27.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jósef Björnsson:

Mér fanst anda kalt frá háttv. framsm. í garð Hólaskólans. Hann sagði, að menn mundu fara að segja, að þeir væru dýrir þar á Hólum. Hann taldi upp útgjöldin við skólann, þennan skóla, sem landið á og sem það hefir sett reglur fyrir og er skylt að halda uppi, og fanst mér þá undarlegt að vilja ekki láta þennan skóla njóta jafnréttis við hinn bændaskólann. En úr því að hann fór að telja útgjöldin saman, þá er bezt að eg geri það líka. Hann sagði, að skólahúsið hefði kostað 30 þús. kr. Þetta er helzt til mikið. Eftir því sem smiðirnir hafa sagt mér, mun það ekki koma til að kosta nema 27 þús. kr. Auk þess er nú veitt á fjáraukalögunum til viðgerðar á gamla skólahúsinu 3000 kr. og svo nú 6000 kr. til. að byggja leikfimishús. Þetta verður samtals 36 þús. kr. Nú hefi eg farið fram á að veitt sé fé, 1800 kr., til að koma á lögskipaðri kenslu í smíðum, svo sem ákveðið er í reglugerð skólans. Skólastjóri hefir farið fram á að fá hærri upphæð — 2000 kr. — til þess að hægt væri að koma á stofn fullkomnu smíðaverkstæði, þar sem hægt væri að smíða jarðyrkjuverkfæri. Ef það væri gert, þá er eg ósamdóma því, að af því mundi leiða nokkur kostnaður fyrir landsjóðinn, því skólinn mundi fá fé í aðra hönd fyrir það, sem smíðað yrði, svo eg held það borgaði sig vel. Eg hefi nú lagt minni áherzlu á þetta, og með tilliti til þess hefi eg borið fram varatillöguna um kaup á áhöldum í trésmíðakenslu. Þegar þetta er borið saman við það sem veitt hefir verið til Hvanneyrarskólans og athugað er, hvað þangað hefir verið lagt, þykir mér líklegt, að háttv. framsm. muni segja, að þeir séu dýrir þar á Hvanneyri. Þar hefir verið bygt skólahús fyrir 46 þús. kr. og nú á að reisa þar leikfimishús fyrir 4000 kr. Það verður samtals 50 þús. kr. Og 50 þús. kr. eru þó alt af meira en 36 þús kr. Einhver kynni því að segja: Þeir eru dýrir á Hvanneyri, en ekki á Hólum.