15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Jón Þorkelsson:

Það er að eins lítil breyt.till, eða réttara sagt viðaukatill., við viðaukatill. á þgskj. 197, þar sem farið er fram á, að ekkju einni sé veitt dálítil fjárupphæð. Það hefir altaf verið vani að taka slíku vel, sérstaklega hefir það verið venja, að ekkjur þingmanna hafi verið látnar njóta dálítils fjárstyrks, ef um það hefir verið sótt; má t. d. nefna ekkju síra Þorkels heitins á Reynivöllum. Hér er nú farið fram á styrk til ekkju síra Einars Þórðarsonar frá Hofteigi, en í viðaukatill. minni er farið fram á litla fjárupphæð til ekkju Hjörleifs prófasts Einarssonar. Hann andaðist, eins og menn vita, í hárri elli í haust og hafði verið klerkur í hálfa öld. Kennimaður var hann með afbrigðum, svo sem kunnugt er og jafnframt var hann hinn mesti bóndi og jafnan sannur þjóðfélagsstuðningur að honum. Eljumaður var hann einstakur, en fé sínu varði hann mest til að menta börn sín. Kona þessi er seinni kona hans. Hún hefir fyrir tveim börnum að sjá og á þar að auki að sjá fyrir börnum stjúpsonar síns, sem er látinn fyrir nokkru. Hér er aðeins farið fram á 100 kr. hvert ár. Fyrverandi stjórn hefir áætlað henni á fjárlögunum 300 kr. eftirlaun. Mér finst svo mikið mæla með þessari fjárveitingu, að eg er sannfærður um að málaleitan þessari verður vel tekið, þar sem ekkjan á auk þess við lítil efni að búa.

Eg skal lítið fara út í aðrar tillögur. Flestar liggja þær mér í léttu rúmi.

Háskólatillögu háttv. þm. Dal. (B. J.) er eg að vísu hlyntur, en hefði þó kosið, að hún hefði legið niðri til 3. umr. svo að mér hefði gefist kostur á að bera mig saman við hann um efni hennar og orðalag.

Að því er til loftskeytanna kemur, þá er eg hlyntur því máli, meðal annars vegna þess, að það virðist í heild sinni verða ódýrara, og það er sýnilega rétt, sem háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), tók svo skýrt fram, að símasamband með suðurströnd Íslands er lítt hugsanlegt.

Menn hafa talað um styrkinn til Jóns Bergsveinssonar. Hann var sjálfsagður og mun Jón sjálfur gera grein fyrir, hvernig hann hefir varið því fé í grein sem kemur í Andvara bráðlega.

Eg sé, að fjárlaganefndin vill nema burtu styrkinn til Sveinbjarnar Sveinbjörnssonar. Sjálfur get eg lítt um það dæmt, hversu rétt það er, því að eg er maður úsöngvinn, en eftir upplýsingum sem eg hefi fengið frá háttv. þm. Barð. (B. J.) álít eg misráðið að fella þann styrk burtu, ekki sízt, þegar eg ber það saman við sem veita á til manns frá bókmentafélaginu til að ferðast til Kristjaníu á einhvern fund, sem auðvitað yrði ekki annað en skemtiferð. Það horfði þó til einhvers gagns, að Sveinbjörn fengi féð til söngbókarinnar, en nytsemin af hinu er mér ekki jafn auðsæ. Mér er og kunnugt um það, að ýms félög hér hafa nú nýlega fengið boð til að mæta á fundum ýmsra útlendra vísindafélaga, en þau hafa aldrei hlaupið til þingsins til þess að fá styrk til að frísproka sig þar. Það væri nær að styrkja menn til rannsóknarferða, sem gætu orðið landi og lýð að gagni. Þó að svona ferðir sé annars meinlausar, og þessi ferð er ósköp meinlaus, en peningunum er hent út til einskis.