17.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Ólafsson:

Háttv. frams.m. skýrði frá því, að princip nefndarálitsins væri sparnaður. Eg hefi verið á nokkrum þingum, alloft í fjárlaganefnd og þá framsögumaður hennar, og hefi eg aldrei heyrt nokkura fjárlaganefnd annað segja en að sparnaður væri meginreglan. Svo að þetta hjá háttv. framsm. er ekki neitt nýtt eða sérlega sláandi. Aftur í móti hafa verið skiftar skoðanir um, hvort sparnaðurinn hafi orðið efst á baugi í raun og veru, og eins kann enn að fara.

Hann (framsm.) taldi enga ástæðu til að vænta þess, að skoðanir hinnar nýju stjórnar kæmu fram í nefndarálitinu, því að engin ný stjórn væri til. Mér þykir nú samt líklegt, að honum muni ekki vera svo mjög ókunnugt um, hverjar verða muni skoðanir hinnar nýju stjórnar. En ef svo er, að honum er það ókunnugt, þá er engin ástæða til þess að hraða málinu til þess eins, að framsm. geti verið viðstaddur umræður.

Eg skal fúslega kannast við það, að mér finst ekki nema sanngjarnt að 2. umr. þessa máls sé hraðað svo, sem kostur er á, til þess að henni geti orðið lokið, áður en framsm. fer utan.

En þá hlýtur líka háttv. framsm. að kannast við það, að hann geti talað hér af hálfu komandi stjórnar, sökum þess að fyrnefnd utanför hans mun þó ekki eiga með öllu óskylt við það mál.

Háttv. framsm. gat þess ennfremur, að minnihlutinn myndi hafa nægan tíma til undirbúnings, þar sem nefndarálitið nú lægi fyrir, með því líka að skoðanir hans myndu fast ákveðnar fyrir fram; minni hlutinn myndi standa þar sem einn veggur.

En fyrst og fremst stoðar það lítið, þótt verið sé að útbýta nefndarálitinu núna, og enginn tími vinst til að gera breyt.till.

Hinsvegar vil eg taka það fram fyrir mína hönd, að eg mynda mér ekki svo rígfasta skoðun í neinu máli fyrirfram, að eg beygi mig ekki fyrir góðum og gildum rökum, er kynnu að koma fram fyrir hinu gagnstæða, enda veit eg ekki til að slíkt hafi komið fram af hálfu minni hlutans á þessu þingi.

En meiri hlutinn hefir fengið fram þessi þingskapa afbrigði fyrir aðstoð minni hlutans; án hans samþykkis hefði það ekki verið unt.

Oss virtist sanngjarnt að verða við þeim tilmælum.

Þá sagði háttv. framsm. að ekkert tjón væri að því, þótt mál þetta væri rætt, áður en til niðurlagsins kæmi.

Hann vill sýnilega ekki að minni hlutanum gefist kostur á að taka þetta málið til rækilegrar íhugunar í heild sinni. Mætti þó búast við, að nefndarálitið væri að mestu samfelt mál — hvíldi á einhverri grundvallarskoðun, og því ekki heppilegt að fá ekki að sjá það nema í pörtum.

Eg hygg því, að það sé engan veginn sanngjarnt, að málið sé tekið á dagskrá á morgun með nýjum afbrigðum, enda engin nauðsyn á því, af því að 2. umr. ætti að geta orðið lokið á laugardagskvöld fyrir því.

Það er einmitt miklu hentugra, að fá að nota tímann á milli (morgundaginn) til þess að gera breytingartill., og að 2. umr. yrði þá á föstudag og laugardag. Það ætti að verða nóg.

Í annan stað er meiri hlutanum það í lófa lagið, að skera niður umr. þegar honum býður svo við að horfa — deildin mun geta það, ef henni sýnist.