15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Þorleifur Jónsson:

Eg á brtill. á þgskj. 198, sem eg vil fara nokkrum orðum um. Hún er ekki upp á mörg þúsund, hér er aðeins um litla fjárupphæð að ræða og vona eg því, að hún mæti ekki mikilli mótspyrnu. Kjósendur í Lóni hafa farið fram á, að styrkur væri veittur til vélarbátsferða milli Papaóss og Hornafjarðar. Eg hafði skrifað fjárlaganefndinni um málið, og mér heyrðist á framsm., að nefndin væri ekki mótfallin fjárveitingunni í sjálfu sér, en hann bjóst við að stjórnin hefði ef til vill einhvern afgang frá síðustu fjárlögum, sem hún gæti miðlað af. En af því að eg veit ekki hvort svo er, eða hvort nokkuð fæst hjá stjórninni til slíkra ferða í sumar, þá hefi eg álitið rétt að bera málið fram í þessu formi. En hefi nú samt fært fjárbeiðnina talsvert niður úr því, sem kjósendur óskuðu eða kröfðust, til þess að geta gert mér einhverja von um árangur. Ástæðan til þess að beðið er um þetta er sú, að viðkoma suðurlandsbátsins á Papós verður ekki að neinum verulegum notum. Skip eins og Perwie, mun ekki geta komist inn á Papós, dýpi er þar ekki nóg til þess. Skipið verður því að liggja fyrir utan ósinn og veldur það miklum óþægindum, svo var í fyrra sumar og svo verður það víst framvegis. Það gekk mjög illa að hafa samband við skipið þar úti á rúmsjó, og vörur, sem var verið að brjótast eftir í skipið, hröktust og skemdust, auk þess, sem slík uppskipun var mjög kostnaðarsöm, og eru slíkar samgöngur, sem þeir hafa við að búa þar, algerlega óviðunandi. Ef styrkurinn fengist, er meiningin að mótorbátur flytti vörur til Papós af Hornafirði og svo þaðan aftur í veg fyrir strandferðabátinn. Papós er góð höfn fyrir mótorbáta, þó að hún fullnægi ekki stórum skipum. Mundi verða stór samgöngubót að þessu, flutningar úr sveitinni og í verða léttari og hægari, og mundi því þessu fé vera vel varið. Víðast annars staðar hafa samgöngur batnað á hinum síðustu árum, en í Lóni hafa þær versnað. Verzlun sýslunnar var þar til 1897, en þá var hún flutt til Hornafjarðar. Síðan hafa menn þar orðið að sækja nauðsynjar sínar, annaðhvort yfir Almannaskarð til Hornafjarðar, eða yfir Lónsheiði til Djúpavogs, en það er allmiklum erfiðleikum bundið og er því ekki ófyrirsynju farið fram á þennan litla styrk. Eg hefi heyrt út undan mér, að ástæðulaust sé að sinna þessari styrkbeiðni, því að síðasta þingi hafi farist svo vel við Austur-Skaftafellssýslu, þá hafi verið veittar 20 þús. kr. til gufuskipaferða, aðallega vegna Austur-Skaftafellssýslu. En sannleikurinn er sá, að Suðurlandsbáturinn er engu síður fyrir Árnessýslu, Vestur-Skaftafellssýslu og syðri part Suður-Múlasýslu, en fyrir mitt kjördæmi, svo engri átt nær að eigna mínu sýslufélagi styrk þann allan, er til bátsins gengur. Eg vil því vona, að hin háttv. deild taki þessari málaleitun vel, og mun eg svo ekki fjölyrða meir um þetta.

Því næst vil eg leyfa mér að minnast á annað mál, hraðskeytasambandið við Vestmannaeyjar. Margir hafa mælt með loftskeytasambandi og verð eg að taka í sama streng. Jafnvel þeir, sem ákafast andmæla loftskeytasambandi, játa þó að vér þurfum að koma sem fyrst upp loftskeytastöð, og virðist þá sjálfsagt að setja hana niður í Vestmannaeyjum, sem sjálfar þarfnast sambands. Eg efast ekki um, að slíkt samband mundi koma að góðum notum. Vel getur verið, að nokkuð langur tími líði, áður en hægt verður að tala gegnum loftið, og andmælendur loftskeytanna finna þeim það óspart til foráttu, að eigi er hægt að hafa talsamband enn sem komið er. — Því skal nú ekki neitað, að það er mjög hentugt að hafa talsímasamband, en þó getur oft verið örðugt að ná talsímasambandi á löngu svæði, þannig hefir mér t. d. reynst árangurslaust að reyna að ná sambandi við Austfirði héðan úr Reykjavík. Einstöku sinnum mun það geta tekist, en oftast er það ekki hægt.

Það vakir ennfremur fyrir mér í þessu máli, að ef loftskeytastöð er komið á fót, þá geti öll hin símalausa strandlengja komist í loftskeytasamband, með tiltölulega litlum kostnaði. Eg skal játa, að það er meðfram þess vegna, að eg vil heldur styðja að því, að Vestmannaeyjar komist í loftskeytasamband en ritsímasamband, því að eg tel hæpið, að loftskeytastöð verði annars reist hér í bráð. Og líklega verður þess langt að bíða, að þessi strandlengja komist í símasamband. Eg tel það mjög hæpið, að fyrst um sinn verði hægt að bæta við nýjum símum, þar sem árlega verður að ausa út fé til að endurbæta gömlu símalínuna. Nú er t d. farið fram á á þessum fjáraukalögum, að verja 28 þús. kr. til þess að bæta sambandið milli Reykjavíkur og Akureyrar. En ef loftskeytastöð væri sett á stofn, þá væri fært að koma Skaftafellssýslum í þráðlaust samband með miklu minna kostnaði en þessu nemur. Eg hefi leitað upplýsinga hjá Vilhjálmi Finsen loftskeytafræðing um, hvað þetta mundi kosta. Hann hefir áætlað 5 stöðvar, en eg hygg að 4 væru nógar, og til að byrja með, væri jafnvel mikil bót að 2 stöðvum, annari í Vík og hinni í Hornafirði. Hann segir að allur kostnaður við að koma upp þessum smástöðvum verði eigi meiri en 5—7 þús. kr. fyrir hverja stöð. Reksturskostnað telur hann lítinn. Hann (V. Finsen) sagði, að reksturskostnaðurinn við þessar loftskeytastöðvar væri ekki meiri en við talsímastöðvarnar, og að ekki tæki meira en 2 mánuði að læra að senda og taka á móti loftskeytum. Ef nú að hægt er að koma Skaftafellssýslum á næstu árum í hraðskeytasamband fyrir að eins 12—14 þús. kr., tel eg þetta svo afarmiklar framfarir, að þær eru næstum ómetandi. Eg er hræddur um, að of langt yrði að bíða eftir því, að hægt yrði að veita fé til símalagningar á þessum svæðum. Þess vegna er rétt að koma á loftskeytasambandi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja, meðfram með tilliti til hinna símalausu héraða sunnanlands, sem ættu um leið að geta notið góðs af því, að svo ódýrt hraðskeytasamband kæmist á.