19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Björn Jónsson):

Það er undarleg áfergja í háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.), að halda jafn langar ræður út af smámunum.

Um leyfisbréfagjöldin sé eg ekki betur, en að þau haldist óbreytt.

Það er bara tilbúningur út í loftið, til þess að geta komið með einhverjar aðfinslur, eins og hans er von og vísa.

Um færslu athugasemdanna aftur fyrir frumv. er svo mikið veður hefir verið gert úr, er það að segja, að eg man ekki betur, en að samþykt hafi verið í einu hljóði af fjárlaganefndinni — og hygg eg að ekkert mál hafi haft þar meira fylgi — að færa skýringarnar aftur fyrir.

Eg hafði hugsað mér, að við hvern lið yrði sett tilvitnun í athugas. aftan við, hvar skýringarnar væri að finna, og skil eg ekki annað, en að hver maður megi láta sér það nægja. Það voru ekki nein smáræðis ósköp, sem á gengu fyrir háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) yfir því, að þurfa að gæta í 2 staði. Það er eins og hann hafi aldrei lesið bækur, þar sem skýringar eru aftan við, en ekki neðanmáls.