27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Skúli Thoroddsen:

Mig furðaði á því, hve mikið háttv. þm. Vestm. (J.M.) vildi gera úr þessum undirskriftum, sem borist hafa frá Vestmanneyingum, þegar á það er litið, hvaða þekkingu þeir munu yfirleitt hafa á loftskeytum. En auk þess verður að líta á það, að það eru ekki Vestmanneyingar einir, sem not eiga að hafa af þessu sambandi, heldur einnig þeir, sem ætla að komast í samband við Vestmannaeyjar. Þeir eiga því alveg eins mikla heimtingu á að ráða málinu, það er enginn vafi á því. Það er svo margsannað með skýrum tölum, að loftskeytasambandið verður miklum mun ódýrara en símasamband. Annars er það kynlegt, að það er búið að gera loftskeytin að einhverri grýlu, og situr það illa á okkur, þar sem fyrsta sambandið, sem við höfðum við umheiminn var einmitt loftskeytasamband. Einnig vitum við það, að loftskeytastöðvum um allan heim fer altaf fjölgandi og virðist það ekki bera vott um, að aðrar þjóðir hafi sömu vantrú á þessu sambandi og háttv. heimastjórnarflokkur. Líka er það mikilsvert atriði, hver stuðningur það væri fyrir skip að hafa loftskeytastöð í Vestmannaeyjum, og þá mundu þau ná fyr sambandi við land, en ef stöðin væri í Reykjavík. Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) benti á það, að fjárhagur landsins væri nú svo bágborinn, að það sæti illa á okkur að vera að kasta þessum peningum út. Getur verið að svo sé eins og stendur, en eftir tillögu frá peningamálanefndinni, þá má taka 200 þús. kr. lán, ef okkur ber upp á sker og mun okkur þá full-borgið.

Þá vil eg minnast lítið eitt á háskólamálið. Eg var einn af þeim þm., sem greiddi tillögu háttv. þm. Dal. (B. J.) atkvæði við fyrri umræðu, en eftir nánari íhugun gat eg ekki neitað því, að hér vantar bæði hús og kenslukrafta, svo að óráðlegt muni að leggja út í þetta að svo stöddu. Mun eg því ekki greiða málinu atkvæði á þessu þingi. Að þeir kennarar, sem nú eru við skólana taki sprett og verði færari þó þeir séu nefndir prófessorar, það get eg ekki skilið. Það er eftirtektarvert, að þeir menn, sem hafa mestan hag af þessu, hafa fylgt því fastast fram. Formaður lagaskólans kom víst fyrstur fram með það á þessu þingi. Að fara að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar á þann veg að hækka laun embættismanna í hans minningu, býst eg ekki við, að honum mundi svo ljúft. Það er að mínu áliti betra að bíða með þessa stofnun til næsta þings, því að heiðra má minningu Jóns Sigurðssonar full sómasamlega á margan annan veg, en þennan.