04.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Benedikt Sveinsson:

Eg vil minnast á breyt.till. á þgskj. 930. Svo er mál vaxið, að á komanda sumri eru liðin þúsund ár síðan Göngu-Hrólfur tók ríki í Norðmandíi og verða þar hátíðahöld mikil í minning þessa atburðar. Forstöðunefnd hátíðahaldsins hefir sýnt alþingi þá kurteisi, að bjóða forseta sameinaðs alþingis að taka þátt í hátíðinni og fer hún fram í Rúðuborg og París 9.—11. júní næstkomandi. Verður þar mikið um dýrðir, fjöldi manna af Norðurlöndum og úr öllum áttum heims. Mér finst þinginu ósamboðið að hafna boði hátíðanefndarinnar, því fremur sem það liggur Íslendingum nær en flestum öðrum þjóðum, að minnast landnáms Norðmanna á Frakklandi, því að það er svo nátengt byggingu Íslands. Löndin bygðust, sem kunnugt er, á sama tíma og af sömu þjóð, víkingunum norrænu, og svo var frændsemin náin, að meðal landnámsmanna vorra var Hrollaugur son Rögnvalds Mærajarls, bróðir Göngu-Hrólfs, að því er hinir beztu fræðimenn vorir hafa ritað í forneskju. Það má meir að segja fullyrða, að flestir Íslendingar séu komnir af Göngu-Hrólfi sjálfum, því að hann var langafi Ósvífrs hins spaka Helgasonar og Einars skálaglamms, að því er Landnámabók telur, en frá Ósvífi eru miklar ættir komnar. — Frændur vorir í Norðmandí týndu að vísu brátt tungu sinni, en engu að síður hélzt lengi frændsemi og vinátta með þeim og norrænum mönnum. Áttu víkingar þar löngum friðland. Svo var um Ólaf konung Haraldsson hinn digra, að hann hafði vetursetu með Rúðujörlum, áður hann yrði konungur í Noregi. Eldi og lengi eftir af norrænu skaplyndi og fornum háttum í Norðmandí, jafnvel til þessa dags.

Eg hef minst á þetta til þess að sýna að Íslendingar hafa alveg sérstaka hvöt til þess að gefa gaum þessari 1000 ára hátíð og sinna boðinu. Eru Íslendingar einnig sú þjóð, sem bezt hefir haldið þjóðerni hinnar merku og frægu víkingaþjóðar, er bæði löndin bygði og verður því landi voru vafalaust sérstakur gaumur gefinn við þetta tækifæri, einkum ef vér sendum þangað fulltrúa fyrir þjóðarinnar hönd. En það er ekki oft, sem svo ber undir, að stórþjóðirnar minnast Íslands á allsherjar samkomum, sem athygli vekja um allan heim.

Bent hefir verið á það, að annar maður fari héðan af landi til hátíðarinnar, en það skiftir hér engu máli. Hann fer sem »prívat«-maður, en þó hefir efri deild nú ætlað honum styrk til fararinnar. Það væri því meiri fjarstæða að synja þeim manni um styrk, sem beint er boðið af nefndinni sem fulltrúa þings og þjóðar og eg trúi því ekki fyr en eg tek á, að þingið láti sig þann vansa henda.

Fjárveitingin hefði átt að koma í fjáraukalögunum, en við flutningsmenn vissum ekki af boðinu fyr en þau voru samþykt í þessari deild. En það kemur í einn stað niður. Forsetinn leggur féð til sjálfur í bráðina.

Þá vil eg geta þess, að nafn mitt stendur ranglega á þingskjali 919. Eg á engan þátt í þeim breytingartillögum, sem þar standa og er þeim flestum mótfallinn. Það er fyrir vangá skrifstofunnar og misskilning, að eg er skráður þar sem flutningsmaður. Þá hefi eg leyft mér að koma fram með breyt.till. um það, að styrkurinn til viðskiftaráðunautar sé færður niður um 2000 kr. hvort árið og að hann sé bundinn við nafn Bjarna Jónssonar. Eg álít það alls ekki tilhlýðilegt að leggja þetta starf niður. Það hefir mætt heldur ómjúkri mótspymu frá Dana hálfu og þeir hafa litið réttilega svo á, að þetta væri drjúgt spor í þá átt, að auka sjálfstæði Íslendinga, en það ætti einmitt að hvetja til þess að standa fastir fyrir og leggja starfið ekki niður með úsæmd. Viðskiftaráðunauturinn hefir gert landinu mikið gagn með fyrirlestrum sínum erlendis, margsinnis tekið málstað vorn, einkum gegn Dönum, er oft hafa kastað að Íslendingum og reynt að rýra málstað þjóðarinnar. Eins hefir hann stuðlað að því að koma á heppilegum viðskiftasamböndum við Ísland. T. d. sendu Svíar hingað í sumar hestakaupmenn til Norðurlands, sem keyptu þar allmargt af hestum og hafði það í för með sér mikla verðhækkun á útfluttum hrossum. Var það fyrir tilstilli ráðunautarins. Má vænta mikilla hagsmuna af þeim markaði á komandi tímum. Því fé, sem veitt er viðskiftaráðunautinum, er því ekki á glæ kastað.