01.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Framsögnm. Steingr. Jónsson:

Áður en frv. fer héðan vil eg minnast dálítið á það, hvernig það lítur nú út, og hverjum breytingum það hefir tekið hér í deildinni. Eg skal að eins tala um gjaldahliðina, því að tekjunum hefir ekkert verið rótað við.

Þegar frv. kom hingað til deildarinnar, voru útgjöldin alls kr. 3,168,522,34.

En nú eru útgjöldin 3,208,417,34.

Gjöldin hafa því hækkað um kr. 39,894,00. Og tekjuhallinn er nú orðinn kr 321,017,34.

Nú skal eg benda á það, hvernig þessi útgjaldaauki, kr. 39,894,00, er tilkominn, eða hvernig hann skiftist niður á greinar frumvarpsins. Því að það getur gefið nokkra bendingu um það, hver stefna deildarinnar er í fjármálum,

10. gr. frv. hefir hækkað um kr. 800,00

12. " " " " " " 6,600,00

14. " " " " " " 24,520,00

15. " " " " " " 14,800,00

16. " " " " " " 6,174,00

____________________

Samtals kr. 52,894,00

Aftur hefir 13. gr. lækkað um " 13,000,00

Svo að hækkunin nemur þá " 39,894,00

En auk þess hefir 18. gr. (eftirlaun) verið hækkuð um kr. 2,200,00, og þá er hækkunin öll til samans í raun og veru kr. 42,094,00. Þegar nefndin lagði fram álit sitt í fyrir deildina, þá lagði hún til að gjöldin hækkuðu um kr. 30,620,00 og stóð sú hækkun í sambandi við stofnun háskólans. Þannig hafa útgjöldin við atkvæðagreiðsluna hér í deildinni hækkað um kr. 11,474,00 fram yfir það sem nefndin lagði til. Af þessum 11,474 krónum eru 2400 kr. þannig tilkomnar, að deildin hefir felt lækkanir, sem nefndin lagði til, en afgangurinn, kr. 9,074,00, hefir komist inn eftir tillögum einstakra þingmanna. Eg vildi að eins benda á þetta vegna þess að hv. deildarmenn hafa, ef til vill, ekki gert sér það ljóst, að kornið fyllir mælirinn. Þetta voru altsaman smáupphæðir, en til samans nema þær þó rúml. 9000 krónum.

Fjárveitingarnar nema þá alls á fjárlögunum, eins og frv. er nú, kr. 3,208,417,34. Áður hefir deildin samþykt á fjáraukalögum fyrir árin 1910 og 1911, kr. 105,751,23, sem á auðvitað að taka af tekjum þessa árs, en ef tekjurnar hrökkva ekki til þess, sem má búast við, þá verður að taka þessa upphæð af viðlagasjóði til bráðabirgða og dregst það þá frá því sem brúka á á næsta fjárhagstímabili. Því að tekjuafgangurinn 1910 er sagður að hafa nákvæmlega dugað til þess að fylla tekjuhallann á núgildandi fjárlögum, en ekkert þar fram yfir. — Ennfremur hefir deildin samþykt lög um hafnargerð í Reykjavík, og á landsjóður að leggja til hennar 400 þús. kr. Nú geri eg ráð fyrir að af því komi til útborgunar ¼ hluti eða 100 þús. kr. á næsta fjárhagstímabili. — Gjöldin á næsta fjárhagstímabili verða þá öll til samans á fjárl., fjáraukal, og til hafnargerðar kr. 3.414,168,57. Eg er ekki að benda á þetta af því að eg álíti lengra farið í útgjöldunum en nauðsynlegt er, og ekki heldur af því að eg álíti þetta svo ískyggilega háa upphæð, að við séum komnir á „Fallitens Rand“. En þetta er æði há upphæð, og ég hygg hærri en nokkurntíma áður hefir verið samþykt á þingi.

Þá vil eg athuga hvað til er uppí þessi útgjöld. Það er þá fyrst tekjur eftir fjárlagafrv. kr. 2,887,400. Tolllög, sem liggja fyrir í deildinni, kr. 120,000. Og loks smá skattalög, um erfðafjárskatt o. fl., sem má áætla um kr. 70,000. Þetta gerir til samans kr. 3,077,400. Nú hefir verið sýnt fram á það, að áfengistollurinn væri of hátt áætlaður fyrir næsta fjárhagstímabil, og væri rétt að lækka hann um 110 þús. kr. til þess að áætlunin geti heitið varleg. Ef þessi upphæð, 110 þús. kr., er dregin frá tekjunum, sem eg taldi áðan, þá eru eftir kr. 2,967,400. Þetta verður ekki hrakið; það eru sem næst 3 miljónir, sem við gerum ráð fyrir að fá inn í meðal-árferði, en úr landsjóði eru veittar rúml. 3 milj. og 400 þús. krónur. Og sennilega verður bætt svo miklu við í neðri deild að það verði nær 3 milj. og 500 þús. Hinsvegar má gera ráð fyrir að til hafnargerðarinnar verði tekið sérstakt lán, og má því draga þær 100 þús. kr. frá. Þá eru útgjöldin 3 milj. 400 þúsund, eða með öðrum orðum um 400 þús. kr. tekjuhalli. Þrátt fyrir þetta álít eg alls ekki að fjárhagsástandið sé neitt voðalegt, því að þó að viðlagasjóður sé ekki handbær, þá er hann samt eign landsjóðs og góð eign. En þessar tekjur vantar samt til þess að landsbúskapurinn beri sig. Það er að eins eitt tekjufrumvarp ótalið, sem liggur fyrir þinginu, frumvarpið um farmgjald. En eg býst ekki við, að það frv. gangi fram á þinginu í þeirri mynd, að það geti gefið miklar tekjur eða neitt líkt því, sem gert var ráð fyrir í neðri deild. Auðvitað getur það gefið nokkuð. Eftir því sem eg veit bezt mætti gera ráð fyrir að það gæfi af sér í allra hæsta lagi um 100 þús. kr. á ári. Aðrir gera ráð fyrir miklu minna en engar ábyggilegar skýrslur eru til, því að verzlunarskýrslur eru ekki svo gerðar, að hægt sé að finna út þunga hverrar vörutegundar.

Þá skal eg snúa mér að breytingartillögunum við frv. Þá er fyrst brtill. nefndarinnar á þskj. 820 við 5. gr. 1, að aftan við liðinn komi sú athugasemd, að prestinum í Breiðabólsstaðarprestakalli sé heimilt að verja afgjaldinu af því til túnasléttunar á staðnum. Afgjaldið er kr. 142,38 á ári, svo að þetta verða 284 kr. 76 aur. á fjárhagstímabilinu. Þá vill nefndin setja það skilyrði, að sléttaðar verði minst 5 dagsláttur á þessum 2 árum. Túnið er stórt, en að mestu leyti óslétt, alt óslétt nema það sem presturinn hefir sléttað sjálfur. Hann er búinn að slétta eitthvað 14—15 dagsláttur og hefir ekki fengið lán til þess áður. En nú fer hann að eins fram á að mega verja afgjaldinu til túnasléttunar. Ef hann sléttar 5 dagsláttur, þá er það sama sem að hann fái kr. 56,95 fyrir hverja dagsláttu, og er það líklega rúmlega ? kostnaðar. Nefndin álítur þetta sanngjarnt, því fremur sem þessi maður hefir setið staðinn ágætlega og bætt hann mjög bæði að húsum og jarðabótum.

Þá er breytt. frá nefndinni á sama þskj. við 12. gr. 2. Það var samþykt við 2. umr. að veita lækninum í Strandasýslu 700 kr. launaviðbót á ári til þess að ferðast um Reykjarfjarðarhérað. Nefndin vill nú fyrst og fremst lækka upphæðina niður í 400 kr. á ári. Og hún leggur til að þetta verði ekki launaviðbót til læknisins, heldur styrkur til þeirra héraðsbúa, sem erfiðast eiga, til þess að vitja læknis. Nefndin álítur að tilganginum verði eins vel náð á þennan hátt, og þessi aðferð hefir verið höfð áður; því að Öræfingar hafa haft samskonar styrk. Tilgangurinn var að hjálpa Árneshreppingum að þessu leyti, því að það eru þeir, sem erfiðast eiga með að ná til læknis, og nefndin leggur til að styrkurinn sé greiddur hreppsnefndinni í Árneshreppi. Auðvitað ræður hún þá, hvernig fénu er varið og getur t. d. borgað lækni fyrir vissar ferðir um héraðið, eftir því sem henni og lækni kemur saman um. Að því er snertir upphæðina þá álítur nefndin að 400 kr. sé nægilegt. Fyrir þá upphæð ætti læknirinn að geta farið þessar 4 ferðir um héraðið, sem gert var ráð fyrir. Ætti að veita lækni sjálfum 700 kr. launaviðbót, þá væri sjálfsagt að skipa hann þá heldur til að þjóna Reykjarfjarðarhéraði með hálfum launum, því að hálf launin eru einmitt rúmar 700 kr. En sem sagt nefndin álítur 400 kr. nóg, og leggur til að brt. verði samþykt.

Þá er breytt. nefndarinnar á þskj. 827, um styrkinn til að semja þýzk-íslenzka orðabók. Nefndin kom með breytt. við 2. umr. að færa styrkinn niður í 1000 kr. í stað 1500 á ári, en tók þá tillögu aftur. Nú leggur nefndin til að halda upphæðinni 1500 kr. á ári, en þannig að hann fái 60 kr. fyrir örkina alt að þessari upphæð. Meiri hluti nefndarinnar vildi ekki fara hærra en þetta fyrir hverja örk. En að öðru leyti er liðurinn óbreyttur.

Þá kem eg að breytingartill. einstakra deildarmanna, fyrst brt. á þskj. 808. Nefndin getur ekki aðhylst þá tillögu. Það virðist vera alt of snemt eða of frekt af efri deild að veita svona háa upphæð til sandgræðslu, án þess að stjórnin hafi gert nokkrar tillögur í því máli. Í slíku máli virðist rétt að neðri deild hafi forgöngu, því að það er hún, sem hefir aðalfjárveitingarvaldið. Eg mundi annars fyrir mitt leyti vera með slíkri fjárveitingu, því að það er sjálfsagt full ástæða til að hefjast handa að því er snertir sandgræðslu þar austur frá.

Nefndin getur ekki fallist á fjárv. 6200 kr. til síma frá Suðureyri til Ísafjarðar. Hún lítur svo á, að þetta ætti að falla inn undir símalög þau, sem hv. n. d. hefir með höndum. Þá er önnur till. frá hv. sama þm. V.-Ísf., sem fer fram á að fá eftirgjöf sýslunni til handa af símaláni. Það telur nefndin varhugavert fordæmi að veita slíka eftirgjöf. Verið getur þó, að það sé rétt hjá hv. þm. að Vestur-Ísafjarðarsýsla hafi orðið nokkuð hart úti að því er fjárframlög til síma snertir; en þó held eg að hún hafi ekki orðið eins mikið útundan og hv. þm. V.-Ísf. hélt fram. Þá er hér og br.till. frá háttv. þm. Strandamanna, sem er nokkurskonar afturganga, og fer fram á 3000 kr. fjárframlag til vegar úr Hrútafirði í Gilsfjarðarbotn. Eg álít ekki rétt að taka þennan vegakafla út úr og fram yfir aðra þjóðvegi.

Þá er loks br.till., sem eg hefi leyft mér að koma fram með sjálfur, og er hún á þskj. 821 og við hana er br.till., sem þó er aðeins orðabreyting. Þessi till. er um botnvörpusektirnar. Eg lít svo á, að þetta ákvæði, að Danir fái 2/3 hluta sektanna, sé bygt á nokkurskonar samningi milli Íslands og Danmerkur, sem ekki verður rofinn vansalaust. Að vísu má segja að um þetta sé ekki formlegur samningur, en engu að síður er málið þannig vaxið, að frá þessu verður ekki gengið nema allar kringumstæður breytist algerlega. Svona er því einnig varið með ýmsa aðra liði á fjárlögunum.

Um aldamótin síðustu var oft og einatt verið að klifa á því, að strandvarnarskipið yrði hér lengur, og einmitt af þeim orsökum var það, að Danir létu smíða nýtt varðskip handa okkur. Og þá settu þeir það skilyrði, að Íslendingar legðu eitthvað af mörkum.

Á þingunum 1905 og 1907 var samþ. að Danir skyldu fá þennan hluta botnvörpusektanna; það var að vísu felt á þinginu 1909, en svo er fyrv. ráðh. (B. J.) kom með fjárlögin niður til Danmerkur, varð hann að viðurkenna að þetta tiltæki hafi ekki verið rétt; það gerði hann, sem drengur. Það skal honum sagt til maklegs hróss. Núverandi ráðherra lítur eins á málið. Allir þrír ráðherrar, sem nú höfum vér haft, líta því nákvæmlega eins á málið, og Danir líta svo á, að hér hafi verið rofnir samningar á þeim. Það er þetta sem var í húfi — það er þetta, sem eg áleit skyldu mína að benda á.

Danir geta sagt, hvenær sem þeim þóknast: þessu þingi, þessum mönnum, þessari þjóð er ekki treystandi, og þeir geta meira, — þeir geta tekið af okkur skipið aftur, og hvar stöndum vér þá?

Og eg held það sé alt annað en heppilegt fyrir okkur að vera sí og æ að reita Dani til reiði eins og nú hagar til. Sambandsmál vort er í ólagi, og auk þess skuldum vér Dönum stórfé.

Loks er nú stjórnarskrárbreyting á leiðinni sem við ef til vill getum búist við að Danir vilji amast við, smbr. ritsmíðar prófessors Knud Berlins. Af þessu sem nú hefi eg sagt, vænti eg þess að hv. deild samþykki þessa br.till. mína.