15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Stefán Stefánsson:

Það er fyrir tilmæli sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu og búenda í Ólafsfirði, að við þingmenn Eyjafjarðarsýslu flytjum viðaukatillögu á þgskj. 194 um, að landsjóður kaupi símalínuna frá Dalvík til Ólafsfjarðar fyrir 7600 kr.

Það er fyrir nokkrum árum síðan að Eyfirðingar fóru að leggja kapp á að byggja símalínur til helztu verstöðva í norðursýslunni. Eg minnist þess, að árið 1906 gerðu Eyfirðingar tilraun til þess að fá Skagfirðinga í félag með sér, að leggja síma frá Vatnsleysu í Skagafirði til Siglufjarðar og var sú leið mæld á kostnað Eyjafjarðarsýslu. En þá eyddu Skagfirðingar málinu og vildu ekki neitt við það eiga. Þegar svo var komið, bygðu Eyfirðingar síma á sinn kostnað frá Völlum til Dalvíkur og þaðan til Ólafsfjarðar. Það var gert árið 1908. Var þá hugmynd Eyfirðinga að halda símanum áfram frá Ólafsfirði til Siglufjarðar, en þegar til landsímastjórnarinnar kom, réð hún frá að símalína yrði lögð yfir fjallgarðinn á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar; því var það, að eg flutti hér á síðasta þingi tillögu ásamt 1. þm. Skag. (Ó. Br.) um fjárframlag úr úr landssjóði til byggingar símalínu frá Vatnsleysu í Skagafirði til Siglufjarðar sem og var bygð síðastliðið sumar. En til þessarar símalínu (frá Vatnsleysu til Siglufjarðar) hefir Eyjafjarðarsýsla og Hvanneyrarhreppur orðið að leggja 3600 kr., þrátt fyrir það, að sjáanlegt er, að sími þessa leið til Siglufjarðar rýrir að stórum mun tekjur af Ólafsfjarðarlínunni, sem er eign héraðsbúa, og að eins af þeirri ástæðu studdi eg fjárveitinguna á síðasta þingi, að eg áleit knýjandi nauðsyn á síma til Siglufjarðar og jafnframt ávinning fyrir landsímann, en treysti því hins vegar, að Ólafsfjarðarálman yrði keypt síðar af landssjóði. Nú höfum við þingmenn sýslunnar farið fram á það, að landið keypti símann til Ólafsfjarðar fyrir ? parta af hans upphaflega verði. En bókfærður byggingarkostnaður línunnar er 11253,24 kr. Það er ekki svo að skilja að Ólafsfjarðarsíminn sé byrði eða útgjaldaauki fyrir sýslufélagi, en meðan hann er þess sérstaka eign verður að leggja á símanotendur 50 aura gjald fyrir hvert viðtalsbil, til viðhalds línunni og starfrækslu hennar; þegar þessu gjaldi yrði létt af, myndi síminn verða miklu meira notaður og tekjurnar þá meiri, en þær nú eru, meðan aukataxtinn hvílir á. Það er því mjög hófleg og sanngjörn ósk, að landssjóður kaupi þessa símalínu og borgi ? hluta af upphaflegu verði hennar, eða 7600 kr. Það ber líka að taka tillit til þess, að aðalsíminn hefir þegar fengið 4 þús. króna tekjur af Ólafsfjarðarsímanum, án þess að hafa lagt fram einn eyri til hans, og þar tekið hlut sinn á þurru landi. Í sambandi við þetta mál er einnig þess að minnast, að landsímastjórnin hefir með hálfgerðu valdboði tekið af Eyjafjarðarsýslu símalínurnar bæði til Hjalteyrar og Dalvíkur, sem voru mjög arðvænleg fyrirtæki, sérstaklega er það Hjalteyrarlínan, sem hefir sennilega borgað sig á tveim til þrem árum, svo það var til stórskaða fyrir sýsluna, að hún varð að láta hana af höndum, að eg ekki tali um talsímakerfi Akureyrarkaupstaðar, sem varð að afhenda í fullkominni óþökk við bæjarbúa. Eins og eg þegar hefi tekið fram er það aðallega vegna aukataxtans, sem á línunni hvílir, að þess er óskað, að landssjóður kaupi hana og það því fremur, sem hér á hlut að fátækt sveitarfélag, sem bæði er tilfinnanlegt og ósanngjarnt að íþyngja með óeðlilega háum símtaxta.

Í Ólafsfirði eru nú um 500 íbúar og flestir þeirra búsettir í Ólafsfjarðarhorni en þar er bæði rekin allmikil verzlun og sjávarútvegur, en einmitt þessir atvinnuvegir, þurfa sérstaklega mikið að nota síma. Hvað útveginn snertir, þá munu ganga þaðan frá 30—40 véla- og róðrarbátar, og síðustu árin hefir útfluttur verkaður saltfiskur þaðan numið árlega um 1 þúsund skippundum. En svo er þess að gæta, að útvegurinn vex árlega og verzlunin þá eðlilega að því skapi. Þetta bendir á hve síminn er nauðsynlegur fyrir Ólafsfjörð, sem er afskekt útkjálkasveit.

Háttv. framsögumaður fjárlaganefndarinnar (B. Þ.) gat þess, að þessi fjárveiting yrði ekki tekin til greina fyr en um leið og talsímakerfi Reykjavíkur yrði keypt. Eg er hræddur um, að það gæti þá dregist nokkuð, því nú er engin vissa fyrir því, að þingið sjái fært að ráðist sé í þau kaup. En hér er líka talsvert ólíku saman að jafna. Fyrst er það að engin ósk hefir komið fram frá Reykvíkingum um, að talsímakerfi Reykjavíkur yrði keypt, eins og á sér stað með þessa símalínu. Í öðru lagi þá hvílir enginn aukataxti á talsímakerfi Reykjavíkur, sem dregur úr notum þess, svo tekjurnar af því renna óskertar í vasa eigendanna. Það er nú von mín, að þeir, sem hafa veitt orðum mínum eftirtekt, samþykki þessar viðaukatillögur. Það er í fylsta máta sanngjörn og eðlileg ósk, að landssjóður kaupi þessa símaálmu.