08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Björn Sigfússon :

Eg sagði áðan, að eg ætlaði ekki að taka til máls aftur, nema eg væri knúður til þess. Nú hefir háttv. 2. þm. S-Múl. (J. Ó.) knúð mig til þess. Hann fór mörgum orðum um skýrsluna um fé til áhaldakaupa. Eg gat þess áður en eg las skýrsluna, að hún væri fyrir 1909—10, en svo fór hann að þylja um mörg ár þar á undan. Þetta þótti mér kynlegt, þar sem hér var ekki nema um eitt ár að ræða. Þetta er nú þriðja árið, sem kvennaskólinn fer fram á að fá þennan styrk. Þá var og það, sem hann talaði um framkvæmd fræðslumálanna, þar sem hann gaf í skyn, að fé væri dregið undan, slík fjarstæða, að eg er alveg hissa á skynsömum manni að koma með annað eins. Hann þurfti að fara að tala um kensluna við Blönduósskólann, og var honum það óskylt og ókunnugt. En hann hefði þó getað það án þess að sverta og svívirða konur þær, er þar eiga hlut að máli, en máske honum sé orðið slíkt svo tamt, að slíkt sé ekki tiltökumál. Annars hygg eg, að hann sjái sjálfur við nánari athugun, að hann hefir ofmælt, þegar hann sverti þær svo, sérstaklega gagnvart einni konu, sem mest af öllum setti sitt mót á skólann, en það var frú Elín Eggertsdóttir Briem. Sú kona er flestum kunn og hefir lengi verið álitin einhver bezt mentuð kona í landinu, svo að þessi dómur gerir henni og hennar áliti ekkert til. (Jón Ólafsson: Eg hefi enga svert). Jú, þm. sagði, að hið helzta, sem lesið hefði verið í skólanum, væri útlent rómanarusl, eldhúsrómanar. Mundi nú nokkur trúa því, að kona sú, er eg nefndi, hefði sett slíkt mót á skólann, eða látið það viðgangast, að þetta væri hið helzta, er kent var, Eg gæti talið margar fleiri sæmdarkonur, sem verið hafa við þennan skóla, en eg skal láta mér nægja að nefna annað nafn, frú Guðrúnu Briem, konu Eggerts skrifstofustjóra. Heldur nú háttv. þm., að þessar konur eigi það skilið, að úthúðað sé svo stofnun, sem þær hafa veitt forstöðu. (Jón Ólafsson: Þetta er talað úti á þekju). Nei. Þingm. talaði um skólann og kensluna þar, en það getur verið, að hann hafi verið úti á þekju sjálfur, og ekki meint það, sem hann var að segja. Eg gæti líka nefnt einn nemanda frá þessum skóla, sem var 2 ár á Ytri-Ey og fór síðar til Hafnar og fékk þar undirbúningsmentun. Þessi kona var frú Björg Þorláksdóttir Blöndal. Þrem árum eftir að hún kom til Hafnar var hún orðin stúdent og cand. phil. Bendir nú þetta á, að sú mentun, sem hún fékk þarna, hafi verið svo léleg? Eg álít að þetta sé nóg til þess að hrekja ummæli háttv. þingm. Auðvitað þekkir hann þetta mál ekki vitund, en mér fanst nauðsynlegt að mótmæla orðum hans sem algerlega órökstuddum sleggjudómi. Nú er eg dauður, svo að hann má ráðast á mig eins og hann vill, eg mun ekki ganga aftur. (Jón Ólafsson: Eg held að það væri ekki gustuk).