08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Sigurður Gunnarsson:

Eg skal byrja á því að minnast lítið eitt á orð háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) viðvíkjandi Búnaðarfélagi Íslands og orðum mínum í sambandi við það. Hann varði félagið mjög hraustlega, eins og hans var von og vísa, en eg held að það hafi verið stakur óþarfi, því að orð mín stefndu ekkert í þá átt að hallmæla félaginu, og eg held eg hafi talað svo ljóst, að það yrði ekki misskilið. Eg sagði, að réttara mundi vera að veita gerðum félagsins meiri athygli og sjá hvernig það verði þeim styrk, er það hefir af landssjóði. Þessi orð mín mun eg standa við, og eg hygg, að flestir háttv. þm. séu mér samdóma í þessu, og háttv. þm. Árn. (S. S.) þarf ekki að brígzla mér um neina tortrygni til félagsins, þótt eg álíti sjálfsagt að hafa eftirlit með gerðum þess. Orðið fjandmaður, sem hann notaði, nær ekki nokkurri átt í þessu sambandi. Annars læt eg útrætt um þetta mál, og vona að háttv. þm. sjái, að hann hefir misskilið orð mín áðan.

Háttv. þm. Mýr. (J. S.) þarf eg ekki að svara mörgum orðum. Hann vildi halda því fram, að það væri hreppapólitík af mér að vilja skifta jafnara niður milli kjördæmanna en nú á sér stað. Eg færði rök fyrir mínu máli með skýrum tölum, það er ekki samjöfnuður á því, hvað lagt hefir verið til vesturhéraðanna og til Mýranna, og það var heldur ekki rétt hjá öðrum háttv. þm., (þm. S.-Þing. P. J.), að svo miklu fé hefði verið varið til Borgarnesvegarins, að meira hefði til hans farið en til vegarins milli Rvíkur og Akureyrar. Slíkt er hreinasta fjarstæða, og það veit hann sjálfur. Hann sló þessu bara fram, enda nær það ekki nokkurri átt. Sami háttv. þm. hélt því fram, að meira fé ætti að leggja til aðalhéraðanna en útkjálkanna. Hafi hann meint að þetta hérað, Snæfellsness- og Hnappadalssýsla, væri útkjálki, þá er það rangt hjá honum. Þetta hérað liggur milli Faxaflóa og Breiðafjarðar, þar eru margar sveitir og fast að 4000 íbúum og eg skil ekki í, að það eigi þess eins að gjalda, að það er í laginu eins og nes. Það er því ekki rétt að telja það útkjálka og þó svo væri, þá þurfa útkjálkahéruðin ekki síður á styrk og stoð landssjóðs að halda, en hin.

Þá skal eg í annað sinn víkja að till. háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) á þgskj. 536. Eg skal játa það, að eg vítti þær till., en hann vildi halda því fram, að eg væri að rægja tilgang hans og móðga hann. Þessi orð hefði hann ekki sagt, ef hann hefði ekki reiðst mér. Hefði hann ekki talað í reiði, mundi hann hafa sagt, að eg vildi vekja grunsemd um pólitískan tilgang hjá honum, og eg skal játa, að það gat legið í orðum mínum. Eg sagði, að það væri nokkuð einkennilegur svipurinn á tillögum hans, þar sem þær þræddu alveg kjördæmi andstæðinganna, Húnavatns-, Barðastr.-, Dala-, Snæfellsness-, Gullbringusýslu og Suður-Múlasýslu. Það gerir tillöguna nokkuð einhliða eins og allir sjá. Þetta, sem eg, og eg held margir, hafa hugsað, vildi eg eins segja upphátt framan í hann. Annars er eigi vert að gera meira deiluefni en orðið hefir úr þessum tillögum hans, því að hann hefir nú tekið þær aftur.

Eg skal svo ekki lengja umræðurnar meira. Það væri óðs manns æði að fara að tala um allar breyt.till., svo að eg verð að láta mér nægja að sýna afstöðu mína til þeirra, sem eg hefi ekki minst á, með atkvæði mínu.