17.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Skúli Thoroddsen:

Sem formaður fjárlaganefndarinnar, og út af því sem háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) sagði um það, að nefndarálitið kæmi seint fram þá skal eg geta þess, að nefndarálitið var undirskrifað 16. marz, og kom því eins fljótt fram, eins og vanalegt mun hafa verið. — Áður hefir nefndarálitið komið í júlílok, og ef háttv. þm. minnist þess, hvenær þing var sett að þessu sinni, þá hlýtur hann að sjá, að tíminn við nefndarstörfin hefir ekki orðið lengri, en venja er til.

Í sambandi við það, er eg nú hefi tekið fram, má og geta þess, að áður hefir aldrei legið fyrir fjárlaganefndinni jafnmikill aragrúi af bænarskrám og ýmiskonar erindum, frá stjórnarráðinu og öðrum, sem í þetta sinn. Það hefir því aukið mjög starfa nefndarinnar.

Nefndin ákvað að hafa fund með sér á hverjum degi, og hefir aðeins orðið hlé á því, þegar annars var ekki kostur, sakir þingfunda framan af þingi. — Annars má altaf segja, og finna eptir á, að meira hefði mátt starfa, og að störfunum hefði mátt ljúka á skemri tíma. En hvað sem því líður, hefir nefndin viljað leggja alt kapp á, að hraða störfum sínum sem mest mátti verða.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) bjóst við, að í till. fjárlaganefndarinnar, eða meiri hluta hennar, sæist fjármálastefna komandi stjórnar — eða flokks þess, er nú hefir afl atkvæða á þingi. — En hafi hann ætlast til þessa, átti hann þegar í þingbyrjun, að inna í þá átt við flokksbræður sína í nefndinni, því að nú er svo komið, að nefndarálitið er að mestu samhljóða álit allra nefndarmannanna; þar hefir ekki verið um neina flokkaskifting að ræða, nema þá í einstaka, en þó örfáum atriðum.

Þó að það gæti í rauninni verið heppilegt, að glögg flokkaskifting kæmi fram í fjármálum, þá hefir slíkt eigi verið á undanförnum þingum, nema í stöku meiri háttar fjármálum, eins og t. d. var um ritsímamálið. —

Þegar litið er á fjárlagafrumv. stjórnarinnar, þá getur nefndarálitið ekki verið öðru vísi en mótað af störfum eða fjármálastefnu fráfarandi stjórnar; — það hlýtur að verða nokkurs konar spegill af gerðum fráfarandi stjórnar, þar sem allur þorri gjaldliða á fjárlögunum eru lögákveðin gjöld, eða miða til þess, að halda áfram almennum störfum, og stofnunum, sem þegar hefir verið komið á fót.

Þegar þessa er gætt, sem og hins, að andstæðingaflokknum hefir ekki gefist kostur á, að undirbúa neitt undir þetta þing, og þar sem skattamálanefndin hefir óskað, og ráðherra fallist á, að endurskoðun tolla- og skattalöggjafarinnar biði næsta þings, þá er ekki að vænta þess, að fjárlaganefndarálitið sýni neina ákveðna stefnuskrá í fjármálum að þessu sinni. —

Mér virðist svo ekki ástæða til að fara frekari orðum um þetta mál. Eg hefi gert grein fyrir, hvers vegna nefndarálitið gat ekki komið fyr.

Hinsvegar er það misskilningur, að hægt sé að sýna stefnuskrá komandi stjórnar, þar sem þannig var að mestu í garðinn búið af fráfarandi stjórn, að því verður ekki við komið.