04.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Þá er breyt till. við 13. gr. B I. um það, að færa 2. og 4. lið saman í eitt og lækka alt saman um 200 kr. á ári og orða svo:

Til verkfróðra aðstoðarmanna og vegamælinga alt að 4000 — 4000 kr. Þá ætti að vera innan handar að færa niður laun aðstoðarverkfræðings, sem því næmi, ef tækifæri gæfist, en þau voru í frv. eins og það kom frá Ed. 2700 kr.

Í sömu gr. hefir nefndin gert brtill. við C-liðinn samkvæmt því, sem áður var, þegar frv. fór héðan, sem sé að bæta þar inn aftur orðunum, sem þar stóðu: »eftir samningi við Thorefélag 7. ágúst 1909«. Á eftir þeim lið vill svo nefndin bæta við nýjum lið: »Til reglubundinna gufuskipaferða milli Svíþjóðar og Íslands 4000 — 4000«. Nefndinni var sem sé skýrt frá því, að félag í Svíþjóð sé í þann veginn að byrja á reglulegum ferðum hingað. Að vísu er eigi fullvíst um þetta ennþá, en það mundi þó ýta undir þetta félag, ef það sæji slíkar undirtektir hér og vissi þannig, að okkur væri áhugamál að fá samgöngur og verzlunarviðskifti við Svíþjóð. Og eins og kunnugt er, er von á góðum markaði þar fyrir ýmsar íslenzkar afurðir, svo sem síld og kjöt, og aftur á móti ættum vér að geta fengið sumar vörur bæði betri og ódýrari frá þeim, en öðrum, er vér skiftum nú við, svo sem járn og timbur. Nefndin vill því sérstaklega mæla með þessari breyt.till.

Þá kemur ný till., sem ætlast er til að komi inn í þessa sömu gr., nefnilega fjárveiting til að leggja koparþráð milli Borðeyrar og Ísafjarðar. Nefndinni barst á síðustu stundu bréf frá símastjóranum, þar sem skýrt er frá því, að kopar hafi nú fallið ákaflega í verði, svo að þar sem kostnaðurinn við þessa línu var áður áætlaður 67 þús. kr. með verkinu, þá muni hann nú ekki nema meiru en 55 þús. kr. Hann réð því mjög eindregið til þess að nota þetta tækifæri, og meiri hluti nefndarinnar er því meðmæltur. Um þessa fjárveitingu var mikið talað við 2. umr., og var eg þá á móti henni, ekki sem framsm., heldur sem þm., og taldi það ógerlegt fjárhagsins vegna, að leggja hana nú, enda væri bagalítið að láta hann bíða eitt fjárhagstímabil til. Eg skal nú ekki fara að endurtaka rök mín fyrir því, en það tek eg fram, að að eg mun enn greiða atkvæði gegn honum.

Þá er að minnast á vitana. Ed. hefir sett inn í frumv. vitann á Flatey á Skjálfanda, sem áður var feldur hér, og leggur nefndin til, að hann sé feldur burt aftur. Það er ekki af því, að hún kannist ekki við, að hann sé nauðsynlegur, vitanna er víða þörf, og eg veit ekki til að neinum hafi enn dottið í hug að setja þá á staði, þar sem þeir væru óþarfir, en það er eingöngu fjárhagsins vegna, að nefndin er á móti þessu.

Í 14. gr. A. b. 2., er veittur styrkur til bráðabirgðauppbótar brauðum, og var samþykt hér áður, að 1000 kr. af því mættu vera til húsaleigustyrks handa prestum, sem setjast að í kaupstöðum. Þetta ákvæði hefir nú Ed. felt. Nefndin hefir nú fallist á eftir bréfi frá biskupi, að setja þar við nýja athugasemd, sem þm. geta lesið. Tel eg víst, að menn muni sjá það á henni, að hér er ekki að tala um eyðslueyri, eins og annars hefði orðið, ef þetta hefði gengið í húsaleigustyrk, heldur er hér ætlast til að verja megi 1000 kr. árlega til að reisa hús úr steini eða steinsteypu, og ætti þetta að geta miðað til þess að koma upp með tímanum vönduðum húsum hér og hvar á prestssetrunum, og mælir því nefndin með þessu. Við sömu grein hefir og nefndin gert þá brt. að fella burtu 6. liðinn. Það er álag til Viðvíkurkirkju, 400 kr., og er orðið fjarska gamalt, sjálfsagt 40 ára. Mér er ekki vel kunnugt um, hvernig á því stendur, en nefndin er á einu máli um að fella það burtu.

9. brt. er um gagnfræðaskólann á Akureyri, um að færa launafúlguna þar niður úr 9 þús. kr. í 8600 kr. hvort árið. Þær 400 kr., sem burtu falla, er hin persónulega launaviðbót til 3. kennara þar. Nefndinni þótt það óviðfeldið, að þessi maður, sem sótti um stöðuna fyrir tæpu ári síðan, skuli nú þegar vera farinn að biðja um launaviðbót. Hann hlaut að vita, hver launin voru þegar hann sótti, og þá er ástæðulaust að veita þetta svona strax.

11. breyt.till. er við 14. gr. um kvennaskólann í Reykjavík, og miðar beint að því, að færa þá fjárveitingu í sama horf og var, þegar frumv. fór héðan síðast, þannig að hún verði alls 7 þús. kr., 5 þús. kr. beint til skólans og 2 þús. kr. fyrir námsmeyjar. Ef þetta kemst í gegn, ætlast nefndin til, að skólinn fái að minsta kosti 1500 kr. annars staðar að. Orðin: »en úr landssjóði«, álítur hún að séu óþörf og eigi að falla burt. Í sömu grein er enn ætlast til, að falli burtu styrkur til unglingaskóla Ásgríms Magnússonar, 500 kr. hvort árið, og er það af því, að nú er tekin upp sú regla að styrkja ekki unglingaskóla í þeim kaupstöðum, þar sem eru gagnfræða-, eða alþýðuskólar, eins og hér. Hina kaupstaðina, sem ekki hafa annað en unglingaskólana, er í ráði að styrkja til að halda þá. — Enn er 7. liður í sömu grein, og stendur þar, að það fé sé ætlað til sundkenslu, en svo kemur þar inn í styrkur til ungfrú Ingibjargar Guðbrandsd., til að kenna stúlkum leikfimi, og sömuleiðis ferðastyrkur til Björns Jakobssonar leikfimiskennara. Fyrirsögnin fyrir þessum lið er því óviðfeldin, og leggur því nefndin til, að við hana verði bætt: »o. fl.«, og er það sjálfsagt, til þess að fyrirsögnin verði rétt.

Þá er í 15. gr. 3. c. fé til forngripa og áhalda við Þjóðmenjasafnið. Sú upphæð var 1000 kr., þegar hún kom héðan, en Ed. hefir fært hana upp í 1500 kr.,og leggur nefndin til, að hún sé færð niður aftur.

Þá er 19. liður í sömu gr. Þar hefir Ed. ákveðið, að styrkurinn til Jóns Ófeigssonar skuli vera 60 kr. fyrir örkina. Þetta álítur nefndin óaðgengilegra fyrir manninn, það voru 67 kr. þegar héðan kom, og vill nefndin láta þar við sitja Hún leggur því til, að þessi viðbótarorð falli burt, svo og orðin: »alt að«.

Þá get eg tekið liðina 30, 45 og 46 í 15. gr. alla í einu lagi. Það eru alt námsstyrkir, sem komist hafa inn í frv. í Ed., handa fólki sem ætlar að nema rafmagnsfræði, vélfræði og dráttlist, og leggur nefndin til, að þetta sé felt. Eg skal geta þess, að eg held jafnvel, að allir þessir nemendur séu nú við nám erlendis, svo að líklegt er, að þeir verði fullnuma eins fyrir því, þótt þetta verði ekki veitt. Það hefir ekki heldur komið oss að miklu haldi hingað til, þótt rafmagnsfræðingum hafi verið veitt fé á fjárl., þeir hafa sumir staðnæmst í útlöndum, en ekki hér. Og sérstaklega skal eg geta þess um kvenmanninn, sem sækir um styrk til þess að nema dráttlist, að ef hún ætlar sér að kenna hana við Akureyrarskólann, þegar hún er fullnuma, þá er þess að gæta, að það er ungur maður, sem kennir þessa grein þar, og virðist því óþarfi að veita styrkinn í þessum sérstaka tilgangi.

Þá er 34. liður sömu greinar. Hann hljóðar um styrk til Hannesar Þorsteinssonar alþingismanns, til þess að semja æfisögur lærðra, merkra manna íslenzkra. Styrkur þessi var tekinn upp í Ed., og er það tillaga nefndarinnar, að hann verði færður niður í 1500 kr. hvort árið.

Þá er 16. gr. Háttv. efri deild hefir tekið upp 6000 kr. styrk til þess að reisa leikfimishús við bændaskólann á Hólum. Þetta virðist ekki nauðsynlegt, enda þótt það sé skylda skólans að kenna leikfimi, þar eð Hólaskóli hefir gamla skólahúsið til leikfimiskenslu, enda er á fjáraukalögunum fjárveiting, sem verja á til að gera við gamla skólahúsið. Ætti það að nægja í þetta skifti.

Þá er breyt.till. viðvíkjanda Eiðaskólanum. Hér í deildinni gekk í gegn frv. um stofnun húsmæðraskóla þar, en það nær ekki fram að ganga í efri deild. Nefndinni virðist, að það væri mjög gagnlegt, að skóli þessi gæti byrjað strax, ef sýslunefndir Múlasýslna gætu eða vildu ráðast í það að koma upp hjá sér húsmæðraskóla á Eiðum, Því vill nefndin, að styrkurinn til þessa skóla verði hækkaður um 1000 kr. og fjárveitingin öll ætluð til skólahalds á Eiðum. Má t. d. benda á það, að á Ísafirði og Akureyri eru matreiðsluskólar, sem njóta 1000 króna styrks, og væri því ekki óeðlilegt, að Austfirðingar yrðu aðnjótandi svipaðs styrks.

Þá leggur nefndin til, að styrkurinn til iðnskóla á Seyðisfirði sé hækkaður úr 400 kr. upp í 600 kr. Vér hyggjum það of mikinn mun, að láta hann hafa að eins 400 kr., en sömu skóla á Ísafirði og Akureyri 1000 kr. hvorn.

Þá hefir nefndin lagt til, að skilyrði fyrir styrkveitingu til 4 skóla í eldri kaupstöðum landsins verði breytt þannig, að styrkurinn fari ekki fram úr ¾ reksturskostnaðar. Nefndin telur of lítið lagt til skólanna annarsstaðar frá, ef það á ekki að nema meiru en ? alls reksturskostnaðar. Miðar þessi tillaga að hækka styrkinn annarsstaðar frá til að gera skólana fullkomnari, því því meira sem vandað er til skólanna, því meira gagn ættu þeir að gera.

Þá er ný fjárveiting til Páls Jónssonar á Djúpavogi, til að gera atkvæðavél. Nefndin leggur til, að hún verði að öllu feld í burtu. Telur hana ekki þarflega. Enda mun það ef til vill draga þann dilk á eftir sér, að landssjóður yrði að kaupa um 2000 slíkar vélar til afnota við kosningar.

Þá er og nýr liður, þar sem Helga Valtýssyni eru ætlaðar 1200 kr. til að rannsaka, hvort straumferja hans gæti að gagni komið. Eg vil vekja athygli háttv. þingmanna á því, að það er prentvilla þar sem stendur 1500 kr. Það eru einungis 1200 kr. Vil eg svo skýra dálítið frá þessu máli. Eg veit að háttv. þingmönnum er þessi maður kunnur og hans uppgötvun. Hann hefir tvisvar sýnt hana hér nærri. Sá eg hana í bæði skiftin og gekk straumferja hans mjög liðugt seinna sinnið. Hér er ekki að ræða um borgun fyrir uppgötvun hans, heldur er það tilætlun nefndarinnar, að hann ferðist um landið og hagi þeim ferðum eftir samráði við stjórnarráðið og geri einhverja slíka tilraun, er sanni fyllilega, hvort straumferjan er virkilega nothæf. Þetta er að eins þóknun upp í ferðakostnað mannsins. Hann ætti svo að ferðast sérstaklega um Suðurland og gera þar einhversstaðar slíka tilraun eða tilraunir. Æskilegt væri og að hann gæti víðar farið um og skoðað straumferjustæði t. d. á Blöndu. Þessi maður kveðst hafa á prjónunum fleiri uppgötvanir, sem að gagni gæti komið hér á landi, svo sem vefstól, er vefur mjög hratt, m. fl. og gæti það orðið hvöt fyrir hann til að koma þeim í framkvæmd, ef vel tækist með straumferjuna. Eg vil því mæla með því, að þessi fjárveiting verði samþykt.

30. liðurinn leggur nefndin til að falli í burtu.

45. lið með athugasemd leggur hún og á móti, og ætlast til, að Akurnesingar kosti sjálfir aðgerð á bryggju sinni, og það því fremur, sem fé úr landssjóði mun áður hafa verið lagt til hennar.

Þá leggur og nefndin til að 47. liður um styrk til hafnarbryggju í Hafnarfirði sé feldur burtu. Hér er að vísu að ræða um þarflegt fyrirtæki, en fjárhagur landsins er þröngur, og landssjóði mun blæða svo við hafnargerðina í Rvík, að frágangssök virðist að veita nú þennan styrk. Get eg ekki stilt mig um í sambandi við þetta að segja, að mér þykja sumir þingmenn sýna helzt til mikið kapp og ósanngirni í kröfum sínum gagnvart landssjóði, eins og honum sé mögulegt að inna af hendi í einu hverskonar fjárgreiðslur sem eru.

Þá kem eg að 18. gr. Efri deild hefir hækkað eftirlaun Matthíasar Jochumssonar upp í 2400 kr. Hann hefir um mörg ár notið 2000 króna, og það hefir sýnst nefndinni sómasamleg og nægileg laun handa honum og heimili. Fyrir því leggur nefndin gegn hækkun Ed.

Þá er komið að botnvörpusektunum. Um þær hefir verið rætt svo mikið áður, og ætla eg ekki að tala neitt um þær, að eins geta þess, að tekin er upp aftur tillagan um að fella burtu liðinn um þær í 19. gr.

Þá er seinasta breytingartillagan eftir. Nefndin fékk bréf á síðustu stundu frá stjórnarráðinu viðvíkjandi heilsuhælinu á Vífilsstöðum, og er farið fram á það í bréfinu, að landsstjórnin megi ábyrgjast fyrir hönd landsins 120,000 kr. lán handa hælinu. Í sambandi við bréf þetta má geta þess, að ákaflega mikill kostnaður hefir orðið við að reisa hælið og útbúa það, eða yfir 300 þúsundir. Og enn mun vera eftir að gera kostnað, er nemi 20—30 þúsundum. Hælið alt mun því kosta um 330,000 kr. Gjafir í peningum hafa orðið um 60 þúsundir. Lán er búið að taka gegn ábyrgð landssjóðs að upphæð 150,000. Þá verða eftir 120 þús. og er hér farið fram á, að landsstjórnin megi taka ábyrgð fyrir landsins hönd á láni, er nemi þessu. Nefndin neyðist til að fallast á, að þessi ábyrgðarheimild verði veitt, þótt henni hins vegar geti ekki dulist, að hér hafi sparnaðar ekki verið gætt sem skyldi og að nokkuð djarft hafi verið af framkvæmdarstjórn hælisins að ráðast í þennan gífurlega kostað, þegar svo lítið fé var fyrir hendi, sem raun hefir á orðið. Og ganga má að því vísu, að sá tími komi að landssjóður verði sjálfur að greiða bæði lánin, það sem hann hefir tekið ábyrgð á, og mun eftir því er hér er farið fram á, taka ábyrgð á.

Svo hef eg skýrt hér frá breytingartillögum nefndarinnar. Þar á móti hefi eg ekki séð eða haft tækifæri til að kynna mér nema örfáar af hinum mörgu brt. háttv. þm. og sleppi því að minnast á þær nú.