04.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Pétur Jónsson:

Háttv. framsm. (B. Þ.) vék að því í ræðu sinni, að ýmsar breyt.till. Ed. hefðu á sér flokkslit og væri í hag heimastjórnarmönnum. Eg þarf ekki og ætla eiginlega ekki að taka svari háttv. Ed. Eg er alls ekki heldur ánægður með gerðir hennar viðvíkjandi fjárlagafrv., þótt eg játi að hún hafl kift ýmsu í lag. En ómaklegt þykir mér að bregða henni um flokkshlutdrægni. Stærsta breytingin, sem hún gerði á frumvarpinu, er um háskólann. En það mál er ekki flokksmál í eðli sínu, og ekki af vorri tilhlutun heimastjórnarmanna. Ýmsir helztu fylgismenn þess í hitteð fyrra eru í sjálfstæðisflokknum og þegar fyrst var flutt inn tillaga hér í deildinni um fjárframlag til að koma háskólanum í framkvæmd á þessu ári við meðferð aukafjárlaganna um daginn, var hún flutt af mönnum úr því liði og samþykt með 19 atkvæðum. Þar næst má geta þess, að mikið af breytingum Ed. gekk þar fram flokklaust með þetta 9 atkv. og þar yfir. En þótt svo hefði verið, að flokkslitur væri nokkur á gerðum Ed. Hvern er um það að saka? Það var sjálfstæðisflokkurinn, sem leiddi asnann inn í herbúðirnar, fyrst á þingi 1909 og nú í Nd. við meðferð fjárlaganna með því að neita flokksafls í ýmsum fjárveitingum og breytingum. Það hafði ekki átt sér stað fyr, að fjárveitingar væri gerðar að flokksmáli að neinum verulegum mun. Skal eg einungis benda á örfá dæmi frá meðferð fjárlaganna hér um daginn. Þá var tekið fé frá Borgarfjarðarbrautinni og flutt á Stykkishólmsveginn og Skagafjarðarbrautina. Viti á Flatey var tekinn og kastað vestur á Bjargtanga o. fl. o. fl. Hvað er nú undarlegt í því þó hinn flokkurinn vildi leiða asnann út úr herbúðunum aftur, úr því hann hafði afl til þess í Ed.? Gallinn er að hann gerði það linlega.

En hvaða lit sýna sjálfstæðismenn nú við þessa umræðu. Hér liggja fyrir 20 þingskjöl með hækkunartill, alls 87½ þús., þar með tel eg þó ekki háskólabygging h. 1. þm. Rvk (J. Þ.) með 100 þús. kr. Eg tek þar ekki á merinni mark. Hún getur varla verið meint alvarlega. En hitt alt virðist í fullri alvöru og verður líklega framfylgt með flokksfylgi að vanda. Af þessum till. er einungis ein veslingstillaga með 600 kr. upphæð frá heimastjórnarmönnum. Hinar allar frá sjálfstæðisliðinu utan fjárlaganefndar. En svo kemur þó viðleitnin fram að spara eitthvað upp í þetta, vegna fjárhagsins líklega. Og þó er ekki seilst um hurð til loku. Bara brugðið sér í kjördæmi heimastjórnarmanna eða þá slæm kjördæmi önnur og tekið:

af Þingeyjarsýslubrautinni 10 þús. kr.

Eyjafjarðarbrýrnar ... 10 — —

af Borgarfjarðarbrautinni,

því Mýrasýsla reyndist

slæm 20 — —

Vattarnessvitinn .... 6½ — —

2 verksmiðjur, sem

heimastjórnarmenn eru mjög

bendlaðir við . . . . 12 — —

Þetta gerir alls 58½ þús. kr.

Hér er óneitanlega litur á, þótt líklega sé nú ekki mikið meint með sumum þessum sparnaðartillögum.

Þarna fyrir utan eru breyt.till. fjárlaganefndar. Þar nema hækkanir 67 þús. og fær koparþráður til Ísafjarðar 55 þús. kr. af því. Hann snertir raunar ekki heimastjórnarkjördæmi, þótt heimastjórnarmenn fylgi honum jöfnum höndum. Raunar eru sparnaðartillögur fjárlagan. upp á nálægt 80 þús. að nafninu til. En þar í er viðskiftaráðunauturinn 24 þús. kr. og Hafnarfjarðarbryggjan með 25 þús. kr. og er eg ekki hræddur um, að sjálfstæðismenn samþ. þær tillögur. En svo er líka Flateyjarvitinn, sem settur var inn í Ed. Þar er sparnaðurinn vís! Á þessu stutta yfirliti yfir breyt.till., sem fyrir liggja, má þó sjá tilhneigingar sjálfstæðismanna og ætla eg ekki um þær að fjölyrða. Einungis minnist eg þeirra orða, sem Sigvaldi prestur er látinn segja í »Manni og konu«: »Sómafólk alt það fólk«.