19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Ólafsson:

Það er sjaldan að mikill ágreiningur verði um tekjurnar, enda vil eg ekki verða til að vekja hann nú. Að eins eru það smáatriði svo sem nöfn á tekjuliðunum, sem nefndin hefir komið með breytingu um. Eg skal játa það að nöfn þau, sem nefndin hefir stungið upp á eru viðkunnanlegri og einatt notuð í daglegu tali, en hin nöfnin eru þau lögskipuðu nöfn, og þarf þess vegna lagaákvæði til þess að breyta þeim; vildi eg því skjóta því til nefndarinnar, hvort henni þætti ekki ráðlegt að geyma þessar breytingar til næsta þings. En þetta eru smámunir, sem eg að eins vildi benda á.

Aftur á móti get eg með engu móti verið háttv. framsm. (B. J.) samdóma um það, að hægðarauki sé að því, að safna öllum athugasemdum og skýringum við frumv. aftan við það. Eg er viss um, að meiri hluti þingm. eru mér samþykkir um það, að slík tilhögun sé einungis til þess, að gera mönnum örðugra fyrir, og muni valda ruglingi, og vona eg, að háttv. þingm. greiði atkvæði á móti þessari breytingu. Það er líka lítilfjörlegt atriði, að vilja færa niður tekjur af símum landsins síðara árið, því þá eru einmitt líkindi til, að þær hækki að miklum mun, þá er hinar nýju álmur fara að gefa arð, svo sem Vestfj.- og Árnessýslulínan. Líklegra, að þær mundu verða 90 þús. en 80 þús., og áreiðanlegt er það, að þær verða meiri en ekki minni. En í rauninni gerir það ekki til, hvað þær eru áætlaðar, þær verða jafnar, hvort sem heldur er.