04.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Þorkelsson:

Eg ætla í þetta skifti að fara aftan að siðunum og byrja á að nefna hinn háttv. og sæmilega 2. þm. Árn. (S. S.), sem seinast talaði. Eg ætla samt ekki að fara út í að svara einstaka orðum hans — eg fyrirlít þau eins og hann sjálfan, — en hins skal eg geta, að nafn háttv. þm. N. Þing. (B. Sv.) kom óvart inn á þtillöguna; að hafði gleymst að setja nafn flutnm. á hana, og hún var að hálfu leyti skrifuð með hendi háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv), en að hálfu leyti með minni, og því hafa nöfn okkar beggja verið sett á hana á skrifstofunni. Eg ætla ekki að fara að afsaka, hversvegna eg tók þennan eina lið fyrir. Það hefði kannske verið ástæða til að taka fleiri, en eg fann þá ekki í svipinn annað en réttmætt væri að hreifa við þessum lið, og ætlaði mér aldrei að spyrja þennan þingmann um leyfi til þess.

Eg á hér nokkrar breyt.ttill. Sumar þeirra eru mér ekki mikið kappsmál og verða að ganga sinn gang.

Um breyt.till. mína á þgskj. 916, heyrðist mér einn þm. minnast á á undan sæmilegum 2. þm. Árn. (S. S ). Eg hefi sem sé gerst svo djarfur, að stinga upp á því, að skólar landsins, sem styrktir væru af opinberu fé, skyldu kaupa eitt eintak af bók, sem nýlega er útgefin og hefir inni að halda æfiágrip ágætismanns og sögu og upphaf alþýðufræðslunnar hér á landi. Þessi maður, Jón Thorkillius Skálholtsrektor, sem stofnaði hinn alkunna Thorkillisjóð, er faðir alþýðufræðslunnar hér á landi, og satt að segja finst mér þjóðinni það skylt að halda uppi minningu slíks ágætismanns. Ritum hans og um hann hefir verið með afskriftum safnað saman öllum hér í Landsbókasafnið úr erlendum söfnum á víð og dreif, og þegar svo var komið stakk bókasafnsnefndin fyrrum upp á því við yfirstjórn Thorkillissjóðsins að gefa út æfisögu þessa ágætismanns til maklegrar minningar um hann. Til þess að benda til þess að í þetta verk var ekki ráðist af hrapanda ráði, skal eg skýra háttv. deild frá því, hverjir í nefnd þessari voru og réðu til þessa. En það eru þessir menn, fyrir utan mig: Pálmi Pálsson skólakennari, Kristján Jónsson ráðherra, Þórhallur Bjarnarson biskup, Eiríkur Briem dócent, Guðm. Magnússon læknir og Bjarni skólakennari Sæmundsson. Þessum mönnum hefir ekki hingað til verið borið það á brýn, að það sem þeir stofnuðu til væri af óviti gert. Það var ætlast til, að rit þetta kæmi út 1909, því að þá voru liðin 150 ár síðan sjóðurinn var stofnaður. Þessi sjóður hefir gert svo mikið gott, að landritari Klemens Jónsson hefir sagt, að tala þeirra barna skifti þúsundum, sem hafi notið uppeldis og fræðslu af þessari gjöf. Um bókina er ekki annað segja en að eg og margir aðrir hafa unnið að henni. Þar er hægt að fá nákvæma þekkingu um upphaf og sögu alþýðufræðslunnar og barnafræðslunnar hér á landi og margt er þar um latínuskólana. Finst slíkt hvergi annarstaðar. Eg þori að ábyrgjast að frá bókinni er svo vel gengið að öllu, sem föng voru á. Að hún sé beinlínis skemtibók, eða þægilegt bull handa 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.), þori eg aftur á móti ekki að ábyrgjast. Það hefir verið álitð, að hún ætti að vera í höndum hvers kennara, og svo hefir fræðslumálastjórinn, Jón Þórarinsson látið í ljós í blaði sínu, Skólablaðinu. Einnig skal eg geta þess, að jafn nafnkunnur maður og þektur að vöndugleik og Morten Hansen skólastjóri er, lét eftir að bókin var komin út halda fyrirlestur í barnaskólanum hér í Rvík um Thorkillius, svo að börnin fengju þó einhverja hugmynd um þann góða og kærleiksfulla mann, sem þau eiga svo mikið að þakka. Eg ætla mér ekki að ansa mörgu hégómaorðum, sem komu úr einhverju horninu hér, eg held frá þingmanninum með 450 kr. úrið í vasanum. Honum þóttu það hinar mestu firrur að fara fram á, að allir skólar eignuðust þessa bók, og sömuleiðis þótti honum það firrur, að vera að búa til bækur og selja landssjóði. Þessu er því einu að svara, að eg hygg að þessi sami háttv. þm. hafi nú í nokkur ár verið að semja bók, sem hann selur landssjóði. Raunar skilur hér svo mikið, að Thorkillibókin er vönduð og falleg bók upp á 48 arkir og kostar einar 10 kr. En af orðabókinni, sem hinn hæfilega virðulegi þingmaður ætlar að selja landssjóði, er ekki annað komið út en 1 blað með sýnishorni, titilblaði og — mynd af höfundinum sjálfum, eða alls 3 blöð. En það er nógu lærdómsríkt að sjá, hvað þessi 3 blöð hafa kostað landssjóð. 1908 hefir þessi fyrtéði þingmaður fengið úr landssjóði 1500 kr., 1909: 1500, 1910: 1500 og 1911: 1500. Hann er því búinn að fá alls 6000 kr. fyrir þessi 2 blöð og mynd af sjálfum sér! En hvað mikið hann á eftir að taka út á þessi 3 blöð það munu fæstir geta gizkað á að svo stöddu. Þó má sjá af fjárlagafrumv., að þingmaðurinn ætli sér að krækja í 1500 kr. 1912 og aðrar 1500 kr. 1913. Eru þá komnar 9000 kr. fyrir þessi 3 blöð, og kostar þá hvert blað orðið 3000 kr. Eftir því, sem nú hefir verið frá skýrt, væri það því viðkunnanlegra að heyra þau orð, sem þessi þingm. var að fara með, af vörum einhvers annars en hans. Eg ætlast alls ekki til, að hann hafi neitt vit á bókinni um Thorkillius. En það eru tilmæli mín, að þessi till. mín verði samþykt, af því að eg álít það holt fyrir landsfólkið að vita hvernig alþýðufræðslan komst á stofn og eitthvað um æfi þess manns, sem lagði eignir sínar og jafnvel mannorð í það, að koma henni á. Þessi till. gerir heldur ekki neina hækkun á fjárlögunum og þeirra hluta vegna óhætt að samþykkja hana.

Þá hefi eg leyft mér að koma fram með breyt.till. á þgskj. 913, sem fer fram á það að veita fé til þess, að hægt sé að halda afskrifara til þess að skrifa upp í útlöndum merkileg skjöl, sem snerta sögu Íslands. Eg gat þessa í bréfi til stjórnarráðsins í haust, en það hefir ekki getað orðið tekið upp á frv. stjórnarinnar. Allir menn kannast við mikla nauðsyn á þessu, meðal annars þegar stofnað verður nýtt kennaraembætti í sögu landsins við háskólann hér, og þar verður að vera rækileg rannsókn á slíkum hlutum. Slíkt er líka venja hjá öðrum þjóðum, t. d. hafa Norðmenn og hafa lengi haft 1 eða 2 menn til þess að rita upp norræn skjöl, sem eru í söfnum hjá Dönum. Það eru svo mörg merkileg skjöl, sem við verðum að fá afskriftir af og getum ekki fengið hingað léð, einkanlega af því að fjöldi skjala, er Ísland snertir, er bókfært um langa tíma í söfnum Danastjórnar saman við mál, er ekkert koma Íslandi við. Eg legg því mikla áherzlu á, að þessi till. verði samþykt.

Þá hefi eg líka leyft mér að koma fram með till. um það, að Pétri Árna Jónssyni cand. phil. verði veittur fjárstyrkur til þess að fullkomna sig í sönglist. Þessi piltur er að allra dómi, sem til þekkja og vit hafa á, mjög efnilegur, en námið er dýrt — kostar milli 10 og 20 kr. fyrir hvern tilsagnartíma. Faðir hans er kaupmaður hér í Rvík, að vísu dugnaðarmaður, en það segir sig sjálft, að hann hefir ekki efni á að standa straum af öllum þeim útgjöldum, sem námið heimtar. Það liggja hér fyrir ágæt meðmæli, meðal annars frá Mantzius, kapellumeistaranum við konunglega leikhúsið. Hann segir meðal annars: »Hr. P. Jónsson har en brilliant Tenorstemme og saa gode Egenskaber, at han vil blive en god Sanger«. Háttv. 1. þm. G. K. (B. Kr.) hefir minst á þessa till. og verið henni meðmæltur. Það er mikilsvert, því að allir vita, hversu vel hann er heima í þessum efnum. Hér er að eins lagt til, að pilturinn hafi styrk fyrra árið. Lengra sé eg mér ekki fært að fara.

Enn hefi eg komið fram með brtill. á þgskj. 912 um að veita ljósmyndara Magnúsi Ólafssyni 500 kr. styrk til þess að taka augnabliksmyndir af ýmsum stöðum, atburðum og mannvirkjum hér á landi. Það getur haft mikla þýðingu, að því er útlenda ferðamenn snertir, að hafa góðar myndir af markverðum stöðum hér á landi. Þessi maður hefir sýnt sig vel færan í sinni ment. Eg hefi séð hjá honum ágætar myndir af ýmsum fallegustu stöðum hér á landi. Mér finst það ætti að sjá það við hann, hve mikið hann þegar hefir gert í þessu efni, og hins vegar mundi hann afkasta meiru, ef honum væri veittur styrkurinn.

Þá skal eg minnast á brtill. mína á þgskj. 908. Eg veit að þeir menn, sem ákafast börðust fyrir því, að háskóli yrði settur á stofn á þessu ári og kváðu þá ekkert til fyrirstöðu, að hann kæmist á 17. júní, ef þingtíminn yrði fluttur, en héldu þó að eins við flutning þingtímans, meðan verið var að hamra málið í gegn, — eg býst við, að þeir menn geti ekki haft neitt á móti þessari tillögu, sem gerir ráð fyrir því, að veita fé á fjárlögunum til þess að fara að hugsa fyrir því að koma upp sæmilegri háskólabyggingu. Það segja margir, að við getum notað þetta hús, er nú stöndum vér í, og það verður auðvitað að gera fyrst um sinn. En eg veit að þess verður ekki langt að bíða, að umkvartanir komi, og þá reki að því, að við verðum að byggja hús. Þess vegna er eins gott að byrja á því nú þegar að hugsa til þess. Það getur auk þess verið atvinnuspursmál fyrir marga, og líka er ætlast til þess, að þó að landssjóður leggi fram féð fyrst um sinn, þá fái hann það endurgoldið úr byggingarsjóði, þegar eignir hans seljast. Eg skal ekki fara fleirum orðum um þetta atriði, en að eins geta þess, að mér hefir verið borið það á brýn hér í þingsalnum, — eg held reyndar af öðrum en 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.), sem fáir taka mark á, — að eg hafi ætlað að drepa háskólann og eg hafi ætlað að verða þar prófessor. Eg hefi því eftir þessu ætlað að drepa háskólann fyrir sjálfum mér! Skilji nú hver, sem getur! Annars vita þeir menn, sem mig þekkja, og eg hefi virt þess, að tala við í alvöru um þetta mál, að mér hefir ekki dottið í hug að skifta um stöðu.

Eg sé, að till. hefir komið fram um það, að færa niður fjárveitingu, sem veitt er til þess að kaupa muni á Þjóðmenjasafnið. Þetta virðist mér nokkuð undarlegt og jafnvel lýsa vantrausti á stjórninni, þar sem ekki er frekar að kveðið en að veita megi »alt að«. Ef stjórninni er trúandi til nokkurs, þá er henni trúandi til þess að fara rétt að í þessu. En nú stendur einmitt svo á, að nú er verið að leggja niður kirkjur og gripir þeirra verða því seldir. Hafi Fornmenjasafnið nú ekki peninga, þá fara gripirnir til annara, þó að safninu sé skylt að kaupa þá. (Jón Ólafsson: Hvaða safn ?). Þjóðmenjasafnið. — Fornmenjasafnið er einn hlutur af því, ef þm. veit það ekki. Eftirsókn útlendinga eftir slíkum gripum hefir reynst afarmikil, svo að þeir fást ekki nema fyrir talsvert verð. T. d. má geta þess, að boðnar hafa verið 1800 kr. í kaleik í Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð, sem er með kostum gerður frá 15. öld, en sem betur fór vildi prestur ekki selja hann, svo að hann er þar enn. Eg verð því að vera á móti þessari brtill.

Um breyt.till. mína á þgskj. 919 vil eg geta þess, að Bókmentafélagið hefir neitað landsskjalasafninu og forngripasafninu um að fá ókeypis bækur þær, er það gefur út. Í þessu sambandi er vert að geta þess, að Bókmentafélagið hefir fengið úr landssjóði frá því 1880 um 50 þús. kr. Þessi tillaga er mér þó ekkert kappsmál.

Þá er breyt.till. á þgskj. 930. Svo stendur á henni, að forseti sameinaðs þings fékk á síðasta augnabliki boð um að taka þátt í 1000 ára hátíð Norðmandís. Þessu boði þykir oss eigi mega taka þegjandi. Eins og kunnugt er, vann Göngu Hrólfur Rúðu árið 911; verða niðjar hans stórhöfðingjar og eru þar á meðal Englakonungar. Margir Íslendingar er nú lifa, geta og rakið ætt sína til hans. Hrollaugur hét bróðir Göngu Hrólfs. Hann nam Hornafjörð. Þar heita enn Hrollaugseyjar og Hrollaugshólar; þar er hann heygður. Munu ættvísir menn geta rakið ættir frá honum til núlifandi manna, og munu ekki fáir þeirra hér í þessum sal.

Vík eg svo að botnvörpusektunum. Ed. hefir sett þær inn, þótt feldar hafi verið hér í fjárlögunum og síðan hnykt á með þingsályktunartillögu. Til þessa þarf góða einurð, enda hygg eg að því atferli Ed. verði ekki ætlaður langur aldur.

Í þessu sambandi getur legið nærri að fara nú að hugsa um, hver möguleiki sé fyrir oss að fara sjálfir að halda út skipi til gæzlu þessum vorum helzta atvinnuvegi Íslendinga, fiskiveiðunum. Um þetta hefi eg í höndum skýrslu frá kapteini í flota Frakka. Telur hann oss muni nægja skip, er kosta mundi um 250 þús. franka, ?: 180 þús. kr. 2 fallbyssur telur hann nægja með þeirri stærð, sem hann tiltekur. 11 mílur fari skipið á vöku. Skipshöfn sé 17 manns auk yfirmannanna, en jafnframt þykir honum vel fara, að skipið sé skólaskip fyrir menn á stýrimannaskólanum, til þess að þeir fullkomnist í vélfræði o. fl. Það sé og útbúið sem spítalaskip, hafi lækni, lyfjabúð og þess háttar. Hann hyggur, þessi kapteinn, að skipið muni alveg bera sig, það er sektirnar muni borga reksturskostnaðinn.

Á þetta hefi eg bent til athugunar fyrir landsstjórnina og í því skyni, að hún geri ráðstafanir til þess að fá að vita, hver kostur og föng muni vera á því, að vér færum sjálfir að taka að oss smátt og smátt varnir á þessum mikilsverða atvinnuvegi.

Um till. á þgskj. 904, styrk til Sighvats Árnasonar, er það að segja, að eg mun ekki láta hana gjalda flutningsmannsins (H H), heldur greiða henni atkvæði.

Eg þarf ekki að tala frekara að sinni, en ekki vil eg sverja fyrir, að eg kunni að taka til máls aftur, og varlegra er það fyrir einhverja, að byggja ekki altof mikið á því, að eg sé dauður.