15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Jón Ólafsson:

Það eru nokkrir liðir í þessu frumvarpi, sem eg ætlaði að tala um, og skal eg þá byrja á því, er flestir eru orðnir leiðir á, en það eru loftskeytastöðvarnar. Það eru nokkuð skrítnar upplýsingar, sem háttv. þm. A.- Sk. (Þ. J.) gaf um þær. Hann sagði að reksturskostnaðurinn við loftskeytastöð væri ekki meiri en meðal-reksturskostnaður við talsímastöð í sveit. Reksturskostnaður við talsímastöðvar í sveit er víðast 20—50 kr. Eg efa að hann nemi 50 kr. að meðaltali. En hvað kosta 2 loftskeytamenn? Eg veit að þeir eru talsvert dýrir. Eg efa að þeir gætu lært á 2 mánuðum, því að það þarf mikla nákvæmni við þessi loftskeyti þar eð þau eru tekin með heyrninni einni. En það geta aðeins þaulæfðir menn gert. Við talsímastöð getur hver óvanur starfað, en við lofskeytastöð þarf 2 lærða menn. En eins og háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) benti á, kemur áætlunin um loftskeytastöð í Vestmannaeyjum ekkert við Skaftafellssýslunum. Eg skal í sambandi við þetta minnast á símasamband við Skaftafellssýslur þar eð háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) talaði svo mikið um að koma þeim í samband við landsímann. Það er ekkert annað en að veita fé til símalínu um Skaftafellssýslur. Eg hefi séð áætlun þá, er landsímastjórinn hefir gert yfir símalagningu á þessum svæðum. Samkvæmt henni mundu allar Skaftafellssýslurnar að undanteknum Öræfunum. komast í símasamband innan skams við landsímann. Landssjóði væri alveg óhætt að leggja út í þetta fyrirtæki, því að það mundi borga sig. Það hefir verið talað um að koma á loftskeytasambandi til Vestmannaeyjar vegna þess að skip mundu nota það mikið og að slíkt yrði stór tekjugrein. En það er óþarft að setja loftskeytastöð í Vestmannaeyjum vegna skipa. Háttv. þm. Dal. (B. J.) talaði um, að Englendingar ætluðu að koma á loftskeytasambandi milli Englands og Kanada og að þeir ætluðu að setja loftskeytastöð hér. Eg veit ekki betur en að samninga muni vera farið að leita við Danastjórn um það mál og mun þá og koma til vorra kasta um samþykki. En verði svo, þá fáum við einnig samband og auk þess tekjur af því, hið svokallaða transitgjald. Englendingar vilja eiga skeytatæki, sem hægt er að nota á ófriðartímum, því að sæsímann má höggva í sundur. Þannig fáum við allan þann hagnað, er loftskeyti hafa í för með sér oss að kostnaðarlausu og tekjur af að auki. Og ef svo er, því skyldum vér þá fara að eyða fé úr landssj.?

Nefndin fer fram á, að landsstjórnin skuli ráða sambandinu til Vestmannaeyja. En eg verð að skilja nefndina, svo sem hún álíti að landsstjórninni sé ekki trúandi til þess og þessvegna eigi þingið að ákveða, að það skuli vera loftskeytasamband. En hefir þingið vit á þessu? Hefir það nokkur tök á og gögn til að dæma skynsamlega um þetta? Við getum ekki á svo stuttum tíma aflað okkur nægilegrar þekkingar. Háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir leitað ráða hjá öðrum. Hér er ekki að ræða um hvort vera skuli loftskeytasamband eða símasamband, heldur aðeins hvort réttara sé að alþingi eða landsstjórnin skeri úr um valið. Tel eg það miklu betra en að við förum að útkljá það á svona stuttum tíma — sem hlýtur að verða í blindni gert.

Eg skal þá snúa mér að 7. gr. frv. sem er viðbót við 16. gr. fjárlaganna. Í 7. gr. er farið fram á fjárveitingu til ferðakostnaðar síldarmatsmanns. Þetta er að eins nokkur hluti af fjárveitingu til síldarmatsmannsins, því að hún er einnig á fjáraukalögunum fyrir 1908 og 1909. Þessi síldarmatsmaður hefir þannig fengið samtals kr. 1536,25 til utanfarar. Af þeim kr. 800.00 er síðasta þing veitti til tveggja síldarmatsmanna hefir hann fengið kr. 600,00, en síldarmatsmaðurinn á Siglufirði að eins kr. 200,00. Eg vildi minnast á þetta nú af því, að eg spurði oft í sumar í einu blaðinu hér, hvort það væri satt, sem hefði heyrst, að stjórnin hefði veitt þessum síldarmatsmanni um 1500 kr. Mér var ekki svarað öðruvísi en þannig, að Ísafold sagði að þetta væri ein af þessum venjulegu heimastjórnarlygum. En nú er sannleikurinn er kominn í ljós. Fráfarandi stjórn hefir nú orðið að játa þetta og biður nú um fjárveitingu á því. Skal eg ekki leggja á móti því, meðan eg heyri ekki ástæðuna fyrir fjárveitingunni. Eg hefi heyrt, að ástæðan væri sú, að heyrst hafi að hægt væri að selja síld í Ameríku. Einn stórauðugur norskur kaupmaður, sem eg þekki vel, í Chicago, er vanur að kaupa mikla síld árlega frá Stavanger. Það hefði verið nægilegt að fara til Stavanger til þess að kynna sér þar, hvernig síldin þar er útbúin. Í hinu er lítill fróðleikur, að sjá, hvernig tunnurnar eru slegnar upp í Chicago. Það er undirbúningur síldarinnar og frágangur áður en hún er send á stað, sem síldarmatsmaður þurfti að kynna sér, og til þess var staðurinn einmitt í Stafángri, og hvergi annarsstaðar. Eg býst við að háttv. fyrverandi ráðherra skýri frá því, hvort það hafi verið nauðsynlegt að senda mann til Chicago, til þess að sjá hvernig frá síld er gengið í Stafángri.

Þá kem eg að breyttill. háttv. þm. Dal. (B. J.) á þgskj. 178. Eg felst algerlega á tilöguna. Skal eg taka það fram, að þótt frv. um breyting á þingtímanum hafi verið felt, er það engin ástæða til þess að fella í burtu fjárveitinguna til háskólans. Auk þess er hér í þinghúsinu nægilegt húsrúm til háskólahalds, þótt þingið sé saman. Eg minnist þess, að 1889 átti meiri hlutinn á þingi oft fundi með sér uppi á hæsta lofti, og sátu þingmenn þar á borðabunkum.

Í breytingartillögunum á þgskj. 197 og 229 er farið fram á, að 2 prestsekkjum séu veitt laun úr landssjóði auk þeirra sem þær hafa að lögum. Enda þótt eg telji það ekki óþarft verk að bæta laun prestsekkna, sé eg þó enga ástæðu til þess að gera þessum 2 prestsekkjum hærra undir höfði en öllum öðrum ekkjum. Það er ranglátt að gera upp á milli þeirra. Ef breytingartillögumar verða samþyktar, áskil eg mér rétt til þess að koma með samskonar tillögur um allar aðrar prestaekkjur á landinu.

Eg ætlaði ennfremur að minnast á tillöguna á þgskj. 198 frá háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) Þetta er svo lítil fjárupphæð og auk þess tel eg það skylt að styðja fjárveiting þessa, ef rétt er frá atkvæðum skýrt, þar sem sýslan fer á mis við góðar samgöngur á sjó.

Eg skal að lokum minnast á breyt.till á þgskj. 199 frá háttv. þm. Snæf. (S. G.) Tillagan fer fram á 3000 þús. kr. til brúargerða á Bakká og Síki. Eg hefi séð Bakká, það er örlítil spræna. Tel eg fjárveitingu þessa með öllu óþarfa að minsta kosti ekki svo þarfa, að hún megi ekki bíða næstu fjárlaga. Þetta er nú það helzta, sem eg ætlaði að minnast á.