04.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg ætla að minnast á smá atriði í breyt.till. þess þingmanns, sem kendur er við »dragsúg«. Hann hélt lofræðu um Thorkillius gamla, sem hver maður heiðrar. Öðru máli er að gegna um bók þessa. Í henni eru ef til vill 70—100 blaðsíður, sem er æfisaga Thorkillius, auðvitað ekki skrifuð af þm. og því læsileg. En öll er bókin 2 stór og þykk bindi. Æfisagan, sem ekki er eftir dragsúgsþingmanninn, er það eina nýtilega í henni, en að öðru leyti er hún ein stór ruslakista. Hann mintist á bók, sem eg er við riðinn. Fáir ljúga meir en helming, segir máltækið. Hann sagði, að bók sú hafi kostað til þessa 4,500 kr., en hún hefir einungis kostað 3000 kr. Með öðrum orðum, hann lýgur ekki meiru en 50%. Á bók þá hafa norrænuprófessorar í Kaupmannahöfn, Kristjaníu og Oxford lokið lofsorði, en um bók hans hafa allir sagt hið sama, að hún væri endemi. Sami maður bar hér fram þingsályktunartillögu um guðsþakkafé, Thorkillisjóðurinn er guðsþakkafé, og hvernig hefir hann farið með hann? Vextir af því fé, sem þessi bók hefir kostað, hefðu nægt til að uppfræða 20 börn árlega um aldur og æfi. Hann hefir því svift 20 börn um aldur og æfi rétti til að eiga kost á fræðslu. Bókin hefir kostað á 5. þús. kr., en ekki hefði þurft jafn mörg hundruð til að gefa út nýtilega æfisögu.

Svo er tillaga hans um að veita fé til afskrifta af ýmsu því í Kaupmannahöfn, er snertir Ísland. Það er í sjálfu sér mjög tilhlýðilegt og þarft verk, ef það væri í góðum höndum, og ætti Landsbókasafnið að annast það. En það er mjög ótilhlýðilegt, að láta skjalasafnið annast það. Það safn er alt annars eðlis. En merkustu handrit öll hér eru (og eiga að vera) í bókasafni landsins. Auk þess er mikið af þessu á latínu, en allir vita, að skjalavörðurinn kann ekki latínu. Svo trúi eg honum ekki fyrir að hirða og binda blöð og bækur, og ekki tel eg heldur vert að láta fara meira af fé og reikningum í gegnum hans hendur en þörf er á, sízt til bókbands. Vona eg að háttv. þm. skilji hvað eg á við. (Nokkrir þingmenn: Þingmaðurinn er genginn af fundi). Það er ekki mín sök, þótt þingmaðurinn þori ekki að hlusta á mig og flýi af hólmi.

Svo er ein till. frá sama þingm. um 100 þús. kr. fjárveitingu til að reisa háskólahús. Fyrst studdi hann háskólastofnunina, svo varð hann á móti henni og seinast vildi hann drepa hana. En þegar það tókst ekki, ætlar hann að gylla sig upp á ný með þessari tillögu. En landssjóður á ekki fé til þessa, enda getur háskólinn vel komist af með þau húsakynni, sem hann getur fengið hér í húsinu, og svo eitthvað af þeim húsnæðum, sem skólarnir hafa nú hér í bænum.

Virðulegur 2. þm. Rang. (E. J.) var á móti öllum verksmiðjum, og þá einnig þeirri á Ísafirði. Röksemdaleiðsla hans í því efni var mjög undarleg, gekk hún alveg »over min Forstand og ind i Præstens«.

Ætla eg svo ekki að segja meira að þessu sinni.