04.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Sigurður Gunnarsson:

Eg hefi leyft mér að koma með breytingartillögu á þgskj. 891 um að hækkuð verði fjárveitingin, sem ætluð er til eftirlits úr landi með fiskiveiðum botnvörpunga. Háttv. 1. þm. K.-G. (B. Kr.) mintist á þessa tillögu og var henni hlyntur. Það er kunnugt, að þar sem yfirgangur botnvörpunga er hvað mestur, sjá landsmenn ekki önnur ráð en að taka sjálfir þátt í strandgæzlunni. En fjárveitingin er skorin alt of mjög við nögl sér og því hefi eg stungið upp á, að hún verði hækkuð um 500 kr. á ári. Þetta er mjög sanngjarnt, þar sem styrkveitingin er á fjárlögunum bundin því skilyrði, að hlutaðeigendur leggi fram jafnmikið fé. Það er því trygging fyrir því að féð verði ekki notað nema því aðeins að þess gerist brýn þörf. Yfirgangur botnvörpunga er alkunnur, svo að óþarft er að lýsa honum frekar en eg hefi oft áður gert. Allir hljóta að kannast við, að tillagan fer fram á að tryggja aðalatvinnuveg landsmanna í veiðistöðunum.

Þá vildi eg minnast á viðaukatillöguna á þgskj. 903, sem fer fram á 300 kr. styrkveitingu til Hnappdæla til þess að vitja læknis. Er hún sams konar og tillagan um styrkveitingu til Árneshrepps í Strandasýslu til þess að vitja læknis. Eg hefi komið fram með þessa tillögu mína af því að tillaga um að veita Hnappadalssýslu sérstakan lækni, var feld í háttv. Ed., enda þótt hún væri samþykt hér með allmiklum atkvæðamun. Virðist því tillagan bæði hógvær og sanngjörn, og féð mundi aðallega koma fátæklingum að haldi, er vitja þurfa læknis á þessum slóðum.

Að því er snertir breytingartillöguna á þgskj. 884, skal eg geta þess, að þegar fjárlögin voru hér síðast fyrir háttv. deild, kom eg með breytingartillögu um, að látið væri nægja 10 þús. kr. til Borgarfjarðarbrautarinnar fyrra árið, en að fé væri aftur á móti veitt til brúargerðar á Haffjarðará. Þetta var samþykt hér í háttv. deild. En háttv. Ed. hefir breytt þessu og sett inn 20 þús. kr. fjárveitingu til Borgarfjarðarbrautarinnar síðara árið, í viðbót við 10,000 kr. fyrra árið. Eg hefi því leyft mér að leggja það til, að þessu verði kipt í sama lag og samþykt var hér í háttv. deild. Ástæðan fyrir því er sú, að Borgarfjarðarsýsla er svo vel sett að vegum og brúm, og því sanngjarnt að láta Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu fá ekki minna fé en áætlað var síðast hér í deildinni. Háttv. þm. munu kannast við, að eg kom upphaflega fram með tillögu um 8000 kr. fjárveitingu hvort árið til vegagerðar í Hnappadalssýslu, beint eftir tillögum verkfræðingsins. En hún var feld. Og þess vegna hefi eg farið fram á þessa fjárveitingu til brúargerðar á Haffjarðará. En hálf neyðarlegt er það, að fjárlaganefnd efri deildar skuli hafa látið sig muna, að kroppa út úr 12000 krónunum 2000 kr. Þessar 2000 kr. hefðu sem sé komið sér vel til vegagerðar yfir helztu torfærurnar vestan árinnar. Hvað Haffjarðará sjálfa snertir, þá er hún eins mikill farartálmi og Rangá. Eg veit að þess er mikil þörf að brúa Rangá. Brú á hana kostar 45000 kr., en brú á Haffjarðará kostar miklu minna, því brúarstæði er þar mjög hentugt. En eg þori að fullyrða, að Haffjarðará er eins oft óreið og Rangá.

Eg á hér dálitla breyt.till. við 13. gr. E. 18. lið, um að veita 75 kr. til leiðarljósa á Svartatanga við Stykkishólm, í samhljóðan við samskonar fjárveitingar á Skipaskaga og Gerðatanga. Eg hefi áður skýrt hinni háttv. deild frá því, að á síðasta hausti voru þessi ljósker sett upp á kostnað Stykkishólmshrepps, til þess að skip gætu siglt þar inn, hvort heldur á nóttu eða degi, og hefir Stykkishólmshreppur kostað viðhald þeirra síðan þau voru sett upp, en það er töluverð fyrirhöfn að starfrækja bæði ljósin, því ljóskerin eru tvö. Þegar þessi ljósker eru komin, má sigla inn á Stykkishólm frá því Elliðaeyjarvita sleppir, hvort heldur á nótt eða degi. Allar þessar breyt. till. mínar nema þá að eins 875 kr. og er það ekki ýkjamikið, enda geta þær ekki talist allar mínu kjördæmi.

Eg skal ekki þreyta deildina lengur, með því að mæla með þessum tillögum. Þær ganga allar í þá átt, sem eg tel gagnlegt og nauðsynlegt, og hefi því góða samvizku af því að bera þær fram, í samanburði við margar aðrar till., er eg tel ættu ekki að standa á fjárlögunum. Það tæki of langan tíma að tala um hverja einstaka tillögu, en eg lýsi því yfir, að eg mun styðja margar þær till., sem miða til verklegra framkvæmda, en fella margar hinar. Annars mun atkvæði mitt bezt sýna afstöðu mína í hverju einstöku atriði.