03.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

86. mál, Landsbankarannsókn

Lárus H. Bjarnason:

Eg vil aðeins geta þess, að »Reykjavík« 28. apríl var það blaðið, sem fyrst hreyfði þessu máli. »Lögrétta« kom að vísu út samdægurs og flutti náttúrlega grein um málið, en muni eg rétt, kom hún seinna út en »Reykjavík«. Áður hafði enginn maður nokkra vitneskju um málið. »Rvík« kom ekki út fyr en um eftirmiðdaginn 28. f. m., en kl. 12 á hádegi sama dag lýsti hæstv. ráðherra því yfir í neðri deild, að hann væri búinn að síma til útlanda, að engin hætta væri á ferðum og hefði að öðru leyti gert ýmsar ráðstafanir til að eyða misskilningi og ótta.

Þetta sýnir, að ráðherra hefir gert ýmsar varúðarráðstafanir áður en minnihlutinn lét málið til sín taka, og þannig kannast við, að sér hafi orðið á. Og þetta segi eg hæstv. ráðherra til lofs en ekki til lasts.