15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Framsögumaður (Björn Þorláksson):

Eg skal ekki vera fjölorður, enda get eg vísað til nefndarálitsins, en þarf þó að minnast á nokkrar breyt.till., sem nefndin hefir gert við frv. stjórnarinnar. Fyrst er að minnast á brtill. við þá tillögu stjórnarinnar, að heilsuhælinu á Vífilsstöðum verði greitt fyrra árið 8333 kr., en síðara árið 15,000 kr. Hér leggur nefndin til, að heilsuhælið fái að eins 8000 kr. hvort árið. Það virðist hafa vakað fyrir stjórninni, að koma heilsuhælinu á landssjóð. En minna má á það, að þegar mál þetta var í undirbúningi, var það látið í veðri vaka, að heilsuhælið skyldi stofnað og rekið með frjálsum tillögum góðra manna, og undirtektir almennings gáfu góða von um, að þetta mundi lánast. Á síðasta þingi voru svo veittar 10,000 kr. til hælisins og ef breyt.till. nefndarinnar verður samþykt, fær það 18,000 kr. þetta ár. Það vakti fyrir nefndinni, að hærri fjárveiting væri ofvaxin fjárhag landssjóðs. Og þar að auki, þótt fjárhagur landssjóðs væri í betra lagi, þótti nefndinni það óráðlegt, að draga úr áhuga manna á að safna gjöfum og tillögum, með því að veita enn hærri styrk úr landssjóði. Áætlun um kostnaðinn við að reka hælið lá fyrir nefndinni, en sú áætlun er bygð á ágizkunum, en ekki reynslu, enda er engin reynsla enn þá fengin, þar sem hælið eigi tók fyr til starfa en í sept. síðastliðið ár. Nefndinni virtist áætlunin í mörgum greinum helzt til há; meðal útgjaldanna er t. d. 900 kr. vátryggingargjald og telur nefndin ekki ólíklegt, að því mætti sleppa, þar sem húsið er bygt úr steinsteypu og eldsvoðahættan lítil eða engin. Loks vil eg benda á eitt atriði, sem sýnir, að hælið ætti að geta komist af án mikils styrks úr landssjóði. Höfuðtekjugrein hælisins er meðgjöf sjúklinganna, en hún er ekki nema helmingur við það, sem tíðkast erlendis; ef hún væri hækkuð t. d. um 50 aura á dag, þá mundu tekjumar aukast til stórra muna. Nefndinni þótti því ekki tiltækilegt, að hafa þessa fjárveitingu hærri.

Þá er ein ný till. um, að lagðar verði 5000 kr. til Reykjadalsbrautar. Til þeirrar brautar hefir talsvert fé verið lagt á gildandi fjárlögum, en talið er að það sé oflítið til þess, að brautin geti komist svo langt, að fult gagn verði að henni. Þess skal getið, að nefndin hefir orðið ásátt um, að tillagið til Reykjadalsbrautar á næstu fjárlögum verði lækkað um þessar sömu 5000 kr.

Til hraðskeytasambands milli Vestmanneyja og Reykjavíkur leggur nefndin til, að veittar verði 40,000 kr. Sumir nefndarmenn héldu fram símasambandi, aðrir loftskeytasambandi. Svo sem menn mun reka minni til, var á síðasta þingi rætt um, að koma Vestmanneyjum í samband við land; var þá helzt talað um sæsíma og svo landsíma frá Garðsauka til sjávar. Eg ætla mér ekki að tala um loftskeytamálið fyrir hinni háttv. deild, eg er ekki vel fær um það, enda veit eg, að annar háttv. þm. muni gera það seinna. En þó að sumir nefndarmenn aðhyltust loftskeytasambandið, vegna þess, að það mundi eiga meiri framtíð fyrir sér og vera ódýrara en sæsími, þá samdist svo, að setja fyrir »loftskeytasamband« »hraðskeytasamband« og fela svo stjórninni að útvega allar upplýsingar um málið og ráða sem heppilegast fram úr því á sínum tíma. Annars hefir hver einstakur nefndarmaður óbundnar hendur, þegar til atkvæðagreiðslu kemur um þetta mál.

Nefndin hefir lagt til, að veittar verði 7000 kr. til brautar meðfram Ingólfsfjalli. Stjórnin hefir með sérstöku bréfi skorað á nefndina um þá fjárveitingu og vegaverkfræðingurinn er henni meðmæltur. Vegurinn meðfram Ingólfsfjalli er nú ófær vögnum, og er því nauðsynlegt, að þar verði gerð akbraut, ef vegurinn austur og til Reykjavíkur á að koma að fullum notum.

Þá er ein lítil fjárveiting, 300 kr., til þess að setja rautt horn í Reykjanesvita; það eru skipstjórar sameinaða gufuskipafélagsins, sem bent hafa á, að þörf væri á þessu. Eg vil í þessu sambandi geta þess, þó að ekki sé um reglulega fjárveitingu að ræða, að vitaverkfræðingurinn hefir skýrt svo frá, að nauðsyn bæri til, að hér væri upplag af ýmsum tækjum til vitanna. Hefir hann farið fram á, að stjórninni yrði veitt heimild til þess að kaupa slík tæki fyrir 4000 kr., og bendir hann á, að þá upphæð mætti taka af 9000 kr., sem menn gera sér von um að sparist af fjárveitingunni til Rifstangavita, sem nú á að byggja.

Stjórnin hefir lagt til, að veittar verði 1600 kr. til aðgerða á lóð og húsi kennaraskólans. Nefndinni þótti svo sem viðgerðir á lóðinni mættu bíða, en vill veita 600 kr. til endurbóta á húsinu.

Þá hefir nefndinni borist erindi frá stýrimannaskólanum um, að loftin í kenslustofunum séu orðin gömul og fornfáleg, og vill hún veita 500 kr. til nauðsynlegra viðgerða á þeim. — Stjórnin hefir skýrt frá, að landskjálftamælirinn liggi undir skemdum, vegna þess, að herbergið sé slæmt, sem hann er geymdur í, og vill nefndin veita 300 kr. til þess að ráðin verði bót á því.

Nefndin leggur til, að feld verði 1000 kr. fjárveiting til Sveinbjörns Sveinbjörnssonar, til þess að gefa út rit um söngfræði; nefndin efast ekki um, að rit þetta yrði vel samið og gróði fyrir söngfræðinga að fá það, en landssjóður hefir í mörg horn að líta, og því verður nefndin að vera mótfallin þessari styrkveiting. Aftur á móti leggur öll nefndin til, að forseta bókmentafélagsins verði veittar 400 kr., sem hann hefir sótt um til þess að geta verið viðstaddur 100 ára afmælishátíð háskólans í Kristjaníu. Honum hefir verið boðið þangað af háskólanum og álítur nefndin, að sjálfsagt sé að þiggja það boð.

— Þá er en ein breyt.till. viðvíkjandi bændaskólanum á Hvanneyri. Samkvæmt reglugerð skólans á að kenna þar leikfimi og glímur. Nú hefir skólastjóri skýrt frá, að hús vanti til þess; hins vegar er til nokkur afgangur af ýmiskonar efni frá því að skólahúsið var bygt á síðastliðnu ári og bendir skólastjóri á, að þennan afgang megi nota til þess að koma upp leikfimishúsi, ef nokkuð fé yrði veitt í viðbót. Þótt þessi afgangur yrði seldur, mundi ekki fást mikið fyrir hann, en hins vegar er ekki hægt að geyma hann lengi, því að hér er aðallega um steinlím að ræða. Nefndin vill því mæla fram með, að veittar verði 2000 kr. til þess að reisa leikfimishús úr steinsteypu á Hvanneyri.

Þá hefi eg stuttlega farið yfir brtill. og viðaukatill. sjálfrar nefndarinnar. Eftir að nefndarálitinu var útbýtt, hafa komið ýmsar breyt.till. frá þm., og hefir nefndin íhugað þær og tekið afstöðu til sumra þeirra, en þó ekki allra. Eg vil minnast á breyt.till. á þgskj. 178 frá háttv. þm. Dal. (B. J.), þar sem farið er fram á, að »til þess að háskóli Íslands geti byrjað 17. júní þ. á., skuli veitt svo mikið fé, sem nemur mismuninum á kenslulaunum þeim, sem nú eru goldin kennurum prestaskólans, læknaskólans og lagaskólans, og þeim kenslulaunum, er gjalda skal kennurum í 4 deildum háskólans«, en sá mismunur nemur 7,400 kr. Nefndin er í heild sinni móti þessari breyt.till., þótt hér sé ekki um mikla upphæð að ræða. En það vakti fyrir nefndinni, að þessi fjárveiting mundi draga aðra miklu meiri á eftir sér, ekki sízt þegar litið er til þess, að alt er ónýtt, ef ekki er reist hús handa háskólanum. Í gær var rætt um færslu þingtímans hér í deildinni og miðuðust skoðanir margra þingmanna við það, að háskólinn gæti, ef til vill, fyrst um sinn notað alþingishúsið. En þau urðu málalok í gær, að nú er loku skotið fyrir það, og virðist því nefndinni slík fjárveiting, sem hér er farið fram á, muni ekki geta komið að neinu gagni, fyr en húsið er reist. Nefndin leggur því til, að þessi brtill. verði feld.

Viðvíkjandi breyt.till. á þgskj. 182 um að veita ekkjufrú Þóru Melsted eftirlaun, þá er fjárlaganefndin henni mótfallin.

Þá er breyt.till. á þgskj. 183 um fjárveitingu til nánari rannsóknar hafnarstæðis í Vestmannaeyjum. Að svo vöxnu máli treystir nefndin sér ekki til að mæla með þeirri breyt.till. Væntanlega skýrir flutnm. málið, og hefir þá hver nefndarmaður óbundnar hendur um atkvæði sitt.

Breyt.till. á þgskj. 194 sér nefndin sér ekki fært að leggja með að svo stöddu. Skal eg í sambandi við það geta þess, að til tals kom í nefndinni líkt mál þessu: að kaupa bæjarsímakerfið í Reykjavík, sem mundi verða landssjóði mjög arðsamt. Slík kaup ættu að sitja fyrir.

Breyt.till. á þgskj. 198, um að veita 400 kr. styrk til vélbátaferða milli Papóss og Hornafjarðar, leggur nefndin á móti af þeirri ástæðu, að fé er veitt á gildandi fjárlögum til vélbátaferða og því hægur nærri að sækja til stjórnarinnar um styrk.

Breyttill. á þgskj. 199 og 204 um fjárveiting til brúargerðar á Bakkaá og Hölkná getur nefndin ekki mælt með, ekki af því að téðar fjárveitingar kunni ekki að vera nauðsynlegar, heldur af því að ekki liggur fyrir álit verkfræðings landsins, og fyrst verkfræðingurinn er nú einu sinni til, þá vill nefndin ekki ganga í berhögg við hann, því að brýr á ekki að leggja út í bláinn, heldur á að fara eftir vissri reglu.

Þgskj. 211 fer fram á 3000 kr. fjárveitingu til Borgarfjarðarbrautarinnar. Nefndin leitaði álits verkfræðingsins um þessa fjárveitingu, og taldi hann hana vera óþarflega háa, því að hér væri að ræða um illfæra mýri, og mundu 2000 kr. nægja til að koma brautarendanum úr mýrinni upp í holt. Út af þessu kom nefndin fram með breytingartillögu um 2000 kr. fjárveitingu, og vill því skjóta því til háttv. flutnm. að taka sína breyt till. aftur.

Skal eg svo ekki orðlengja meira um frumv. að þessu sinni.