03.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

86. mál, Landsbankarannsókn

Ráðherra (B. J.):

Eg geri ráð fyrir að umræðurnar geti farið að styttast úr þessu. Það var ekkert orð í ræðu hins hávirðulega fyrirspyrjanda, (L. H. B) sem brýn þörf er að svara.

Hér er gerður stóreflis þytur út af því, að landsbankinn hafi verið settur undir opinbera rannsókn, en það er gersamlega rangt. Bankastjórnin þurfti ekki að fara að gera að fyrra bragði hljóðbera þessa ráðstöfun, er fólst í hinu margumrædda bréfi. Það er fyrir hennar málæði, að almenningi er rannsóknin kunn orðin, en auðvitað var nauðsynlegt að bera þetta út, ef hægt ætti að vera, að nota það til æsinga og árása á stjórnina.

Það er nú játað hér í þingsalnum af öðrum gæzlustjóranna, að ekki sé haldin þar nein gjörðabók, þótt skipað sé að gera það í 8. gr. bankareglugjörðarinnar frá 1894. En úr því að það er ekki gert, er alveg strikað yfir samábyrgð gæzlustjóranna, og öll ábyrgðin hvílir á herðum framkvæmdarstjórans eins, sem getur gert með sínu eindæmi hvað sem honum gott þykir án þess að leita samþykkis gæzlustjóranna.

Hávirðulegur fyrirspyrjandi var að bera saman Íslandsbanka og Landsbankann; en á þeim stofnunum er sá mikli munur, að aðra, Landsbankann, á landið og ber ábyrgð á öllum skuldbindingum hans; í Íslandsbanka á landið ekkert og ber heldur enga ábyrgð á skuldum hans. Þing og stjórn hefir þau ein afskifti af þeirri stofnun, að alþingi kýs menn til þess að vera í bankaráði hans ásamt ráðgjafa og hluthafakjörnum fulltrúum, og sú stjórnarnefnd á að líta eftir því, að það komi í móti seðlaútgáfugáfuréttinum, að bankinn vinni að því að efla hag landsmanna, og styrkja atvinnuvegi þeirra. Íslandsbanki á heldur ekki að gera stjórninni nein reikningsskil, en það á Landsbankinn að gera, og er það bein lagaskylda stjórnarinnar að líta eftir að alt sé þar í röð og reglu.

Eg fæ ekki betur séð en málinu hafi lokið þann veg, að hávirðulegur fyrirspyrjandi. og þeir sem honum fylgja, hafi sannað með ræðum sínum hér í dag, að gauragangur sá, er gerður hefir verið út af stjórnarráðstöfun þessari, sé gersamlega tilefnislaus, enda hefir tilraunin til þess að koma á stað háskalegum aðsúg að bankanum misheppnast með öllu. Ókyrð sú, er upp kom sakir aðfara minni hlutans í máli þessu, er nú hjöðnuð með öllu, og kemur ekki upp aftur, nema skoðunin leiði eitthvað athugavert í ljós. Eg vona að skoðunin leiði til þess, að sannanir fáist fyrir því, að alt sé í góðu lagi, — eg segi vona; það er engin vissa fyrir að svo verði. Eftirlitið hefir hingað til verið ófullnægjandi, en brýn nauðsyn ber til að það sé rækilegt, og það er einber hégómi að halda að nægja mundi að senda einn mann úr stjórnarráðinu niður í banka til eftirgrenslunar.

Eg hef þegar drepið á, að það er þegar uppvíst orðið, að ekki er alt eins og það á að vera í banka þessum, og skal eg nú bæta við einu dæmi, sem er á almanna vitorði.

Fyrir nokkrum árum var reist hús handa bankanum, að þingi og stjórn fornspurðu. Mér er kunnugt um, að landshöfðinginn, sem þá var og þjónaði embættinu í fjarvist hins reglulega landshöfðingja, var beðinn að leggja hornsteininn að bankahúsinu, en hann neitaði því, kvaðst ekki vilja koma nærri þessu ólöglega fyrirtæki. Þegar húsið var fullgert 1901, átti að sjálfsögðu að leggja reikningana fyrir þingið, en þrátt fyrir það þótt landsreikninga-endurskoðunarnefndin hvað eftir annað krefði bankastjórnina um þá reikninga, fekk hún þá ekki fyr en komið var fast að þinglokum, og þá ekki annað en lauslegt uppkast, samið af aðskotaritara í bankanum, með því að enginn annar af starfsmönnum bankans vildi nærri því koma. Og hvernig var þessi reikningur úr garði gerður? Hann var nauða fylgiskjalalítill, ef ekki sama sem því nær fylgiskjalalaus, enda gátu endurskoðunarmennirnir ekkert botnað í honum, og gerðu þeir því þá kröfu, að reikningur með fylgiskjölum yrði lagður fyrir næsta þing. Þá var flokkur sá, er bankastjórinn fylti, orðinn í meiri hluta á þingi, og hvort það var af þeirri ástæðu eða öðrum veit eg ekki, en þá var hvorki á því þingi né síðar byggingarreikningur bankans lagður fram til endurskoðunar.

Það dettur auðvitað engum í hug að væna mann þann, er um húsgerðina sá, bankastjórann, um vísvitandi fjárdrátt, en hinu verður ekki neitað, að annað eins og þetta getur ekki viljað til við stofnun, þar sem stjórnin er fyrirmynd.

Þetta, sem eg nú hef sagt, er engin kviksaga; eg hef skýrsluna frá manni, er sæti átti í landsreikninganefnd, og það er ekki lengra síðan en frá því í gær, að hann sagði mér þetta.