27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Þorleifur Jónsson:

Eg hefi leyft mér að koma fram með breyttill. á þgskj. 781 um, að loftskeytastöðvar verði settar í Skaftafellssýslum, því að eg álít rétt, að þessar sýslur fái loftskeytasamband um leið og slíkt samband er sett á milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Það er í samráði við háttv. þm. V -Sk. að lagt er til að sett sé loftskeytastöð á Seljalandi eða í grend. Sjálfur er eg ekki svo kunnugur á þessum slóðum, að eg geti sagt með vissu um, hvar þessi Eyjafjallastöð væri bezt sett, en býst við, að þetta sé ekki fjarri sanni, þar sem þaulkunnugur maður hefir verið í ráðum um þetta. Þá hefi eg farið fram á það í breyt.till. minni, að 1 stöð verði sett í Vík í Mýrdal og ein í Hornafirði, og eru þeir staðir sjálfsagðir til slíkra stöðva. Eg þykist ekki þurfa að fjölyrða mikið um kostnaðinn við þetta. Hann verður að sögn kunnugs manns, er skyn bera á þetta mál, um 20 þús. kr. Sagði hann, að hver stöð kostaði um 6—7 þús. kr. Og er full ástæða til að byggja á þessari áætlun hans. Eg hefi að eins farið fram á að Skaftafellssýslur fái 2 stöðvar, aðra í Vík en hina í Hornafirði. Eg hefi ekki farið fram á meira. Þetta væri mikil bót í bráð, en síðar ætti að bæta við fleiri stöðvum, t. d. 1 í Öræfum og 1 á Síðunni. En við Skaftfellingar verðum að gera oss ánægða með þetta til þess að byrja með.

Það er ákaflega bagalegt, að Skaftafellssýslurnar geti eigi sem fyrst komist í hraðskeytasamband. En ef svona samband kæmist á, myndu menn fljótt finna muninn. Auk annars væri ekki lítill hægðarauki fyrir A.-Skaftfellinga að geta komist í samband beinleiðis við sýslumann sinn, sem nú situr í Vík. Það sjá allir, að ef að annars á að setja loftskeytasamband milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, að þá er lang kostnaðarminst að koma Skaftafellssýslunum í slíkt samband um leið. Með því móti eru öll héruð landsins komin í hraðskeytasamband með tiltölulega litlum kostnaði, og vænti eg því, að breyt till. minni verði tekið vel. Hún gerir þetta loftskeytamál í raun og veru miklu aðgengilegra.

Það getur nú verið, að þetta samband þyki ekki sem fullkomnast, þar sem ekki er hægt enn sem komið er að nota loftskeytin til viðtals. En eg held að þau héruð, sem ella myndi verða að fara á mis við símann máske fleiri áratugi, muni mjög hrósa happi að geta átt kost á loftskeytasambandi nú strax, heldur en að bíða von úr viti eftir síma. Og svo framarlega sem þingið ætlar sér að koma á loftskeytum, þá ætti að taka Skaftafellssýslurnar með í það samband.

Ekki var það meining mín með þessari tillögu, að fara neitt að glæða það deiluefni, sem hér hefir verið um loftskeyti og ritsíma, heldur hitt, að sem bezt og víðtækust not gæti orðið af loftskeytunum, ef þau komast í gegn hvort sem er. Reyndar er sagt, að

Vestur-Skaftfellingar séu heldur mótfallnir loftskeytum, en þó hefir þingmaður þeirra verið í samráði við mig um þessa tillögu, og býst eg því við, að ekki sé öllum óljúft þar að komast í hraðskeytasamband sem fyrst. Og eg hygg, að Austur-Skaftfellingar myndu mjög hrósa happi, ef þeir mættu nú í sumar eiga kost á að komast í hraðskeytasamband, þótt ekki sé nema um loftskeyti að ræða.