08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Benedikt Sveinsson:

Eg vildi minnast á nokkrar breyt.till.

Fyrst er breyt.till. á þgskj. 497, um styrk til þess að senda utan mann til þess að kynna sér markað fyrir íslenzka ull og kröfur kaupenda í því efni, og gefa landsmönnum síðan sem glöggasta skýrslu um árangurinn. Það hefir nú komið fram, að sitt sýnist hverjum um þetta mál, þótt allir verði að viðurkenna, að Íslendinga vanti mjög þekkingu um meðferð þessarar vöru, enda kveður svo ramt að því, að þeir hafa ekki vitað, hvort betra væri að senda ullina þvegna eða óþvegna. Þetta sýnir, að fullkomin þörf er á að senda mann til þess að kynna sér þetta til hlítar. Það leikur líka á ýmsu, hvað menn halda um það, hvar markaðurinn muni vera beztur. Nú er mest selt af ullinni til Ameríku og Englands, en samkvæmt skýrslu viðskiftaráðunautsins mundi einnig mega senda hana til Belgíu, og hafði hann þar við að styðjast álit merks manns, þar sem er Heinrich Erkes rithöfundur og verksmiðjueigandi. En þótt viðskiftaráðunauturinn hefði nú gert sitt bezta í þessu efni, sent stjórnarráðinu skýrslu um árangur af rannsóknum sínum og gengist fyrir því, að send væri sýnishorn til reynslu, þá er það ekki nóg. Ráðunauturinn hefir í mörg horn að líta, og er því full ástæða til þess að senda sérstakan mann, einkum af því, að það er ekki nóg, að sá maður kynni sér þetta erlendis, heldur verður hann líka að kenna það landsmönnum sjálfum á eftir. Sjón er sögu ríkari, og ekki hjálpar, þó verið sé að senda stjórnarráðinu einhverjar skýrslur, og liggi það svo á þeim eins og Fáfnir á gullinu á Gnítaheiði. Hitt mundi bera miklu meiri árangur. Það þarf ekki að hika við það, þótt þetta kosti einar 1200 krónur, þar sem nú er flutt út úr landinu á aðra miljón punda af ull á ári. Það þarf ekki mikla verðhækkun á pundið til þess að þar sjái staðar, og allur þorri landsmanna mundi njóta góðs af þessu. Hér er að ræða um spor í áttina til þess að auka verðmæti þessarar höfuðvöru landbænda, og vænti eg þess, að það beri góðan árangur. Eg tel mikla nauðsyn á því, að fengnir séu ullarmatsmenn, en ekki er til neins að kosta fé til þeirra fyr en kostur er á þeim mönnum, sem hafa aflað sér nægrar þekkingar, og eg býst við svo miklu gagni af þessum eina manni, að þingið sjái seinna ástæðu til að senda fleiri. Í sambandi við þetta má geta þess, að Kaupfélag Þingeyinga sendi fyrir löngu mann til Englands í sömu erindagerðum. Það var Kristján Jónasson. Hann rak erindi sitt samvizkusamlega, og reit bækling um ull, sem hefir stuðlað að því, að ull Þingeyinga hefir síðan verið betur verkuð en annarstaðar, og komist í hærra verð. Eg vona því, að háttv. deild verði ekki mótfallin svona lítilli fjárveitingu og þarfri.

Þá er önnur breyt.till. á þgskj. 557, um styrkinn til Fiskifélags Íslands. Um hann var nokkuð talað við 2. umr., en tillagan þá tekin aftur, með því að mönnum var málið þá ekki vel ljóst. Hingað til hefir félagsskapurinn meðal sjómannastéttar landsins verið allur í molum, og þessi atvinnugrein því orðið fyrir þungum áföllum, sem einmitt mundi hafa orðið afstýrt með góðum félagsskap, og duglegri og áreiðanlegri fiskiveiðastjórn, og fullkomnari leiðbeiningum en kostur hefir verið á. Þessi atvinnugrein er vandameiri en landbúnaðurinn. Hún er að taka snöggum breytingum, og vér verðum að fylgjast með í þeim. Þar er og arðurinn meiri og fljótteknari en af öðrum atvinnugreinum, ef vel gengur, og því brýn nauðsyn, að ekkert fari í handaskolum. Öll mistök eru þar dýrari; en ef unt er að forðast þau, þá er auðurinn vís. Vér Íslendingar stöndum betur að vígi um fiskveiðar en aðrar þjóðir, af því að vér búum hér fast við fiskimiðin, en aftur hafa stórþjóðirnar, Englendingar og Frakkar, langtum meiri mannaráð og fjárkost, enda er synd að segja, að þær geri ekki það sem þær geta til þess að geta notið sín í baráttunni. Það er ekki smáræðis fé, sem þessar þjóðir verja til eflingar sjávarútveginum. Þótt Englendingar eyði of fjár til vita við strendur landsins, þá þurfa ensk fiskiskip ekki að greiða einn eyri í vitagjald í Englandi, þar sem okkar skip þurfa að greiða mikið fé fyrir fáa vita. Þó ganga Frakkar enn lengra, þeir hafa þegar um mörg ár látið þá sjómenn sína njóta mikilla hlunninda, sem stunda veiðar í norðurhöfum, og nú hafa þeir heitið háum verðlaunum fyrir útfluttan fisk — eitthvað um 16 krónur fyrir hvert skippund. Svo mikla rækt leggur franska stjórnin við það að auka þennan atvinnuveg. Í samanburði við þetta er ekki til mikils mælst, þótt þess sé óskað, að þingið hjálpi Fiskifélagi Íslands, þessu félagi, sem nú er stofnað til þess að sameina krafta og þekkingu sjómanna vorra. Sumir vilja nú reyndar bíða, og sjá hvernig þessu félagi reiðir af, en það er ekki til annars en tefja fyrir þroska þess og framkvæmdum. Tryggingin er nóg fyrir framtíð félagsins. Það er skipað hæfustu mönnum sem kostur er á hér í Reykjavík, og það er skaði, sem numið getur tugum eða hundruðum þúsunda á ári, að hamla því, að félagið geti sem fyrst og bezt neytt krafta sinna.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) var hátalaður um breyt.till. á þgskj. 555, um launahækkun til læknisins á Kleppi. Byrjunarlaun eru eins og kunnugt er 2400.00, og án eftirlaunaréttar. Hann sótti um viðbót á síðasta þingi, og hafa þeir sem kunnugir eru launakjörum lækna, mælt með þessu, bæði landlæknir, þm. Vestm. (J. M.) og fleiri. Það er því líklegt, eftir undirtektum háttv. fjárlaganefndar, að þessu verði vel tekið, enda liggur það í augum uppi, hve lág laun þessa læknis eru, ef þau eru borin saman við laun annara spítalalækna hér í grendinni, einkum læknisins við Vífilsstaðahælið, sem stjórnarfrv. gerir ráð fyrir, að fái 3200 kr. í byrjunarlaun, en hinn á að hafa sama og áður. Þetta er ekkert réttlæti, og kemur það því berara fram, þar sem maðurinn hefir engan eftirlaunarétt. Ef hann hefði hann, þá gæti hann sætt sig við lægri laun en ella — og þetta er því undarlegra, sem geðveikralæknar eru með hæstlaunuðu læknum erlendis, sem eðlilegt er, því að starfið er bæði vandasamt og hættulegt. Þar er við menn að fást, sem auðveldlega geta orðið mönnum að skaða, og meira að segja alltítt að svo verði. Enn er á það að líta, að þessi maður hefir staðið mjög vel í stöðu sinni, og er þar að auki hinn mesti dugnaðarmaður í forstöðu sinni fyrir búinu. Hann er bæði gjaldkeri hælisins og ráðsmaður, og sparar það hælinu 1900 kr. á árinu, ef borið er saman við Laugarnesspítala. Þessi maður hefir stundað jarðabætur, og sýna verkin merkin um hagsýni hans, þar sem honum hefir tekist að gera veru hvers sjúklings 30 aurum ódýrari á dag, heldur en í Laugarnesspítala; þó er gjaldkerastarfið miklu örðugra á Kleppi, en í Laugarnesi, því að í Laugarnesi eru mestmegnis sömu mennirnir æfilangt, og kostaðir af landssjóði, en á Kleppi eru 50—60 manns, og þarf árlega að vera eltast við hreppsnefndir og aðra út um alt land, til þess að ná meðlaginu. Vona eg því að menn sjái, að till. er ekki ósanngjörn. Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) ympraði á því, að þessi læknir væri oft staddur hér í bænum. Það er alveg rétt, en það er engin furða, hann er ráðsmaður hælisins og þarf oft að koma hér til þess að kaupa til búsins.

Þá er breyt.till. á þgskj 554, er fer fram á að fella niður styrk til skáldanna á fjárlögunum bæði árin. Þessir skáldstyrkir hafa nú staðið óhreyfðir mörg ár og er helzt svo að sjá, sem ætlast sé til, að ekki verði við þeim haggað nema þá til þess að auka þá, heldur eigi þessi skáld að fá styrkinn sem föst árslaun til æfiloka. — Þessi aðferð mælist víða illa fyrir meðal almennings, og þætti mörgum betur hlýða að veita skáldunum viðurkenning við og við eða í eitt skifti fyrir öll. Því verður heldur ekki neitað, að mörg af góðskáldum vorum hafa enga viðurkenningu fengið, þótt þau standi fullkomlega jafnfætis landssjóðsskáldunum; get eg þar til nefnt t. d. Indriða á Fjalli, Sigurð á Arnarvatni, að ógleymdum höfuðskáldum vorum, þeim Einari Benediktssyni og Stepháni G. Stephánssyni, sem enga viðurkenningu hafa hlotið af alþingi. Úr þessu verður ekki bætt, meðan því lagi er haldið, sem nú er á, en á því yrði bætur ráðnar, ef tillaga mín yrði samþykt. — Sumum kann að þykja þetta harðræði gegn landssjóðsvönum skáldum, en þar sem þau hafa flest notið styrks all-lengi, þá sé eg ekki annað en þau mætti vel við una, þótt hann félli nú niður um lengri eða skemri tíma.

Þá skal eg víkja fáum orðum að styrkveitingu til Sighvats Borgfirðings til þess að fullkomna ritverk sín um sögu landsins, einkum prestaæfir, sem hann hefir lengi unnið að og taka yfir presta um alt land frá fornöld og til vorra daga. Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) hefir mælt með þessu og kann eg honum þakkir fyrir. Væri ilt til þess að vita, ef þingið léti þennan mann ekki njóta þeirrar ánægju, í elli sinni, að nota söfnin hér til þess að auka og endurbæta þessi verk sín. Sighvatur er manna kappsamastur og ötulastur við ritstörf og hefir alla æfi unnið mikið að rannsókn á sögu landsins; það er því ekki of mikil viðurkenning, þótt honum væru nú veittar þessar fáu krónur.

Þá hefi eg lagt til, að liðurinn til ferðastyrks handa fræðslumálastjóranum, 600 kr. á ári, falli niður. — Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) talaði um það, að merkilegt væri að ætla fræðslumálastjóranum eftirlit, og gera honum eftirlitið ómögulegt með því að veita honum engan ferðastyrk. En það virðist sem háttv. þm. hafi ekki athugað það, að honum er launað af landsfé til þess að hafa eftirlit með fræðslumálum, og fær fyrir það sæmilega há árslaun, 3000 kr. Og þegar þess er gætt, að þessi embættismaður hefir nú þegar ferðast um mikinn hluta landsins, svo að mikil árleg ferðalög eru ekki brýn hér eftir, enda samgöngur mjög greiðar við flest kauptún landsins, þar sem flestir skólarnir eru, þá sýnist það vera að bera í bakkafullan lækinn að veita honum sérstakan ferðastyrk aftur og aftur ofan á há laun. Það sýnist fremur undarlegt að launa menn fyrst með háum launum til þess að gera eitthvert ákveðið starf og síðar að borga þessum sömu mönnum sérstaklega fyrir hvert viðvik, sem þeir gera að þessu skyldustarfi sínu. Þjóðin ætlast alls ekki til þess, að starfsmenn hennar fái 3—4 þús. kr. í laun á ári að eins til þess að bera embættisheitið sem nafnbót, þótt sumir virðist hafa þá skoðun. — Meðal annara er einn af verkfræðingum landsins látinn hafa 750 kr. í aukaþóknun fyrir »eftirlit með vitum«, og er það þó höfuðverkefni hans að sjá um alt sem, að vitum lýtur, og fær fyrir það starf hæstu laun. — Þessum mönnum er sannarlega ekki ofætlun að borga af launum sínum viku- eða hálfsmánaðarferð að sumrinu, til þess að líta eftir því sem embætti þeirra við kemur.