við höfum getað til þess að draga úr aðsókn að bankanum.

Annars er ekki ástæða til að sakast um orðinn hlut. En hitt þótti mér leitt að heyra af vörum hæstv. ráðherra, að nefndin, sem nú hefir setið á rökstólum í 8 daga, skuli ekki enn hafa lokið 1/50 parti af störfum sínum og eigi þannig að sitja að minsta kosti í 400 daga. Viðskiftamenn bankans, sem ekki þekkja hæstv. ráðherra, kynnu að draga þá ályktun af því, að meira en lítið væri bogið við stjórn bankans; þeir myndu tæplega fást til að trúa því að svo mikill leiðangur væri gjörður út til lúsaleitar á einum manni.

Eg sagði áðan, að ekki gagnaði að sakast um orðinn hlut, og eg skyldi heldur ekki eyða fleiri orðum að þessu óhappaverki hæstv. ráðherra, sem lítur út fyrir að ætli að slampast af stórslysalítið, ef það ekki einmitt gæfi tilefni til mikillar áhyggju um framtíðina. Nú á hæstv. ráðherra bráðum að fara að sigla sinn eigin sjó og þá er enginn til taks að taka í taumana, ef á þarf að halda. Því er nauðsynlegt að dagskrá mín verði samþykt sem nokkurs konar »memento«, nokkurs konar »mene tekel« eða aðvörun til ráðherra um að gæta sín. Frá flokkssjónarmiði mínu væri aftur á móti ákjósanlegast, að meiri hlutinn negldi sig á dagskrá þm. Ak. og gjörðist þannig samsekur ráðherra um tilræðið, en landshagsmunir hafa alt af staðið ofar flokkshagsmunum hjá oss minni hluta mönnum og því er nú svo komið sem komið er.