09.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Framsögumaður (Björn Þorláksson):

Eg þarf að svara ýmsu í ræðum manna bæði frá því í gær og í dag. En mér fer eins og stráknum, sem fór í kirkju og var spurður, hvernig honum hefði líkað að heyra til prestsins. »Svona«, sagði strákur, »fyrri partinn talaði hann úr sér, og seinni talaði hann aftur í sig«. Það var margt nýtt hjá háttv. þm. í gær, en svo hefir verið mest um endurtekningar hjá þeim í dag. Það verður því aðallega að svara sumu af því, er talað var í gær.

Eg ætla þá að byrja á því, sem h. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) sagði um tillögur nefndarinnar viðvíkjandi skilyrði fyrir styrk til Andrésar Fjeldsteds augnlæknis, að hann haldi ókeypis »klinik« fyrir fátæka menn einu sinni í viku; h. þm. spurði, hvernig á þessu stæði. Eg get sagt honum það. Við 2. umr. var einhver, sem sagði, að hann mundi vilja ganga að þessu skilyrði gegn 2000 kr. styrk. Þm. undraðist það, að ekki væri samræmi í skilyrðunum fyrir styrk til sérfræðinganna þriggja. En á því stendur svo: hinir 2 áttu áður að hafa »klinik« einu sinni á mánuði, en nefndin færði það upp í 2 á mánuði. En þar sem Andrés Fjeldsted er nýr og er ætlað að hafa hærra styrk en hinir, þótti nefndinni sanngjarnt, að hann héldi »klinik« einu sinni í viku.

Sami h. þm. furðaði sig á því, að síra Jóhannesi Lynge á Kvennabrekku væri ætlaður styrkur til að byggja baðstofu á staðnum. Ef hann hefði heyrt ræðu mína í gær, eða veitt henni eftirtekt, hefði hann ekki þurft að undrast það. En svo að eg taki það upp, þá á hér í hlut svo bláfátækur fjölskyldumaður, að hann getur ekki af eigin rammleik bygt upp baðstofuna. (Jón Ólafsson: Það er þá fátækrastyrkur). Það mætti skoða það svo að nokkuru leyti, en eg held, að fleiri af styrkveitingum þingsins mættu teljast fátækrastyrkir, ef í það færi. Raunar er hér ekki um gjöf að ræða, því að hann eða dánarbú hans á að skila þessu fé og gömlu baðstofunni með álagi. Þessi styrkur mundi því hækka jörðina, sem er opinber eign, kirkjujörð, í verði, þótt hann jafnframt sé prestinum til góðs.

Sami háttv. þm. mintist á skilyrðin fyrir námsstyrk og húsaleigustyrk við embættisskólana hér og vildi skjóta inn orðinu »venjulega« inn í skilyrðin, svo að þar standi, að styrkurinn verði venjulega veittur, efnilegum, reglusömum, og efnalitlum utanbæjarnemendum. En þessu er nefndin mótfallin og hyggur, að með því verði hægara að fara í kringum lögin. Sömuleiðis er nefndin mótfallin till. háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.), að fjölskyldumönnnum sé einnig veittur þessi styrkur, Þar með er nemendunum gefin uppörfun til að gifta sig og eiga börn, en það þykir nefndinni eiga illa við.

Þessi sami þm. var að fárast út af því, að nefndin hefði lagt til, að laun læknisins á Kleppi yrðu hækkuð úr 2400 kr. upp í 2700 kr. Það stendur svo á því, að tillaga er komin fram um að hækka launin upp í 3000, en í samræmi við Vífilsstaðalækninn þótti nefndinni rétt að þessi læknir fengi 2700 kr., þótt eg fyrir mitt leyti geti greitt atkvæði með því, að hin upphaflegu laun haldist.

Eg skal taka það fram út af ræðu h. þm. Vestm. (J. M.), að nefndin sá sér ekki fært að leggja með styrkveitingu til Brynjólfs Sigfússonar til að nema söngfræði; hér í bæ er kostaður maður til að kenna söngfræði, og leit nefndin svo á, að þessi maður gæti numið hjá honum. Aftur er nefndin samþykk 60 þús. kr. lánveitingu til hafnargerðar í Vestmannaeyjum.

Nefndin treystir sér ekki til að mæla með styrk til Reynis Gíslasonar, hversu góða hæfileika sem hann kann að hafa.

Nefndin hefir tekið til íhugunar till. um að veita hæfum manni styrk til að kynna sér ullarverkun í útlöndum, og síðan ferðast hér um og leiðbeina mönnum í þeim efnum. Það hefir mikið verið rætt um þessa till. og háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) hefir tekið fram, að þetta mál hafi verið rætt hjá landbúnaðarnefndinni og hún lagt það til, að viðskiftaráðunautnum yrði falið það að kynna sér ullarverkun erlendis, ef hann yrði nokkur. Jafnframt hefir háttv. þm. S-Þing. (P. J.) fært talsvert eða jafnvel næg rök að því, að þessi styrkur sé allsendis ónógur, ef maðurinn yrði að fara víða, t. d. til Vesturheims, þar sem mest er selt af íslenzkri ull. Þess vegna er nefndin ekki með tillögnnni.

Þm. Eyf. hafa komið fram með till. um fjárveitingu til brúa á fyrirhugaðri akbraut í Eyjafirði. Nefndin getur ekki verið með þessari fjárveitingu af þeim ástæðum, sem fram voru teknar við 2. umr. Aftur í móti vill nefndin aðhyllast tillögu frá sömu háttv. þm. um, að prestsmatan á Grund í Eyjafirði gangi til viðhalds kirkjunnar, en prestlaunasjóður greiði svo í staðinn prestunum á Hrafnagili og Akureyri andvirði hennar í þeim hlutföllum, sem þeir hafa fengið hana. Þar sem prestlaunasjóður er að eins hluti af landssjóði, þá kemur þetta niður á landssjóði; en þótt tillagan sé í þessu formi, er nefndin samþykk tillögunni með sérstöku tilliti til þess, að eigandi kirkjunnar, Magnús Sigurðsson, hefir byggt hana af grunni af eigin efnum, svo að hún er ein hin vandaðasta kirkja á landinu, og er þetta því að skoða sem viðurkenning fyrir framtakssemi hans.

Meiri hluti nefndarinnar er móti því, að styrkurinn til Sighvats Grímssonar Borgfirðings sé hækkaður eða honum nokkuð breytt, heldur hafi hann sama styrk og hann hefir nú, 200 kr. fyrra árið, til þess að kynna sér handrit á söfnum hér syðra. Þá er nefndin á móti því að veita styrk til tveggja málara, og er það af sömu ástæðum og teknar voru fram við 2. umr. Mennirnir eru þeir sömu og þá var talað um, en upphæðirnar eru breyttar.

Nefndin hefir lofað háttv. 2. þm. Rvk. (M. B.) að leggja það til og mæla með því, að Fiskifélagi Íslands, sem mikið var talað hér um við 2. umr. verði veittar 2500 kr. með því skilyrði, að engar breytingartillögur komi fram við þessa tillögu um að veita félaginu meira fé. En hér eru komnar fram 2 brtill., fer önnur þeirra fram á að veita félaginu 3500 kr., en hin 4500 kr. Eg lít þannig á þetta og hygg fjárlaganefndin í heild sinni geri það sama, að ef þessar breyttill. koma til atkvæða, þá muni fjárlaganefndin í heild sinni greiða atkvæði móti öllum styrkveitingum til Fiskifélagsins og líka gegn 2500 kr. till. Sé samið um eitthvað við fjárlaganefndina, þá verður við það að standa, en óhæfilegt að gera tilraun til að komast lengra og fara á bak við nefndina.

Lektor Jensen, sem um mörg ár hefir starfað með góðum árangri að því að finna bóluefni gegn bráðapest, hefir h. þm. Dal. (B. J.) stungið upp á að veita 2000 kr. gjöf einu sinni, í viðurkenningarskyni fyrir starf hans, en nefndin sér sér ekki fært að vera með þeirri fjárveitingu. Og það virðist heldur ekki vera ástæða til, þegar eins miklar kvartanir eru um fjárskort og nú, þó við það megi kannast, að maður þessi sé góðs maklegur af Íslandi.

Nefndin er móti því, að veittar séu 3000 kr. til þjóðvegarins milli Hjarðarholts og Ljárskóga, og mun greiða atkvæði móti því.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) lýsti undrun sinni hér í deildinni í gær yfir því, að unglingaskólunum á Ísafirði og Seyðisfirði væri veittur hærri styrkur en öðrum unglingaskólum. Skólanum á Ísafirði eru veittar 1500 kr., en skólanum á Seyðisfirði 1200 kr., en þeim skólum, sem eru utan kaupstaða, eru veittar alt að 1000 kr. hverjum. Hér virðist koma fram ósamræmi. En nefndin leit svo á, að skólar í þessum tveimur kaupstöðum mundu verða fjölsóttari og því kostnaðarmeiri en skólar í sveitum og kauptúnum. Og þegar þess er gætt, að svo er ákveðið, að enginn skóli fái meira úr landssjóði, en hann fær annarsstaðar frá, þá kemur ekkert misrétti fram.

Brtill. nefndarinnar, um Jón Ófeigsson, hefir vakið nokkra óánægju hjá sumum mönnum. En nefndin lítur svo á þetta mál, að hennar breyt.till. sé til mikilla bóta. Nefndin fer ekki fram á að breyta upphæðinni neitt, en leggur það til, að Jóni Ófeigssyni séu veittar 1500 kr. á ári í tvö ár, til þess að semja og búa undir prentun orðabók, sem sé 45 arkir á stærð. Fær hann þá 67 kr. fyrir örkina, og er það sæmileg og viðunanleg borgun fyrir ungan mann, og finst mér hann geti verið ánægður með það. Nú er trygging fyrir því, að bókin komi bráðlega út, enda taldi nefndin það nauðsynlegt, að hún kæmi sem fyrst.

Styrkinn til Torfa í Ólafsdal vill nefndin ekki hækka; vill ekki særa þennan heiðursmann með því að eiga það á hættu, að styrkurinn falli, ef hann sé hækkaður, því þá hefði verið ver farið, en heima setið. En eg veit, það tjáir ekki að letja háttv. þm. Dal. (B. J.). Eg vildi að eins óska, að hann væri miljónungur, svo hann gæti gefið eftir vild, af sínu stórlynda og örláta hjarta. (Bjarni Jónsson: Eg skyldi gefa fjárlaganefndinni 5 aura). Það mætti þó ekki minna vera en 7 aurar, svo það væri einn eyrir handa hverjum manni, sem í nefndinni er. .

Háttv. 1. þm. Skgf. (Ó. Br.) hefir lagt til, að námsstyrkurinn til allra æðri skólanna og mentaskólans sé lækkaður lítilsháttar; en nefndin er á móti þessu nú, en það gæti komið til athugunar, þegar háskólinn er kominn á fót.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) hefir komið með breyt.till. um, að breyta orðunum: hraðskeytasamband, á tveim stöðum í »loftskeytasamband«. Eins og h. 1. þm. S.-Múl.

(J. J.) hefir bent á, þá á það ekki við á fyrri staðnum. Á síðari staðnum er það óþarfi, því hraðskeyti getur eins vel innibundið í sér loftskeyti. Það er heldur ekki útséð um, hver úrslit þessa máls verða í þinginu. Og það er nægur tími til þess að lagfæra þetta, þegar útséð er um það. Fjárlaganefndin tók enga afstöðu til dragferju á Þverá, svo nefndarmenn hafa þar óbundnar hendur. En eg vil minna á það, að þegar veittar hafa verið 45000 kr. til Rangárbrúarinnar og 1200 kr. til mótorbátsferða frá Vestmanneyjum og upp að Rangársandi, þá munu mörg kjördæmi bera skarðari hlut frá borði en Rangárvallasýsla, þó synjað væri um dragferjuna.

Tillöguna um að veita 17000 kr. til vísinda, bókmenta og lista, sem stjórnin úthluti eftir tillögum 5 manna, sem sameinað þing kýs, álítur nefndin þess verða, að hún sé íhuguð, en þó sé ekki hentugt að samþykkja hana nú, og er þess vegna á móti henni.

Ein tillaga er hér um að fella burtu skilyrðið fyrir styrkveitingunni til iðnskólanna fjögra, það, að annarsstaðar frá kæmi ? hluti reksturskostnaðar. Það var mikið rætt um þetta skilyrði við 2. umr. Nefndin er á sama máli nú og hún var þá. Það er líka óeðlilegt að gera alla þessa skóla að landsskólum, og mun verða farsælla fyrir þá, að þeir leggi sér eitthvað til sjálfir, heldur en að þiggja alt að gjöf úr landssjóði.

Út af breyt.till. um að breyta orðunum: »Gufuskipaferðir Thorefélags eftir samningi 7. ág. 1909« í orðin: »Til gufuskipaferða«, má taka fram, að nefndin var klofin um þetta mál, enda mun nú vera gagnslaust að lengja umræðurnar út af því, atkvæðagreiðslan mun bezt sýna, hvernig menn líta á þetta mál, á samning þann, er hér er um að ræða, á gildi hans, á ferðir þær, er hann hefir útvegað landinu, og á gagnið af þeim.

Sama er að segja um viðskiftaráðunautinn; sem framsögumaður hefi eg ekkert að segja fyrir nefndarinnar hönd um þennan lið. Sjálfur mun eg greiða atkvæði með breyt.till. á þgskj. 565, en móti hinni.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) og háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) hafa komið með br.till., um að fella burtu styrkinn til Good-templarareglunnar. Þessi styrkveiting var samþykt hér í deildinni við 2. umr. með 16:9 atkv. Háttv. þingm. hafa báðir mælt mjög með tillögu sinni, en háttv. þm. S.-Múl. (J. Ó.) þó meir. En jafnframt því, að háttv. þm. S.-Múl. (J. Ó.) mælti með tillögu sinni fór hann ósæmilegum, ósönnum og ofstækisfullum orðum um framkvæmdarnefnd Stórstúkunnar. Eg get lýst undrun minni yfir því, að það skuli vera komið með svona tillögu tæpri viku eftir, að deildin hefir samþykt með 16:9 atkvæðum að veita þennan styrk. Eða heldur háttv. þm., að við séum svo hjólliðugir og snauðir að sannfæringu, að við förum að fella þetta burtu 6 dögum eftir að við höfum samþykt það? Eða er það af því, að háttv. þm. haldi, að Reglan hafi brotið af sér þá verðleika gegn þingi og þjóð, sem hún hafði fyrir tæpri viku, að við nú förum að fella þetta burt? Að vísu hefir Reglan gerst svo djörf að senda þingmönnum ávarp út af því, að borið hefir verið fram frumvarp til laga um frestun á framkvæmd bannlaganna. Í þessu ávarpi lýsir hún því yfir, að hún muni berjast af alefli fyrir því, að vernda bannlögin. Það hefir verið sagt og ranglega þó, að þetta væri hótunarbréf. Eg vil leyfa mér með leyfi forseta að lesa þennan kafla upp úr ávarpinu. Hann hljóðar þannig; »Auk þess verður framkvæmdarnefndin að lýsa yfir því, að hún er þess fullviss, að með því að hver frestun á framkvæmd bannlaganna er brot gegn ótvíræðum vilja kjósenda, muni allir bindindismenn og bannvinir líta svo á, að þeir þingmenn, er greiða slíkri frestun atkvæði sitt, segi þeim stríð á hendur, og hljóta þeir því að sameina krafta sína til þess að vernda bannlögin«. Eg bið menn að taka vel eftir, hvað hér er sagt. Það hefir oft verið sagt, að Goodtemplarar væru ofstækisfullir og eg skal ekki bera á móti því, að þeir hafi verið það stundum. En eftir því, sem stendur í einu blaði hér, þá eru fleiri ofstækisfullir en við Goodtemplarar. Þegar »Ingólfur« birti þetta ávarp Stórstúkunnar til þingmanna, þá kallar hann það hótunarbréf og endar að lokum grein sína um ávarpið með þeim ummælum, að það sé mjög vafasamt, hvort þetta hótunarbréf, sem hann kallar, geti ekki fallið undir sektarákvæði 96. og 229. gr. hegningarlaganna. 96. gr. hegningarlaganna, sem hér er vitnað til, hljóðar þannig, ef eg má lesa hana upp: »Hver, sem ræðst á alþingi, svo að því, eða sjálfræði þess er hætta búin, eða lætur það boð út ganga, er að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta hegningarvinnu eða ríkisfangelsi«. Allir skynsamir menn sjá, að þetta ákvæði getur ekki átt við þann kafla úr bréfinu, sem eg las upp áðan, en þó hefir »Ingólfur« leyft sér að halda því fram. Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) hefir einnig sagt það sama. En þingm. hefir eins og svo oft áður, haft hér endaskifti á sannleikanum. (Forseti: Óþinglegt orð). Satt orð, sem eg verð við að standa. Framkvæmdarnefnd Stórstúkunnar segir ekki annað í ávarpi sínu, en að hún hljóti að vernda bannlögin gegn öllum þeim, sem leitast við að fresta gildi þeirra eða hefta framkvæmd þeirra. 229. gr. í hegningarlögunum, sem Stórstúkan á að hafa brotið á móti, hljóðar þannig, ef hana má lesa upp: »Ef maður hefir óviðurkvæmileg eða ósæmileg orðatiltæki í bænarskrá eða kæruskjali til konungs, stjórnarráðanna eða yfirvaldanna eða til alþingis, þá varðar það sektum«. Eftir þessari grein væri í hæsta lagi hægt að sekta framkvæmdarnefnd Stórstúkunnar. En mér þætti gaman að sjá, að nokkur maður með sanngirni eða viti segði, að Stórstúkan hefði brotið þessar greinar hegningarlaganna, hvort sem 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) eða ritstjóri Ingólfs eða lögmenn eða borgarar þessa bæjar segja það. Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) hélt því fram, að einn mikils metinn lögmaður hefði sagt sér, að eflaust mætti sekta Stórstúkuna fyrir bréfið. Hér kennir sama ofstækisins, sem menn bera Goodtemplurum á brýn. Ef menn í hjarta sínu héldu, að hægt væri að refsa Stórstúkunni, þá mundu menn lögsækja hana, en af því menn vita að það er ekki hægt, þá nota þeir þetta sem átyllu til þess að reyna að svifta Goodtemplarastúkurnar styrknum. Þetta hjal þeirra um refsingar og sektir hafa að eins verið digurbarkaleg orð, heimskuleg tilraun til að svifta Regluna styrk þeim, er hún hefir notið um mörg ár, þessum litla styrk, sem hún hefir margfaldlega borgað aftur þjóðfélaginu í heild sinni og einstökum mönnum, styrk, sem ekki verður skoðaður öðru vísi en sem lítil viðurkenning fyrir unnið starf. En það er velkomið að svifta þessum styrk burtu. Reglan mundi standa eins föst fyrir því.

Að öðru leyti get eg ekki stilt mig um að lýsa því yfir, að eg hygg, að báðir hinir háttv. þingmenn, flytjendur margnefndrar tillögu, hafi hvor um sig notið miklu meira góðs af Reglunni en nemur þessum 2000 kr. styrk, og því hefði þeim verið miklu sæmilegra að sitja kyrrir um þetta mál og fara ekki af stað eins og þeir hafa farið. Fram koma þeirra verður þeim til engrar virðingar.

Eg ætla mér ekki að fara fleirum orðum um þessa frægu tillögu, sem ekki verður skoðuð öðru vísi en sem móðgun fyrir háttvirta þingdeild og tilraun til þess að spilla góðu máli á kostnað sæmdar og virðingar þingdeildarmanna.

Þá vil eg að lokum minnast lítið eitt á fjárhaginn. Hann þykir ekki vera blómlegur og er það ekki. Og hvað ber til þess? Að minni hyggju það einkanlega, að við kunnum ekki að skoða landssjóðinn sem fé, er okkur sé skylt að verja vel og skynsainlega, fé, sem við höfum engan rétt til að bruðla með eins og gert er. Það eru til þingmenn hér, sem greiða atkvæði með hverri einustu fjárveitingu að kalla má. Við högum okkur óskynsamlega, óþolinmóðlega og barnalega. Ef fé er veitt til einhvers mikilsháttar nauðsynjafyrirtækis, þá rísa menn strax upp og heimta fé til allra svipaðra fyrirtækja í landinu. Alt á að vera unt að gera í einu. Menn hafa ekki þolinmæði til að bíða betri tíma og tækifæris, eða þess, að hægra verði um fjárhaginn.

Lítið er hugsað um að afla tekna, og detti góðum mönnum góð ráð í hug og komi fram með frumvarp í þeim tilgangi, þá rísa aðrir upp og finna því alt til foráttu. Svona var það 1909. Eg tala af reynslu. Svona verður það enn, því miður. Við fáum tækifæri til að sjá það bráðum. Við ættum að miða allar okkar tillögur við sanna heill lands og lýðs, en ekki láta hatur og úlfúð og öfund ráða. Við erum ekki góðir ráðsmenn. Búskapurinn er ekki góður, en þó má mála hann með of svörtum litum, og það verður sumum. — Háttv. þm.

S.-Þing. (P. J.) kom í gær fram með áætlun um það, hvernig hægt væri að komast út af tekjuhallanum, og háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) gaf líka skýrslu um, hvernig fjárhagurinn hefði staðið á ýmsum tímum, og tók fram, að þrátt fyrir mikinn tekjuhalla í fjárlögunum stundum, hefði alt ráðist vel. Eg vil nú líka leyfa mér að skoða fjárhaginn eins og hann er, athuga væntanlegan tekjuhalla og hvernig hann verði jafnaður.

Eg geri ráð fyrir, að tekjuhallinn verði, þegar fjárlögin fara héðan, um 300 þúsundir, svo skeri efri deild nokkuð niður, nokkrar fjárveitingar, en bæti þó meiru við, svo aukning verði 60 þús. Þá eru komin 360 þús. Frá aukafjárlögunum koma 140 þús. Hvað kemur svo upp í þetta?

Fyrst er tekjuauki frá 3 stjórnar frumvörpum, sem munu gefa um 70 þús. kr. Þá er frumvarp um lítilfjörlega tollhækkun á kaffi og sykri, það mun gefa 130 þús. kr. Þá kemur farmgjaldsfrumvarpið, sem til er ætlast að gefi um fjárhagstímabilið yfir 300 þús kr.

Með þessu fæ eg þá tekjur og gjöld til að standast á. Eg get því ekki betur séð, en að þeir sem vilja landi og lýð vel megi verða ánægðir, ef frumvörpin, er eg nefndi ná fram að ganga. Þá þarf ei að kvarta um það, að við séum að sökkva, og ekki að grípa til þeirra örþrifráða, að leyfa áfram innflutning og sölu áfengis, eins og það sé eina ráðið til að gera okkur efnalega sjálfstæða og bæta hag landssjóðsins. Aðalatriðið er því í þessu máli, að þessi frumvörp bæði gangi fram. Eg hefi þá von, að þessi deild beri gæfu til að samþykkja þau og afgreiða til efri deildar. Hvað um þau verður þar, um það skal eg engu spá. En falli þau þar, þá er það á ábyrgð þeirrar deildar. Í hitt eð fyrra feldi efri deild frumvarp um farmgjald, og þar í liggur orsökin til hins mikla peningaleysis í landssjóði nú. Og af því stafar þung og mikil ábyrgð fyrir efri deild. Eg vil skiljast þá við þetta mál, því eg býst við að tala ekki meira í því og láta í ljós þá von mína, að menn verði ekki seinna svo blindir að fella þetta frumvarp nú, eins og þeir gerðu í hitt eð fyrra.