16.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Hannes Hafstein:

Hinn háttv. samþingismaður minn, hefir gert svo ljósa grein fyrir viðaukatillögu okkar, að eg hefi þar engu við að bæta. Hér er um það að ræða fyrir landssjóð, heldur kostakaup. Hér er um það að ræða, að landssjóður kaupi símann frá Dalvík til Ólafsfjarðar fyrir 66% af verði hans og græði þriðjung verðs. Hinn háttv. framsögum

(B. Þ.) var þessu hlyntur, en hann vildi ekki, að síminn yrði keyptur fyr en útgert væri um, hvort landið keypti talsímakerfi Reykjavíkur eða ekki. En nú er útséð um það, að annaðhvort verður að endurnýja leyfi Reykjavíkur um 10 ár eða kaupa talsímakerfið nú strax, og með því að landinu er alveg vís mikill gróði, alt upp undir 13—15% af því að taka talsímakerfi Reykjavíkur að sér, þykist eg viss um að fjárlaganefndin sleppi ekki Reykjavíkurkerfinu nú — þótt aktíueigendum þess falli það miður vel — og þá siglir vonandi Ólafsfjarðarsíminn í kjölfarinu.

Þá vildi eg minnast á hraðskeytasambandið milli Vestmanneyja og Reykjavíkur. Eins og menn vita leggur stjórnin til, að komið sé á loftskeytasambandi milli Vestmanneyja og Reykjavíkur og er það þó þvert á móti ráðum landsímastjórans, sem að vísu vill, að ein loftskeytastöð sé hér á landi, en álítur, að ekki eigi að blanda því máli við hraðskeytasamband Vestmanneyja og meginlands. Háttv. þm. Barð. (B. J.) hélt langa ræðu um þetta mál í morgun og kvaðst vilja gefa óhlutdræga skýrslu sem fyrv. ráðherra. Eg skal ekkert segja um, hvað óhlutdræg þessi skýrsla kann að hafa verið, en ekki fanst mér hún alveg litlaus; að minsta kosti margendurtók hann slík orð sem óvit, glapræði, fáránleg heimska o. s. frv. Slík ummæli hefi eg aldrei séð í ólituðum skýrslum stjórnarvalda. Í þessu máli geta menn deilt um tvent, í fyrsta lagi, hvort nauðsyn beri til að koma upp loftskeytastöð hér á landi, og í öðru lagi, hvort loftskeytasamband milli Vestmannaeyja og meginlands sé heppilegra en ritsímasamband. Flest þau rök, sem háttv. þm, Barð. (B. J.) flutti fyrir sínu máli í morgun, snertu að eins hið fyrra atriði. Hann sagði t. d., að væntanlega mundu Englendingar innan skamms gera öllum fólksflutningsskipum að skyldu, að hafa loftskeytaverkfæri meðferðis. Ekki snertir þetta Vestmannaeyjar sérstaklega; flestir mundu þvert á móti kjósa að hafa beint samband við Rvík, heldur en að þurfa að senda skeyti sín til Vestmannaeyja fyrst og eiga svo á hættu, að þau misfærust á leiðinni þaðan til Reykjavíkur. Ennfremur sagði hann, að loftskeytastöð væri nauðsynleg vegna þess, að »Fálkinn« hefði slík tæki og að fiskiveiðaeftirlitið gæti á þann hátt orðið margfalt betra. Það er hverju orði sannara, að gott væri að hafa loftskeytasamband við »Fálkann«, en það kemur Vestmannaeyjum ekkert við, »Fálkanum« væri margfalt heppilegra að standa í beinu sambandi við Reykjavík, þó ekki væri vegna annars en að landstjórnin situr þar. Sama er að segja um þá staðhæfing hins háttv. þm., að fiskiveiðafloti vor muni innan skamms fara að nota loftskeyti; honum væri alveg eins gott að hafa samband við Reykjavík eins og við Vestmannaeyjar. Annars er furðulegt, að slíku skuli vera slegið fram, að fiskiskip vor muni fara að útvega sér loftskeytatæki. Það er eins og ef gert væri ráð fyrir, að útgerðarmennirnir færu að ráða lækna á skip sín! Til þess að nota loftskeytaverkfærin þarf lærðan »telegrafista« og býst eg við, að fiskimönnum myndi þykja það kostnaðarauki, að bæta við hálaunuðum sérfræðingi, sem ekki gerir annað en sitja við loftskeytatækin, meðan aðrir vinna að aflanum. Eg get því ekki talið líklegt, að neitt verði úr þessu, en ef það kæmist á, yrði skipunum fult eins gott að standa í beinu sambandi við Reykjavík eins og við Vestmannaeyjar. Þá gat hinn háttv. þm. þess, að ef loftskeytasamband kæmist á milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, mundu tekjur sæsímans aukast til stórra muna og kvað hann forstjóra hins stóra norræna ritsímafélags meðmæltan loftskeytasambandinu, af því að hann byggist við auknum tekjum af því fyrir sitt félag. Eg trúi því nú laust, að Suenson hafi haldið það meiri tekjur fyrir Mikla norræna að hafa loftskeytasamband skipa við Vestmannaeyjar, heldur en Reykjavík. En hitt er víst, að fyrir landsímann yrði tekjuaukinn alt eins mikill, þótt loftskeytastöð væri engin í Vestmannaeyjum, en að eins hér í Reykjavík á eða öðrum hentugum stað. Þá er enn að minnast á þá ástæðu hins háttv. þm., að ef loftskeytastöð væri sett í Vestmannaeyjum, þá mætti koma upp smástöðvum í Skaftafellssýslum. En má það ekki alveg eins, þótt að eins sé ein stöð hér í Reykjavík? Eins og menn sjá, snertir ekkert af þessu loftskeytasambandið milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Spurningin er aðeins sú: Vilja menn endilega blanda Vestmannaeyjum inn í spurninguna um þráðlaust samband við skip á sjó, eða eiga Vestmannaeyjar að njóta jafnréttis við aðra landshluta, að því er talsímasamband snertir ?

Aðeins tvær röksemdir hins háttv. þm. Barð. (B. J.) snertu loftskeytasambandið milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Önnur var sú, að það væri ódýrara en símasamband. En hin var eitthvað í þá átt, að brimið við sandana fyrir austan væri svo mikið, að brimhljóðið mundi yfirgnæfa símtalið! Það er eins og háttv. þm. haldi, að hér sé um einhverjar hljóðpípur að ræða, sem mannsmálið berist í gegnum. Hann talar eins og hann álíti, að hljóðbylgjurnar berist gegnum símann. Þetta er sami skilningurinn og þekkingin, eins og kerlingin lét í ljósi, þegar hún heyrði þjóta í símanum: »Fallega rífast þeir núna«. En aðrir álíta, að það séu rafmagnsöldur, sem símatáknin flytja, án tillits til hljóðbáranna og mun háttv. þm. líka kannast við, að þessi röksemd, sem hann kom með, nái engri átt, enda hefir víst háttv. þm. talað þetta að eins í ofstæki og ógáti.

Hitt er og fjarri sanni, að loftskeytasamband sé ódýrara en símasamband og er furða, að háttv. þm. skuli fullyrða slíkt, þar sem skýrslur þær, sem hann sjálfur leggur fram, sýna að ritsímasamband er ódýrara, auk þess sem starfræksla loftskeytasambands vitanlega er mörgum sinnum dýrari. Það er alveg augljóst, að það er ódýrara að leggja síma til Vestmannaeyja og hafa eina loftskeytastöð hér, heldur en að hafa tvær loftskeytastöðvar, aðra hér í Reykjavík og hina í Vestmannaeyjum, því að árleg starfræksla hverrar loftskeytastöðvar kostar mikið fé, sem ekki kemur til greina á símastöðvum. Ennfremur þarf miklu að kosta til viðhalds á loftskeytastöðvum. Eins og allir vita þarf annaðhvort háar stengur, styrktar með fjölda þráða, eða járn »konstruktionir«, sem illa þola hvassa storma. Felli stormurinn eða setji úr lagi umbúnaðinn, sem mjög er hætt við þar, sem stormasamt er, eins og í Vestmannaeyjum, geta öll tækin eyðilagst, og annaðhvort þyrfti að hafa hér svo haga smiði, að þeir gætu gert við það sem aflagaðist, eða þá að senda það sem úr lagi færi til útlanda til viðgerðar, og mundi það ekki valda minni töfum en viðgerð á símslitum, heldur þvert á móti. Eins yrði reksturskostnaðurinn mjög mikill; það þarf lærða »telegrafista« til að taka á móti og senda þráðlausu skeytin, því að ólærðir menn geta ekki annast slíkt, enda er mjög hætt við, að bókstafamerkin aflagist í vissum loftbrigðum t. d. sólskini, norðurljósum o. fl. Talsímalagning til Vestmannaeyja mundi kosta 30 þús. kr. og ein loftskeytastöð í Reykjavík c. 25 þús. Aftur á móti mundi bygging tveggja loftskeytastöðva, í Reykjavík og í Vestmannaeyjum, kosta aðeins 40 þús., ef Vestmannaeyjastöðin ein ætti að taka á móti skipaskeytum. Mismunurinn er þá 15 þús. kr. En með talsímanum kæmust Vestmannaeyjar í málsamband við allar landsímastöðvar Íslands. Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) sagði að vísu, að hægt væri að setja loftskeytastöðvar í samband við landsímann, en það hefir hann auðvitað ekki meint.

Mér virðist ennfremur, að nokkurt tillit mætti taka til, hvers fólkið í Vestmannaeyjum óskar. Almenningur þar óskar símasambands; og hvers eiga þeir að gjalda, hvers vegna mega Vestmannaeyjar ekki fá talsíma, þótt landið fái sér einhversstaðar loftskeytastöð til sambands við skip á sjó ? Hvers eiga veslings Vestmannaeyjar að gjalda? Er þetta af því, að þær hafa ekki »kosið rétt« að undanförnu? Á það hefir verið lögð mikil áherzla af andmælendum símasambandsins, að hætta sé á símaslitum. Það hefir verið tilfært, að sími einn í Færeyjum, milli eyja þar, hafi slitnað 13 sinnum á einu ári. Eg vil ekki beint vefengja, að þetta sé satt, en það sannar ekkert um það, hvernig sími mundi reynast milli Íslands og Eyja. Milli Bíldudals og Ísafjarðar eru 4 símar, milli Ísafjarðar og Arngerðareyrar 6; á þeirri leið eru altíð mikil brim og hefir þó aldrei orðið neinn skaði á símunum nú í 4 ár. Og milli Íslands og Vestmannaeyja hagar alt öðru vísi til en í straumum milli Færeyja. Hér eru engin harðstreymi, heldur sandur við landið, sem síminn mundi sökkva í og á þann hátt verndast fyrir allri hættu, svo að jafnvel ekki brimið við Landeyjasand, sem þm. Barð.

(B. J.) hélt mundi eyðileggja »hljóðið« í honum, gæti grandað honum að öðru leyti. Ekki þarf heldur að óttast »trollarana«, því að vel má leggja símann út frá eyjunum á svæði, þar sem aldrei er »trollað« vegna hrauns í botni og svo mikið dýpi, að síminn liggur þar ósnortinn af allri ölduhreyfing. En um símaslitin í Færeyjum er það að segja, að þar eru straumar harðir, klettasnasir í botni og bráðdýpi á milli, og hefir síminn líklega sagast sundur á klappasnösunum. Ekkert slíkt þarf að óttast milli lands og eyja. Og ef símaslit yrðu, mætti vel nota innlend skip, botnvörpunga eða jafnvel stóra mótorbáta til að gera við símann, og þyrfti viðgerð því hvorki að taka langan tíma, né kosta mikið.

Eg vona, að enginn í deildinni láti gamalt flokkskapp um þráð eða þráðleysi ráða atkvæði sínu í þessu máli. Eg vil ekki ætla þm. Barð. (B. J.) þá flónsku, að hann vilji hefna þess á Vestmannaeyjum, að hann varð undir í »Símamálinu« um árið. Hér er fremur um einskonar »monomani« að ræða. Hann hefir í þessu máli farið á bak við löglegan ráðunaut sinn, landssímastjórann, og virt að vettugi tillögur hans, en látið landið kosta fyrir sig ferð til Brüssel, til þess að semja um þetta eftir eigin geðþótta. Þetta þráðlausa samband er orðið að grillu hjá honum. En hvers vegna þá ekki að taka beztu þráðlausu aðferðina, Paulsens aðferðina, sem hefir stóra yfirburði yfir Marconiaðferðina? Er það af því Paulsen er danskur? Eða hefir háttv. þm Barð. (B. J.) enn einu sinni nelgt sig á Marconifélaginu, þegar hann fór til Brüssel og þaðan til Waterloo?