19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Þorkelsson:

Mér er að vísu þetta fyrirkomulag um skýringarnar ekkert kappsmál, en eg verð að taka undir með háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) um það, að það er óhagræði að flytja þær aftur fyrir. Það er reyndar oft svo í bókum, einkum kenslubókum, og er það með vilja gert, til þess að lausn gátunnar liggi ekki opin fyrir nemandanum.

Þetta hefir líka tíðkast í vísindabókum, m. a. í bók þeirri, er Kn. Berlin hefir nú sent oss; þar er haugað saman svo hundruðum skiftir af skýringum og athugasemdum aftan við. Og er að því margfaldur vinnuauki og bagi fyrir hvern þann, sem vill rannsaka tilvitnanirnar, og miklu óhentugra, en ef það væri neðanmáls. Eg legg því til, að aths, haldist við hvern lið, eins og áður hefir verið, til sparnaðar þá með smærra letri, svo að enginn þurfi að gera sér leit úr þeim. (Björn Jónsson: Þarf enga leit). Eg þarf ekki að spyrja háttv. framsm. að því, að þetta er nauða óhentugt; hann má skilja það, að með þessu er verið að vinna úr hendinni, en ekki í hendina.