03.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

86. mál, Landsbankarannsókn

Ráðherra (B. J.):

Út af þessari taumlausu bíræfni hins háttv. þingmanns skal eg enn geta þess, að þá þegar, er eg gerði þessar ráðstafanir, var orðið sýnilegt, að það átti að koma af stað aðsúg að bankanum. Hve nær blað hans gat fyrst um nefndarskipunina, kemur ekkert málinu við. Þetta blað, sem hann gat um, kvað hafa komið út sama dag og eg gaf yfirlýsinguna í Nd., að sjálfs hans sögn. En tveimur dögum áður, á miðvikudag, var það borið út, að þann dag hefðu verið teknar 90 þús. kr. út úr bankanum. Sú sögusögn var tilhæfulaus og auðsjáanlega fundin upp í þeim tilgangi, að kveikja uppþot og aðsúg að bankanum. Það er því á engum rökum bygt, að eg hafi gert nokkrar ráðstafanir til varnar bankanum áður en uppþotið var byrjað, og allar ályktanir af því alveg út í hött. — Þetta tiltæki, að búa út kviksöguna um að 90 þús. kr. hefðu verið teknar út úr bankanum á einum degi, í stað þess að það höfðu aðeins verið teknar út 18 þús. kr., var glæfralegt tilræði við bankann, og eg vil segja glæpsamlegt, hvort sem sá maður, er söguna bar út, hefir fundið hana upp sjálfur, eða haft hana eftir öðrum. Eg skal láta ósagt, hvort heldur hefir verið.