15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Bjarni Jónsson:

Eg skal leyfa mér að gera grein fyrir því, hversvegna eg er frekara með loftskeytastöð í Vestmannaeyjum og smástöðvum austur um sýslur, heldur en loftskeytastöð í Reykjavík og símasambandi til Vestmannaeyja. — Það var rétt er háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði að hafa mætti loftskeytastöð í Reykjavík með smástöðvum austur um sýslur. Þetta fyrirkomulag mætti hafa. En það verður miklu dýrara og skal eg sýna fram á, að þetta er rétt með því að sundurliða dýrleikann, og verður það þannig: Loftskeytasamband milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja kostar 40000 kr.; 5 stöðvar austur um sýslur á 7000 kr. hver — samtals 35000 kr. Alls sambandið Reykjavík til Vestmannaeyjar ásamt 5 stöðvum 75000 kr.

Loftskeytastöð í Reykjavík er áætluð að minsta kosti 25000 kr.; 5 stöðvar austur um sýslur á 20000 kr. hver; verða þá sökum fjarlægðarinnar að vera þeim mun sterkari sem verðhækkuninni nemur; samtals 100 þús. kr. þá verður: Reykjavík, 5 stöðvar í Skaftafellssýslum 25 þús. kr. + 100 þús. kr., samtals 125 þús. kr. — Þar við bætist símasamband milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja, sem áætlað er 42200 kr. Samtals 125,000 + 42,200 kr. = 167,200 kr. Loftskeytasamband milli Rvíkur og Vestmannaeyja, ásamt 5 stöðvum austur um sýslur, verður þannig 92,200 krónum ódýrara heldur en loftskeytastöð í Reykjavík ásamt 5 stöðvum austur um sýslur og sæsímasambandi við Vestmannaeyjar.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) sagði ýmislegt um þessa hluti, þar á meðal að 2 mánaða námstími mundi ekki nægja þeim, er ætluðu að læra að síma með loftskeytaaðferð. Til sönnunar því, að tveggja mánaða námstími sé nægur, skal eg geta þess, að síðast þegar eg var á ferð í Hamborg, hitti eg þar hr. Vilhjálm Finsen, er var þar að kenna loftskeytaaðferð mönnum, sem áttu síðan að verða skeytamenn á skipum, er ganga á milli Norðurálfu og Vesturálfu og kvaðst hann kenna þeim í tvo mánuði, og eftir þann tíma tækju þeir við störfum; hygg eg þó, að Þjóðverjar og Englendingar séu svo kröfuharðir í þessum efnum, að við getum með fullri sæmd látið okkur nægja sama lærdóm í þessari grein og þeir gera.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) lagði áherzlu á það, að Englandsstjórn mundi bráðlega koma á loftskeytasambandi á milli Englands og Kanada. Mundi þá ekki verða annars kostur fyrir þá en hafa millistöðvar hér á landi og vér þannig fá loftskeytasamband fyrir ekki neitt, þess vegna ættum við ekki að vera að hugsa um að fá loftskeytastöðvar nú. Eg mun samt ekki láta þetta snjallræði þm. ginna mig til að vera á móti þessu máli nú, eða vill hinn háttv. þm. benda mér á það, hver mundi borga þau mannslíf, sem þessi leið kynni að hafa í för með sér, því að það er öllum kunnugt, að mikil hætta er að sigla um sjóinn og að mjög oft tekst að bjarga lífi manna þeirra, sem í háska eru staddir á sjó úti með aðstoð loftskeytanna. Hins vegar getur það engin áhrif haft á það, að Englendingar byggi hér stöðvar, þótt við nú byggjum þessar stöðvar, enda mundum við þá ef við vildum geta selt þeim þessar stöðvar, eða gert svo hagfelda samninga við þá um notkun á vorum stöðvum, að vér værum vel í haldnir.

Eg skal svo ekki þrátta frekara um þetta, enda er það þýðingarlaust, vona að háttv. ræðumenn muni allir greiða atkvæði með till., en ekki á móti, því eg er sannfærður um, að þetta er gott mál, og eg þar af leiðandi get því eigi sveigt mig eða beygt í þessu máli.