27.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Eg lít öðruvísi á eftirlaunahækkunina til séra Matthíasar Jochumssonar. Það er maður, sem við fylgjum bráðum til grafar (Stef. Stefánsson:

Nei, nei.) Hann á langa skáldaæfi að baki sér og auk þess er hann gamall og reyndur embættismaður landsins.

Þá skal eg víkja að ræðu háttv. 2, þm. Skagfirðinga. Eg efa ekki að það væri gott, ef hægt væri, að koma upp smíðaverkstæði á Hólum. En eg í minni einfeldni hafði nú reyndar haldið, að það þyrfti ekki 1800 kr. verkfæri til að gera menn búhaga. Eg hélt að Hólabú, svo stórt bú, hefði sjálft nóg tæki til þess. Ef menn skoða skjal Sigurðar járnsmiðs Sigurðssonar á Akureyri, þar sem hann býður Hólaskóla að selja honum verkfæri sín, og taka að sér kenslu í járnsmíði, þá sést, að það hefir átt að gera menn meira en búhaga. Að kaupa þau verkfæri væri sama og að stofna verkstæði, þar sem smíða mætti allskonar jarðyrkjuverkfæri, kerrur, plóga, o. s. frv. Væri sá kostur tekinn, mundi það draga þann dilk á eftir sér að veita þyrfti fé til kenslu í smíðum. Þetta hefir gefið mér tilefni til að athuga, hvað gert hefir verið fyrir Hólaskóla síðustu árin, og það er ekki svo lítið. Á þinginu 1909 er fé veitt á fjárlögunum til byggingar skólahúss. Sú varð niðurstaðan, að bygt var steinsteypuhús, sem kostaði 30 þús. kr. Eg lasta ekki fráfarandi stjórn fyrir að hún breytti til og lét byggja steinsteypuhús, eg álít að það hafi verið rétt gert, þótt það kostaði meira. Á fjáraukalögunum 1910—11 er veitt fé til aðgerðar á gamla skólahúsinu og loks á fjárlögunum 1912—13 6000 kr. fjárveiting til að byggja leikfimishús. Ef þetta er alt lagt saman, býst eg við að einhverjir kynnu að segja: Þeir eru býsna dýrir þarna á Hólum. Eg get ekki skilið að svona mikið fé þurfi til að fullnægja ákvæðum skólareglugerðarinnar. Ekki vantar mig löngun til að veita uppgjöf á þessum 174 kr. til prestsins í Hvammi, en mér þykir óviðfeldið að fara að gefa eftir lán úr viðlagasjóði. Það er auðvitað ekki stór upphæð, eins og háttv. 2. þm. Skagfirðinga sagði, en það er einmitt af því, hve lítil hún er, að eg er á móti tillögunni. Hún er stór að því leyti til, að ef hún væri samþykt, þá væri eins og tekinn tappinn úr um eftirgjafir lána úr viðlagasjóði.

Þá eru tvær br.til. háttv. 6 kgkj. (St. Stef.) Sú fyrri áð veita Jóni Sigtryggssyni Espólín 800 kr. hvort árið, til vélfræðináms. Með henni get eg ekki verið. Eg hefi neitað alt of mörgum samskonar beiðnum til þess að geta fallist á þessa. Annað mál er með hina tillöguna, styrkinn til ungfrú. Kristínar Jónsdóttur. Háttv. flutningsmaður benti á að þar yrði völ á góðum teiknikennara, og eg skal játa, að á þeim er sár þörf til þess að kenslu í þeirri grein verði komið í það horf, sem vera á, það sem sé, að teiknikensla komist á í öllum skólum landsins.

Eg hygg nú, að eg hafi svarað öllum athugasemdum, sem gerðar hafa verið, og skal láta þetta nægja um einstakar br.till. Að eins vildi eg bæta við örfáum orðum almenns eðlis. Eg hefi minst á það áður, að fjárhagurinn, eins og hann nú er, væri mjög athugaverður. Það má gera ráð fyrir því, að tekjuhallinn verði 225 þús. kr. þó að tillit sé tekið til þeirra tolla og skattalaga, sem afgreidd hafa verið, eða líklegt er að afgreidd verði. Fjáraukalögin munu rýra tekjurnar um 140 —160 þús. kr. Önnur lög ekki stórum, þótt eitthvað sé. Þetta álít eg allathugavert og eg get ímyndað mér, að ef einhverjir háttv. þingmenn kæmu með uppástungur til að breyta þessu ástandi, þá mundi eg geta orðið þess styðjandi í allverulegum atriðum. Eg get ímyndað mér að mörgum þyki sumir liðir fjárlaganna ekki svo nauðsynlegir, að það gilti ekki einu þótt þeir væru feldir burtu. Eg vil í þessu efni benda á eitt ráð, að fella allar lánagreinarnar. Ekki einungis af því, að ekkert fé er til að lána, heldur einnig af því að búið er að binda of mikið fé viðlagasjóðs, þessar 1600—1700 þús. kr. Allir sjá, hvert stefnir með því lagi. Það stefnir í ógöngur.

Eg hefi ekki haft tækifæri til sem skyldi að athuga, hverja liði mætti fella niður. En eg álít, að sleppa mætti þeim fjárveitingum, sem landssjóður innir af hendi án allrar lagaskyldu, svo sem er t. d. um alla styrki til sýsluvega, þótt þeir góðir séu í sjálfu sér. Enn get eg bent á, að þótt nefndin hafi ekki viljað fella niður fjárveitinguna til viðskiftaráðun., þá er þar upphæð, sem einna fyrst mætti draga inn, ef í hart færi.

Enn er eitt atriði, sem eg vildi minnast á, en það er styrkurinn til Good-Templarreglunnar, og getur vel verið að eg komi með brtill. síðar um að fella hann burt. Eftir að bannlögin voru samþykt, álít eg að tilveruréttur þessa styrks sé fallinn.

Good-Templarfélaginu hefir hingað til verið veittur þessi styrkur til að útbreiða bindindi í landinu, en sé hann veittur hér eftir, er hann að eins til agitationa fyrir bannlögin. Í raun og veru hefði Stórstúkan átt að missa þennan styrk undir eins um daginn, fyrir bréfið, sem hún sendi oss þingmönnum; fyrir þá ósvinnu forstöðunefndarinnar, að senda ógnunarbréf inn í þingsalinn, því hreint og beint ógnunarbréf var það.

Loks er eitt mál, sem eg vildi að eins drepa á. Það eru botnvörpusektirnar. Háttv. neðri deild hefir felt niður að nokkur hluti þeirra renni í ríkissjóð Danmerkur. Þetta hefir hún gert móti vilja fráfarandi stjórnar og stjórnar þeirrar sem nú er, og álít eg að deildin hafi með þessu stofnað máli þessu í hinar mestu ógöngur.