08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Þorkelsson :

Það eru nokkur atriði, sem eg vildi minnast á að þessu sinni, og gríp eg þá niður af handahófi. Verður þá fyrst fyrir mér styrkurinn til Goodtemplara. Eg greiddi að vísu atkvæði með honum áður hér í deildinni, en eg get ekki neitað því, að það fóru að renna á mig tvær grímur, hvað nú skyldi gera, þegar eg fékk þetta sendibréf, er nú held eg á, og stjórn Stórstúkunnar hefir sent öllum þingmönnum. Þar hallast ekki á yfirlætisleysið og vitsmunirnir. Manni verður á að spyrja, hvort menn þessir geti ekki gert sér í hugarlund, að það megi hafa gagnstæð áhrif því, sem til er ætlast, ef of mjög er níðst á þolinmæði manna með slíku orðtæki: »Ef þú greiðir ekki atkvæði svona, þá skaltu fá það«. Þó er svo að sjá, sem mönnum þessum sé þetta ekki full-ljóst, því í bréfi þessu er enn sami óðurinn þulinn, og öllu þinginu hótað hörðu um frestun aðflutningsbannsins. Til þess að sýna að eg sé ekki að gera stúkunni rangt til vil eg með leyfi h. forseta lesa upp 3. klausuna úr bréfi þessa:

»Að slík frestun mundi verða þjóð og þingi til minkunar erlendis, með því að öllum áhugamönnum þessa máls mundi verða lítt skiljanlegt, að sömu þingmennimir, sem með stórum meirihluta samþyktu bannlögin á síðasta þingi (18:6 í Nd., og 8:5 í Ed.), skulu nú verða með frestun á framkvæmd þeirra«.

Hér er auðsjáanlega verið að minna okkur á það, hvernig við ættum að greiða atkvæði, jafnframt því, sem stúkan treystir sér betur en þinginu til þess að gæta sóma lands og þjóðar erlendis. Hvernig það er um sómann hér heima fyrir er ekki fengist. Því næst er beint haft í hótunum við hvern þann þingmann, sem ekki greiði atkvæði eftir skipan stúkunnar, og er það ósvífnasti kafli bréfsins. Hirði eg ekki að lesa hann upp hér, því að það hefir annar þingmaður þegar gert, og látið það um mælt, að hann beint varðaði við lög að dómi lögfræðinga.

Eg hallaðist að því á síðasta þingi að samþykkja bannlögin, ekki af því að eg sé bindindismaður, heldur af því að mér er ofdrykkja leið, og svo af því að landsfólkið sagði með atkvæðagreiðslu 1908, að það vildi bann, ennfremur af ýmsum öðrum ástæðum, sem eg hirði hér ekki að telja. Að vísu lágu engar ákveðnar tillögur í ákveðnu formi fyrir kjósendum 1908 um það, hvernig bannlögunum skyldi háttað. Búast má því við, að mörgum hafi ekki verið það vel ljóst, um hvað þeir voru að greiða atkvæði. En það hygg eg, að hefði bannlagafrumvarpið eins og það var flutt inn í þingið 1909 verið lagt fyrir fólkið 1908, þá mundu hafa runnið á margan tvær grímur. Á síðasta þingi vildi eg láta bera bannlögin undir þjóðina eins og frá þeim hafði verið gengið, en það var þá felt með eins atkvæðis mun. Eigi að síður fylgdi mitt atkvæði lögunum þá að svo vöxnu máli, þó að mér geðjuðust ekki aðfarir og kapp bannmanna. Nú kastar þó tólfunum, þegar stúkan tekur sér þá dirfð, að fara að hóta þinginu. En þrátt fyrir ósvífni Stórstúkunnar ætla eg þó í þetta sinn — hvað sem seinna verður — að láta þennan styrk lafa á atkvæði mínu upp í efri deild.

Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) mintist á viðskiftaráðunautana. Gat hann þess, að réttara væri að verja 2000 kr. af fé því, sem þeim er ætlað, manni til að kynna sér flokkun á ull. Er eg ekki á móti því.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) talaði margt um mentir og listir. Var hann þar fullur sannfæringar og andagiftar að vanda. Mintist hann meðal annars á tvo háskóla, Hvítárbakkaháskólann og fyrirhugaðan háskóla Íslands. Hann talaði og um Sigurð prófessor Þórólfsson, og fanst mér hann gera nógu lítið úr þeim prófessor. Eg verð nú að segja um þann mann, að þótt sumir hafi ekki haft mikið álit á honum, þá hefi eg þó fengið virðingu fyrir kappsemi hans og dugnaði. Hann hefir skrifað bók eina, »Minningar feðra vorra« og er hún, þrátt fyrir ýmsa auðsæja galla, þakkarverð. Má margur sjálfsagt af henni margt læra, ef hún er rétt notuð, og eg efast um, að þm. Dal. (B. J.), þrátt fyrir gáfur hans og skarpleika, hefði haft þekkingu til að skrifa þá bók. (Bjarni Jónsson: Mundi ekki hafa kept við hann um það). Eg sé enga sjálfsagða ástæðu til þess að þessum skóla sé nú neitað um styrk fremur en áður.

Eg ætlaði ekki að tala mikið um háskólann, en verð þó að minnast á hann. Háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir komið fram með breyt.till., án þess þó að ráðfæra sig þar um við nokkurn mann. Það er langt síðan nú að eg tók að skifta mér af þessu máli, og man eg svo langt, að íslenzkir stúdentar hafa ekki alt af verið eins óðfúsir að halda því til kapps sem nú. Árið 1893 var það samþykt hér á þinginu í lagaformi, og háskólasjóðurinn var stofnaður En þá héldu íslenzkir stúdentar í Kaupmannahöfn árið eftir (1894) mótmælafund gegn háskólastofnun hér sem ómögulegri, og notuðu þá til þess tækifærið, þegar eg var nýfarinn af stað til Íslands um sumarið. Man eg að vísu ekki nú, hvort þm. Dal. (B. J.) var þeirra á meðal. Síðan lá mál þetta niðri um hríð, nema hvað ritstjóri Þjóðólfs, sá sem þá var, en ekki sá sem nú er, mintist þess við og við í blaði sínu. Árið 1907 fékk 2. þm. Rvk., landlæknir G. B., því framgengt, að þingið skoraði á stjórnina að leggja frumvarp um háskólastofnun fyrir næsta þing, og skal þeirri stjórn það til sæmdar sagt, að hún gerði það. Hún hlýddi skipun þingsins. En það skall hurð nærri hælum að það félli hér í deildinni á síðasta þingi, eins og menn muna. Og þegar eg þá færði það í tal við þá, sem nú er þetta mál mest kappsmál hér í þinginu, að lagt væri jafnharðan fé fram til stofnunar háskólans, þá þótti þeim þar ekki nærri komandi, það lægi ekkert á því fyr en einhverntíma í framtíðinni. En nú er sömu mönnunum orðið þetta hið mesta kappsmál að gera það einmitt í ár.

En hvað er nú þessi fjárveiting hins háttv. þm. Dal. (B. J.)? Ekkert annað en launaviðbót handa nokkrum allvel launuðum embættismönnum, og það kallar hann að stofna háskóla. Eg hafði aldrei hugsað mér háskólastofnunina í því einu fólgna. Mér sýndist um leið að auka hefði þurft námsstyrk við skólann og margan annan undirbúning að hafa. Nú sé eg, að fram hefir komið tillaga frá gömlum þingmanni um að færa niður styrkinn til æðri skólanna. Ekki aðhyllist eg það. Háskóli er sú göfugasta stofnun, sem vér höfum enn átt kost á að setja á stofn hjá oss, og mætti svo virðast, sem vanda þyrfti til þeirrar stofnunar, en ana ekki út í það undirbúningslaust, En eg lít svo á, að við þurfum ekki háskóla til þess að hækka laun vel launaðra embættismanna og háskólastofnan sé litlu að nær fyrir það. Hitt er nær að auka styrk stúdentanna, svo að allur þorri þeirra manna sem útskrifast frá mentaskólanum, geti notið hér hinnar æztu mentunar á þjóðlegum grundvelli og háskólinn standi ekki tómur. Nú er svo komið, að allur þorri manna fer og kvað fara til Kaupmannahafnar, jafnvel þeir, sem ætla að leggja stund á lögfræði. Er það gott til eftirþanka fyrir þm. Dal. (B. J.) og ýmsa aðra. Svo sýnist mér, að ekki veitti af því, að jafnharðan væri farið að hugsa fyrir því að undirbúa háskólabyggingu, og jafnvel veita til hennar hin fyrstu fjárframlög. Um leið og við stofnsetjum háskóla, þá verðum við sjálfsagt að bjóða ýmsum útlendum háskólum, að minsta kosti úr nágrannalöndunum að vera við þá athöfn. En hvar eigum við að bjóða gestum vorum inn? Í fúna fjalaketti hér í bænum? Tillögur háttv. þm. Dal. (B. J.) í þessu máli sýnast mér í heild sinni meira gerðar af flýti — eg hafði nærri sagt flasi — en forsjálni.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) segir, að við séum að fara á höfuðið, en háttv. 1. þm.

K.-G. (B. K.) og þm. Seyðf. (B. Þ.) segja, að fjárhagurinn sé góður. Ef svo er, hvers vegna er þá ekki veitt nægilegt fé til þessarar stofnunar. En ef hitt er satt, að fjárhagurinn sé bágborinn, þá er oss ofvaxið að ráðast í þetta að sinni. Að svo vöxnu máli get eg því ekki greitt atkvæði með till. hins h. þm. Dal. (B. J.), þrátt fyrir alla þá virðing, sem eg ber fyrir áhuga hans.

Eg heyrði að menn voru eitthvað að tala um vita og voru ekki ásáttir um, hvort meiri nauðsyn bæri til að reisa vita á Bjargtöngum eða Vattarnesi. Eg hef heyrt fróða og kunnuga menn segja, að viti væri nauðsynlegur á Bjargtöngum og ennfremur hef eg spurt það, að fiski byrji ekki við Austurland fyr en um fardaga, en við Vesturland er fiski á öllum tímum árs, svo að þar virðist vera meiri þörf á vita, skipagangur er þar mestur og sjór stundaður mest.

Eg hefi aldrei skift mér mikið af skáldunum, en verð þó að geta þess, að mér finst till. sú, sem háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) hefir komið fram með, vera næstum því furðuleg. Eg vona, að hún fái engan byr, enda er eg henni öndverður, sem sjá má á því, að eg hef jafnvel léð till. um ný skáldlaun fylgi mitt, — eg ætla það væri sessunautur minn háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.), sem fékk mig til þess að greiða atkvæði með heiðurslaunum handa Þorgils gjallanda og sýnist mér þó annars kostar ekki að veita hverjum manni landssjóðsfé, sem hnoðað getur saman bögu eða sögu. En hitt finst mér ónærgætni, að hætta upp úr þuru að styrkja þá, sem áður hafa haft styrk, — það gengur jafnvel ósvinnu næst, því að margir þeirra hafa vitanlega kastað frá sér atvinnu, einmitt vegna þess að þeir gerðu sér von um styrkinn. Eg vil sérstaklega minnast á hin eldri skáldin, því að þeir mennirnir eru mér kunnastir. Þorsteinn Erlingsson hefir lengi notið fjárlagastyrks, og væri illa farið, ef hann væri sviftur honum nú, því að hann er nú orðinn roskinn maður og heldur heilsutæpur, svo að honum er erfitt um að leggja á sig stranga vinnu. Menn hafa verið að finna honum það til foráttu, að ekkert hafi sést eftir hann nú lengi, en hins er að minnast, hvað maðurinn er vandvirkur, og er hann nú að leggja síðustu hönd á stórt og merkilegt skáldrit, Eiðinn. Hégómagjarnir erum við og látum oss það miklu skifta, að vel sé talað um oss í útlöndum, en eg hygg, að það mundi ekki verða oss neinn sæmdarauki út á við, að fella þessar fjárveitingar niður. Allir þekkja rit Einars Hjörleifssonar og er það kunnugt, að mörg þeirra hafa verið þýdd á útlend mál og verið lofuð mjög í ritdómum útlendinga. »Ofurefli« hefir komið út á dönsku, »Litli Hvammur« á norsku og þýzku, »Örðugasti hjallinn« á þýzku og fleiri hafa bækur hans birst á útlendum málum Þótt menn stagist mjög á og telji eftir bitlinga þá, sem veittir eru á þinginu, þá hygg eg þó ekki, að þjóðin kæri sig um, að skáldstyrkirnir til þessara manna séu feldir niður. Rit þessara manna, sem eg mintist á, eru mjög vinsæl, Einar er talinn hið ágætasta sagnaskáld, en ljóðmæli Þorsteins eru í hverju húsi.

Eg hef áður minst á kvennaskólatill. háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) og er eg honum samdóma um, að kvennaskólinn ætti að vera landsskóli, — hann hefði fyrir löngu átt að vera orðinn það. En þá þyrfti að byggja honum nýtt stórhýsi og býst eg við, að fjárhagur vor leyfi það ekki að svo vöxnu máli. Það hefir verið tekið fram, að full ástæða væri til að gera meiri greinarmun á kvennaskólum og realskólum og bent á, að í kvennaskólum ætti að kenna mest það, sem að heimilisþörfum lýtur, en að þær konur, sem vildu afla sér fjölbreyttari mentunar gætu gengið á realskólana. Út af þessu vil eg að eins leyfa mér að benda á, að núverandi fyrirkomulag kvennaskólans hér mun eiga rót sína í, að hann er eldri en gagnfræðaskólarnir og gat því ekki tekið tillit til þeirra, er hann hóf starf sitt. En það er satt, að nú gegnir nokkuð öðru máli.

Háttv. framsm. fjárlaganefndar (B. Þ.) mintist á Fiskifélagið og var hinn grimmasti bæði við mig og háttv. þm. Dal. (B. J.), sem höfum flutt till. um nokkum hækkaðan fjárstyrk til þessa félags. Fer önnur till. fram á, að félaginu verði veittar 4500 kr., en hin 3500 kr. Fjárlaganefndin hefir að öðru leyti tekið allvel í þetta mál og vill veita félaginu 2500 kr., en ekki meira. Mér varð svo bilt við grimd hins háttv. framsm., að eg hygg það ráðlegast að sætta sig við fjárveiting nefndarinnar, þó að hún sé í rauninni alt of lítil. En þó getur hún orðið félaginu til nokkurs stuðnings.

Eg talaði áðan um till. hins háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) um að fella burt alla skáldastyrki, en komið hefir fram önnur till. um fjárveitingar til skáldanna, sem fer fram á, að allar slíkar fjárveitingar verði lagðar undir sérstaka nefnd, sem kosin sé af alþingi. Eg hef ekkert á móti þeirri uppástungu, en vil að eins benda á, að nú er of liðið á fjárlagaumræðurnar til þess, að till. verði tekin til greina að þessu sinni.

Háttv. framsm. (B. Þ.) var að hughreysta þá, sem stendur stuggur af fjárhagsástandinu. Hann benti á, að á leiðinni væri frv. um tekjuauka, sem líklegast yrði samþykt, frv. um farmgjald, sem þó eftir er að sjá, hvort samþykt verður, og loks mintist hann á, að í ráði væri að hækka tollinn á sykri og kaffi; en hræddur er eg um, að sú tollhækkun verði ekki vinsæl í landinu, ekki sízt hér við sjávarsíðuna. Mér finst í heild sinni mjög hæpið að byggja mikla von um tekjuauka á þessu. Annars er það á valdi efri deildar, hvort tekjurnar verða auknar eða ekki, en eg hef ennþá ekki séð neitt frv. í þá átt koma þaðan.