19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Ráðherrann (H. H.):

Að eins örfá orð. Nefndin hefir lagt til, að lækka tekjur af símum, en hækka þær af póstferðum. Mér finst, að það ætti að vera öfugt. Tekjuaukning af póstferðum stafar undanfarin ár mest af frímerkjasölu til útlanda, en ekkert útlit er fyrir, að ný frímerki verði gefin út næsta fjárhagstímabil, og því ekki vert, að hækka áætlunina.

Símatekjurnar aftur á móti hækka stöðugt vegna vaxandi notkunar, og nú, er nýjar álmur bætast við og eru komnar til, hljóta tekjurnar að verða eigi all-lítið hærri en undanfarin ár. Áætlun stjórnarráðsins tekur að vísu nokkurt tillit til þess, en mjög hóflega, svo að þá áætlun mætti sjálfsagt hækka. Vitanlega skiftir það minstu; tekjurnar verða þær sömu, hvað sem áætlað er.

Viðvíkjandi athugasemdunum, þá er miklu handhægara, að hafa þær við hvern lið fyrir sig, eins og verið hefir til þessa, heldur en að draga þær allar aftur fyrir, eins og nefndin vill gera. Þó væri það nokkur bót í máli, ef tilvitnun væri við liðina í athugasemdunum, en samt held eg að menn verði fljótt leiðir á þessari nýbreytni, og eg skil jafnvel ekki, að það sé rétt, þegar búið er að samþykkja fjárveitingarnar skilyrðislausar, að fara nú eftir á, að hnýta við þær skilyrðum, eða í öllu falli mun það oft koma all-óþægilega við það, að slíta atkvæðagreiðsluna sundur um fjárveitinguna og skilyrðið, eins og gera verður með þessu nýja fyrirkomulagi.