04.04.1911
Efri deild: 27. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

4. mál, styrkveiting úr landssjóði til búnaðarfélaga

Framsögunmaður (Jósef Björnsson):

Eins og hv. deild sér, hefir nefndin, sem hefir haft þetta mál til íhugunar, komið fram með allmargar breytingartill. um skilyrðin fyrir styrkveiting úr landsjóði til Búnaðarfélaga. Þessi þingsályktunartillaga er sprottin af þeirri þörf, sem orðin er á því að setja nýjar og fyllri reglur en verið hafa um slíkar styrkveitingar. Það er eðlilegt að slíkar reglur verði úreltar, þegar þær hafa staðið um nokkurn tíma, og þurfi því við og við að breyta þeim. Núgildandi reglur um styrkveitingar til búnaðarfélaga eru orðnar á eftir tímanum að ýmsu leyti. Það á rót sína í því að jarðabótum hefir farið fram og að þær hafa tekið stórmiklum breytingum. Þær reglur, sem hv. Nd. hefir samþykt og hingað eru komnar, fara talsvert í þessa átt. En þó fanst nefndinni ástæða til að koma fram með nokkrar breytingatillögur við þær, og skal eg með nokkrum orðum skýra frá ástæðum nefndarinnar til þess. Breytingartillögurnar eru margar smávægilegar, sumar aðeins orðabreytingar, og þarf eg því ekki að vera langorður um þær. Fyrsta breytingartill. á þingskj. 442 fer fram á það að orðin „og grónar flagsléttur“ falli burt úr staflið B. 1. a. Þetta er gjört vegna þess að nefndin verður að álíta, að þetta eigi betur heima undir næsta lið. Þá leggur nefndin til að B. 1. b. verði tveir liðir: 1. Túnútgræðsla (óbylt land). 2. Plægt land og herfað (flagsléttur og sáðsléttur), sem er nýr liður. Þessi nýi liður er að áliti nefndarinnar nauðsynlegur. Fyrst og fremst fyrir þá sök, að nú eru menn farnir að gera talsvert mikið að því að nýrækta land með því að plægja það, herfa og sá í það. Að taka þetta fram sérstaklega, sem lið út af fyrir sig, hefir einkum þýðingu að því leyti að það gefur manni tök á að sjá hve mikið er ræktað út af landinu. Og það sést ekki aðeins hvernig ræktað land stækkar, heldur einnig hvernig það er ræktað. En þetta hefir talsverða hagfræðilega þýðingu.

Þá skal eg minnast á 4. brtill. á þskj. 442 við B. 1 k, að í stað orðanna „vegir yfir tún og engjavegir“ komi tún, og engjavegir, svo að liðurinn verður: „upphleyptir tún- og engjavegir“. Eins og liðurinn er orðaður í frv. N. d. getur hann orðið til þess að ómerkilegir engjavegir, hvort sem þeir eru upphleyptir eða ekki, gætu orðið styrktir, en í veg fyrir þetta er komið með brtill.

Þá er 5. brtill við B. 2. a. að í stað orðsins „ferstikur“ komi merkið m2 og að yfirleitt komi merkið m í stað orðsins stika hvar sem er í tillögunni. Þessa breytingu vill nefndin gera til þess að koma á samræmi við lögin um metramæli og vog frá 16 nóv. 1907. Að vísu segir í 3. grein þessara laga, að stjórnarráð Íslands geti ákveðið, hvar íslenzkt heiti megi nota jafnhliða útlendu heitunum. En hér virðist réttara að binda sig frekar við hin lögákveðnu heiti heldur en hvað stjórnarráðið heimilar. Enda munu þessi merki ekki geta valdið neinum örðugleikum út um landið. Þá eru brtill. um það hvað leggja skuli í dagsverk. Í 1. brtill. við B. 2 c. leggur nefndin til að af byltum og blönduðum sáðreitum sé ekki lagt meira í dagsverk en 50 ferstikur, það er jafnt og af túnasléttum. Það er ekki minna verk að rækta landið til sáðreita en að slétta tún og er því ósanngjarnt að þriðjungi meira sé lagt af þeim í dagsverk. Þá leggur nefndin til að þegar um girðingar úr sléttum vír er að ræða, þá geti þær orðið teknar til greina þó ekki séu strengirnir nema 3. Þessar girðingar eru helzt meðfram heimreiðum og til þess ætlaðar að hamla gripum, einkum hestum, að hlaupa af veginum inn á tún og geta þær verið fullgildar til þeirra hluta þó strengirnir séu ekki nema 3. En jafnframt þessari breytingu leggur nefndin til að meira sé lagt í dagsverk. Þá leggur nefndin til að sú breyting verði gerð á liðnum B. 2 e. að garðar hlaðnir á skurðbakka þurfi ekki, til þess að verða teknar til greina, að vera fullur meter á hæð, heldur megi þeir vera lægri eða 0,65 m. ef gaddavírstrengur er hafður ofan á. Þá er 10. brtill. við B. 2 í 2 um það hve mikið skuli leggja í dagsverk af lokræsum úr hnaus (holræsum). Slík ræsi eru ófullkomin og endingarlítil, en þó svo fljótgerð að nefndinni fanst of lítið að heimta ekki meira en 8 m. í eitt dagsverk og vill færa það upp í 10 m. Eg hefði verið fús á að færa töluna enn meira upp, því eg tel ekki ástæðu til að hlynt sé sérstaklega að þessari ræsagerð. Þá er 11. brtill. við B. 2. í 3. um að færa upp þann metrafjölda, sem lagður er í dagsverk af pípuræsum úr 5 og upp í 6 og getur það ekki talist ósanngjarnt, þótt pípur séu nokkuð dýrar hér hjá oss. 12. brtill. fer fram á það að alstaðar í tillögunni, þar sem talað er um forir, komi orðið safngryfjur í staðinn. En þar eð þetta er að eins orðabreyting skal eg ekki frekar tala um hana. Þá skal eg minnast á 15. brtill. við C. 4. um það hvað útheimtist til þess að gaddavírsgirðing verði talin fullgild. Þar vantar ákvæði um það hversu traustir máttarstólpar skuli vera og vill því nefndin mæla með, að bætt sé inn í greinina því skilyrði, að máttarstólpar úr tré skuli vera 10 cm. á hvorn veg. 14. brtill við C. 2. er um það hvað skuli kalla tvíhlaðna grjótgarða, og er í reglunum eins og þær komu frá Nd. það ákvæði að það skuli telja tvíhlaðinn garð, ef gróin jörð er bak við einfalda hleðslu. Þetta getur nefndin alls ekki aðhylst og vill því kippa þessu ákvæði út úr greininni. Þá eru á þskj. 454 nokkrar breytingartill. fram komnar frá tveim háttvirtum deildarmönnum og hefir nefndin í heild sinni getað aðhylst 4 af þeim, sem sé brtill. 1—3 og 5.

Fyrsta br.till. miðar að því hvað útheimtist til þess að búnaðarfélög geti orðið styrks aðnjótandi. Hún fer fram á það að hækka tölu þeirra félagsmanna, sem heimtað er að unnið hafa árið áður en styrkurinn er veittur úr 5 og upp í 8. Það verður tæpast sagt annað en að þessi krafa sé svo væg, að ekki sé ástæða til þess að hafa á móti henni. Þá er önnur br.till. á sama þskj. við sama lið þess efnis að dagsverkafjöldi sá, sem heimtaður er af hverjum þessara manna, skuli hækkaður úr 10 og upp í 12. Um þessa br.till. er sama að segja og hina fyrri, að krafan er svo væg að nefndin getur vel aðhylst hana. Þá getur nefndin einnig fallist á að fella burt síðustu málsgreinina í A. 1. eins og farið er fram á í 3. br.till. á þskj. 454. Kemur þá 5. br.till. á sama þskj. þess efnis að eftir 1919 megi enginn skoðunarmaður taka upp í jarðabótaskýrslu túnasléttur, túnútgræðslu eða sáðreiti á þeim heimilum þar sem eigi eru áburðarhús og salerni. Þetta getur nefndin líka aðhylst, því það má óhætt telja mikinn þátt í góðri meðferð áburðar að höf ð séu hús fyrir hann.

Í öðrum löndum eru áburðarhús á sumum stöðum eigi annað en vegglausir skúrar, þar sem áburðurinn því að eins er varinn fyrir úrfelli. Yrði slíkir skúrar bygðir hér, og vel væri gengið frá haugbotninum, þá má telja rétt, að þeir álitust vera áburðarhús.

Eg skal játa að slík hús gætu á sumum stöðum verið fullnægjandi eða mikil bót verið að þeim að minsta kosti, þar eð áburðurinn fengi vörn fyrir úrfelli, er annars gæti skolað svo eða svo miklu burt, en á flestum stöðum hygg ég að fullkomnara hús mundi happasælla. Með áburðarhúsum mundi áburðurinn ekki einungis verða miklu betri, heldur og stórum meiri en á þeim stöðum, er áburðarhús vantar.

Sumum kann ef til vill að þykja nokkuð hart, að bændur séu skyldaðir til þess að búa til slík hús, en þess ber vel að gæta að þessi skylda er frjáls, — á ekki skylt við neina þvingun, því maðurinn hefir frjálst val um það, hvort heldur hann vill byggja húsið eða verða af jarðabótastyrk. Loks eru þá brtill. 4. og 6., sem nefndin hefir ekki getað orðið sammála um að aðhyllast.

Í 4. br.till. er ákveðið að einn skuli vera skoðunarmaður í sýslu hverri, en jafnframt tekið fram að í samráði við stjórn búnaðarfélags Íslands megi hafa fleyri slíka menn. Eg fyrir mitt leyti teldi heppilegra að maðurinn væri að eins einn, og með því mundi eftirlitið miklu nákvæmara en ef fleiri væru. En sumstaðar getur auðvitað hagað svo til, staðhátta vegna, að einn mundi ekki duga En meiri hluta nefndarinnar finst í því liggja óþarfa skriffinska, að stjórn búnaðarfélagsins skuli endilega þurfa að koma til sögunnar um útnefning slíkra manna. Þá er 6. br.till. að ekki skuli önnur félög njóta styrks, eftir 1915, en þau, sem séu í einhverju búnaðarsambandi. Það er nú ekki allsendis ljóst, hvort hagurinn af þeim samböndum, sumum hverjum, svarar vel kostnaðinum, eða svo lítur meiri hluti nefndarinnar á það mál. En nú eru vitanlega á stórum svæðum sambönd milli búnaðarfélaga komin á, og með því að ekki er farið fram á að sambandið skuli ná yfir ákveðið svæði, þá er ég þessu ekki beinlínis ósamþykkur; eg tek það fram sem mína skoðun, að ég sé ekki neitt sérlega varhugavert við þá breytingartillögu.