27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Jón Jónsson (1. þm. N.-Múl.) Eg vildi leyfa mér að segja nokkur orð um háskólann. Það hefir víst þótt kynlegt, að ýmsir þeirra háttv. þm., sem greiddu atkvæði með fjárveitingu til háskólans á fjáraukalögum, skyldu greiða atkvæði á móti henni á fjárlögunum. En eg skal skýra frá því, hver var ástæðan. Eins og menn vita, hefir mál þetta verið rætt af kappi hér í bænum, og var það álit ýmsra, að hægt væri að nota þinghúsið fyrir háskólahús, þótt um þingtímann væri. En er þetta kom til umræðu og atkvæða í fjárlögunum, hafði eg sannfærst um, að háskóla er ekki hægt að hafa í þinghúsinu um þingtímann. Auk þess var ekki hugsað um að tryggja rétt þeirra, sem leystu af hendi próf við háskólann. Þeir þurfa að fá sama rétt og þeir sem leysa af hendi próf við Kaupmannahafnarháskóla. Nú hefir þessu verið kipt í lag að ýmsu leyti. Háttv. Ed. hefir samþ. tillögu um flutning á þingtímanum, svo að hægt verður að nota þinghúsið til háskólahalds, og býst eg við að þessi tillaga nái fram að ganga. Hér er því aðalmótbáran á móti háskólanum fallin burtu. Eg hefði þó vel getað fallist á að skjóta þessu máli á frest vegna kostnaðarins um næsta fjárhagstímabil. En af því að eg hefi heyrt á sumum þingmönnum, að þeir vilji garnan veita fé til háskólans í fjárlögunum síðara árið, þá finst mér óviðfeldið að ganga móti málinu nú, þar sem um svo lítinn frest er að ræða. Og þar sem auðsætt er, að háskóli hér í Reykjavík mun efla stórkostlega menningu og sjálfstæði þjóðarinnar, verð eg að greiða málinu atkvæði nú af ástæðum þeim, sem eg hefi nefnt.