27.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Stefán Stefánsson (6. kgk. þm.):

Eg á tvær brtill. á þingskjali 718. Fyrri tillagan fer fram á það, að Jóni Sigtryggssyni sé veittur 800 kr. styrkur hvort árið til þess að nema vélafræði í Mittweida á Þýzkalandi. Þessi maður er kornungur, en hefir þó í allmörg ár fengist við vélafræði. Fyrstu tilsögn sína fékk hann í gagnfræðaskólanum á Akureyri; síðan sigldi hann til Hafnar, og hefir verið þar síðan. Árið 1908 gekk hann á „Mekanisk Fagskole“, og af honum fór hann árið eftir, og réðist sem nemandi á verksmiðju þá í Danmörku, sem býr til Dan-mótora, og býst eg við að flestir muni kannast við það nafn. Árið eftir varð hann sveinn, og hefir síðan unnið á verksmiðjunni. Hann hefir beztu meðmæli þaðan. Eg er manninum kunnugur vegna þess, að hann var lærisveinn minn um nokkurt skeið, og er uppalinn á Akureyri. Frá barnsaldri hneigðist hugur hans að uppfundningum, og því sem á dönsku er kallað „Mekanik“. Hann hefir fundið upp ýmislegt smávegis, sem sýnir að hann hefir hæfileika í þá átt. Nú langar hann til að fullkomna sig í vélfræði á þessum skóla. Nú er enginn maður hér á landi, sem er fullfær í þessari grein, eða hefir próf í henni. En vitanlega fjölgar vélum hér árlega, einkanlega hreyfivélum (mótorum“) og er því ekki vanþörf á manni, sem getur gert við slíkar vélar og jafnvel hefir verkstæði til að smíða þær. Eg vil því mæla hið bezta með þessari tillögu.

(Ráðherrann: Er maðurinn ekki efnaður ?)

Nei, hann er ekki efnaður. Faðir hans var upphaflega efnaður, en efni hans hafa gengið mjög til þurðar upp á síðkastið, svo hann treystir sér ekki til að kosta hann nú algerlega á þessum skóla. Skólaveran á Mittweida kostar 1600 kr. á ári. Faðir hans getur ekki lagt honum meira til árlega en helming þessarar upphæðar. Þingið hefir alt af litið svo á, að rétt sé að styðja hæfa menn til að leita sér fræðslu erlendis í þeim greinum, sem ekki er hægt að nema hér. Við erum að berjast fyrir því að koma upp fræðslustofnunum í landinu, í sem allra flestum greinum, en það líður vafalaust á löngu áður en við getum stofnað til innlendrar fræðslu í greinum eins og þessari, þar sem þörf er að eins á fáum mönnum. Þess vegna verður að styrkja menn til að fara utan og afla sér fræðslu þar; enda hefir þeirri reglu verið fylgt um langt skeið, að veita nærri á hverju þingi fleiri en einum manni slíkan styrk. Að þörf sé á slíkum sérfræðingi hér, er engum vafa undirorpið; og dýrt er að leita ávalt til útlanda til að fá aðgerð á vélum, enda lítið sjálfstæðisbragð að slíku. Allar þjóðir keppa eftir því, að hafa sem mest í landinu sjálfu, og þurfa sem minst og sjaldnast til annara að sækja. Eg skal bæta því við, að þenna tíma, sem Jón var í Höfn, gekk hann, auk þess sem hann var á þessari verksmiðju, stöðugt á kvöldin á „Det tekniske Selskabs Skole“, til að nema ýmislegt, sem að grein hans lýtur, svo sem teikning, stærðfræði o. fl.— Hin tillagan, sem eg á, fer fram á það, að Kristínu Jónsdóttur verði veittur 500 kr. styrkur hvort árið til að fullkomna sig utanlands í dráttlist. Þessi unga kona fékk fyrstu mentun sína hér í Reykjavík, að mig minnir hjá Stefáni Eiríkssyni. Síðan sigldi hún til Hafnar og gekk þar á „Tegne- og Kunst-Industri Skole for Kvinder“. Þaðan hefir hún beztu meðmæli. Forstöðukonan segir um hana, að hún sé hneigð fyrir dráttlist og hafi ágæta hæfileika í þá átt. Eg hefi sjálfur séð ýmislegt eftir hana og ber það alt vott um að hún sé langt komin með námið. Nú langar hana til að fá frekari fræðslu í þessari grein, og þá helzt að ganga á „Kunst-Akademiet“ næsta ár. Ástæðan til þess, að eg sting upp á þessari fjárveitingu, er einkum sú, að eg finn og veit að mikill skortur er á kennurum í dráttlist hér á landi, en kona þessi ætlar einmitt að verða teiknikennari. Mér er ekki kunnugt, að þeir séu margir hér á landi, sem hafa fengið góða æfingu og kenslu í þessari grein; þeir eru ef til vill nokkrir hér í bænum, en úti um land eru þeir ekki til. Á Akureyri er að eins einn maður, er sé vel fær um að kenna dráttlist. En dráttlist tel eg vera eina allra nauðsynlegustu kenslugrein í hverjum skóla, ekkert síðri en skrift. Eg hefi oft fundið mjög til þess, að eg naut engrar tilsagnar í dráttlist á unga aldri og oft bagað mér. Sama munu fleiri geta sagt. Eg tel það eina hina mestu framför í skólalöggjöf vorri, þegar svo var skipað fyrir, að kenna skyldi dráttlist í skólum hér og það að miklum mun, og ætti, að mínu áliti, að leggja vaxandi áherzlu á dráttlistarkensluna. En fyrsta skilyrðið fyrir því er að völ sé á góðum kennurum. Eg álít því að sjálfsagt sé að styðja þessa konu, sem hefir góða hæfileika og er vel á veg komin til þess, að hún geti orðið vel fær um að kenna þessa grein síðar meir.

Eg hefi fylgt nefndinni í öllum tillögum þess að eg er meðmæltur styrkhækkuninni hennar hingað til, en hún hefir komið með tvær tillögur til breytingar á þessum kafla fjárlaganna, sem eg get ekki fallist á. Önnur er sú, að færa niður styrkinn til Helga Péturssonar. Í því atriði er eg sammála hv. þm. V.-Ísf. og V.Skaftf. Eg veit að Helgi er einn af allra efnilegustu vísindamönnum, sem við eigum. Hann hefir þegar með ritum sínum gert okkur mikið til sæmdar, og margar athuganir hans eru stór gróði fyrir alheimsvísindin. Önnur ástæða hefir ekki verið tilfærð fyrir þessari lækkun, en að hann sé nú ekki alveg vinnufær. En mér er kunnugt, að hann býst sjálfur við að geta tekið upp aftur vinnu sína með „vaxanda vori“. Hins vegar veit eg það líka að ferðalög hans eru mjög dýr, því að mikinn útbúnað þarf til þeirra, þau eru miklu dýrari en t. d. ferðalög grasafræðinga og dýrafræðinga. Eg vil einlæglega leggja á móti því að tillaga nefndarinnar um þessa 500 kr. lækkun á styrknum verði samþykt, en með því að Helgi haldi þeim styrk, sem hv. nd. hefir samþykt. Fái hann ekki þann styrk, getur lítið orðið úr þeim rannsóknum, sem styrkurinn veitist til, því að 1500 kr. á ári hrökkva hvergi nærri til, og vilji þingið á annað borð styrkja menn til einhverra starfa, þá er vitanlega rangt að veita svo lítið fé, að það komi ekki að tilætluðum notum. Hin till. nefndarinnar, sem eg get ekki fallist á, er að lækka styrkinn til Þorsteins Erlingssonar. Eg skal ekki fara að fjölyrða um verðleika hans, þeir eru öllum kunnir. Það hefir verið sagt, að hann hafi ekki látið mikið til sín heyra á síðustu tímum. Eg veit þó, að hann er nú að vinna, þó af veikum mætti sé, því maðurinn er bláfátækur og veill heilsu. Eg sé ekki að nokkur sanngirni mæli með því, að fara að klípa þessar 200 kr. á ári af styrknum til hans, til að gera honum enn örðugri hina örðugu lífsbaráttu hans. — Þá skal eg geta þess að eg er meðmæltur styrkhækkuninni til Sighvat Grímssonar, og sömuleiðis fjárveitingunni til Hjartar Snorrasonar og Karls Sveinssonar. Það stendur líkt á fyrir Karli og Jóni Espólín; hann vill fullnuma sig á skólanum í Mittweida og teldi eg illa farið ef hann fengi ekki þennan litla styrk til þess. — Þá á eg líka bágt með að greiða atkvæði móti styrkhækkuninni til Guðm. Guðmundssonar, því ekki verður því neitað að maðurinn „yrkir eins og páfin“. En verði hann hækkaður, þá býst eg við, að eg komi með brtill. til 3. umr. um hækkan á styrknum til hins Guðmundarins, sem er við hliðina á honum á fjárlögunum, hann er engu síðri, og vil eg helzt hafa þá jafna.