08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Þá vil eg skýra frá því, sem eg hefi áður skýrt frá í efri deild, að þetta margumrædda landssjóðslán til bankavaxtabréfakaupa, er nú loks gert upp. Eftir langa mæðu tókst að grafa þetta upp, og skal eg leyfa mér að lesa upp skýrslu um, hvernig láninu hefir verið varið:

Lánsupphæðin var kr. 1470000.00

Vextir í bönkum erlendis — 10287.00

Samtals kr. 1480287.83

Þetta hefir verið greitt þannig:

Til Landsbankans (gegn-

um Landmandsb.) kr. 600000.00

Til ríkisféhirzlu — 100000.00

Til Íslansbanka (gegnum

Privatb. og Centralb.) — 700000.00

Til sama (kr. 7481.80+

2462.27+11520.34)

Samtals — 21464.41

Afborgun og vextir lánsins til 11/12 1909 — 58823.42

Samtals kr. 1480287.83

Er þá búið að koma þessu heim upp á eyri. En hins vegar má af þessu sjá, að láninu hefir ekki að öllu leyti verið varið eins og til var ætlast. Að vísu hafa verið keypt bankavaxtabréf Landsbankans fyrir lánspeningana, að upphæð 1300000 kr. að nafnverði, en kaupverðið hefir verið 1274000 kr. En svo hafa verið greiddar af lánsfénu inn í ríkisféhirzluna kr. 100000.00, og hafa þær þannig gengið upp í þarfir landssjóðs. Ennfremur hafa gengið til landssjóðsþarfa kr. 21464.41, sem greiddar hafa verið inn í Íslandsbanka, og hafa bankavaxtabréf ekki verið keypt fyrir þessar upphæðir. — Þriðja upphæðin kr. 58823.43 er afborgun og vextir af láninu, sem hefir verið tekin af sjálfri lánsupphæðinni. En þetta er rangt, því að fyrir alla lánsupphæðina átti að kaupa bankavaxtabréf. Það eru því þannig alls kr. 180287.83, sem landssjóður skuldar láninu eða lánskonto. Ef ekki eru taldir með vextir og afborgun af láninu, er skuldin kr. 121464.41. Þetta er þá sú upphæð, sem runnið hefir inn í jarðabókarsjóð og því ekki hægt að kaupa bankavaxtabréf fyrir fyr en jarðabókarsjóður hefir næga peninga til þess að endurgreiða hana, en það hefir hann nú ekki. — Eg álít, að hér við mætti einnig bæta 26 þús. kr., sem er 2% af þeim 1300 þús. kr. í bankavaxtabréfum, sem keypt hafa verið fyrir lánsupphæðina, með því að þau hafa verið keypt fyrir að eins 98% enda hefir lánið sjálft verið talið með 2% frádrætti (1470000 kr. í staðinn fyrir 1500000 kr.). Eg álít rétt að gefa háttv. deild þessa skýrslu út af því umtali, er hefir orðið um þetta mál. — Greinargerð er þannig fengin fyrir öllu láninu, en því hefir ekki öllu verið varið eins og vera átti, en á því tel eg mig enga ábyrgð hafa, og að svo komnu getur landsstjórnin ekki kipt því í lag.