08.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Framsögum. Steingr. Jónsson:

Nú við þessa síðustu umræðu um fjárlögin hér í deildinni vildi eg fara örfáum orðum um, hver áhrif háttvirt neðri deild hefir haft á fjárlögin, síðan þau fóru frá okkur.

Í 20. gr. stendur að tekjuhallinn sé áætlaður kr. 389,767,34, en þetta er skakt. Tekjuhallinn er 419,767,34, eða 30 þús. kr. meiri en þarna stendur. Við eina umræðu í neðri deild komust að hækkunarbreytingartillögur, sem námu netto 106,150,00 krónum. Mest var hækkunin til hraðskeytasambands og í sambandi við það, 71 þúsund. Þá hækkun til vita um 14 þúsund. Lækkanir hafa aftur orðið á 15. og 16. grein á svo kölluðum bitlingum. Breytingartillögur nefndarinnar á þingskjölum 951 og 957 fara fram á nokkra lækkun eða rúmar 42600 krónur, og verður tekjuhallinn, ef tillögur hennar verða samþyktar, nálægt 380 þús. krónur.

Deildarmenn geta sagt sér það sjálfir, að það er forsvaranlega mikið.

Þá vil eg með nokkrum orðum geta hinna helztu breytinga, og er þá fyrst að geta þess, að nefndin sér ekki ástæðu til að bæta nú 4. lækninum við í hið gamla Ísafjarðarhérað.

Aukalækninum á Ísafirði er ekki vorkun að sitja í Bolungarvík, þegar hann fær 1400 króna laun, eða nær því fullkomin héraðslæknis laun.

4. breytingartillagan er um athugasemdina við 13. gr. A 2. Þar hefir neðri deild sett inn ákvæði um að Thorefélagið skuli fá 6000 kr. fyrir að flytja póst. Þetta getur meiri hluti nefndarinnar ekki séð að sé rétt og hefir hún nú hinar sömu ástæður og þegar frumvarpið var hér áður til meðferðar í deildinni.

Þá er Borgarfjarðarbrautin. Hún verður komin langt á leið, ef þetta fé er veitt, sem nefndin leggur til. Ef að eins eru veittar 10 þúsund krónur, kemst brautin að Þverá, en ekki yfir hana, og verður þá stórkafli gagnslaus, þar sem endað er við torfæru. Aftur vill nefndin ekki etja kappi við neðri deild um Skagafjarðarbrautina og lofar henni að standa.

Þá koma tveir gamlir gestir, sem feldir hafa verið hér í deildinni, en það er B III 2 til viðgerðar og framhalds á þjóðveginum úr Hrútafjarðarbotni í Gilsfjarðarbotn og B III 9 til þjóðvegarins í Austur-Skaftafellssýslu. Eg veit ekki, því ætti að taka þessa þjóðvegi fram yfir aðra þjóðvegi á landinu, og virðist mér það gersamlega ranglátt. Nefndin leggur til að þessir tveir liðir séu feldir burt.

Þá er 13. B IX, framlagið til Hvammstangavegarins. Við höfðum sett þar 1000 krónur, gegn jafnmiklu annarstaðar frá, en neðri deild hefir fært það upp í 2000 krónur, og felt burtu skilyrðið. Hér má ekki ganga inn á þá braut nú, að fara að kosta sýsluvegi að öllu leyti úr landsjóði, og leggur nefndin til að skilyrðum um jafnmikið fé annarstaðar frá sé bætt inn í.

Þá er 13 B. XI Keflavíkurvegurinn. Af honum er ekki eftir að leggja nema 14 kílometra, og óeytt er enn af fé til hans 15 þúsundum. Ef hér við er bætt öðrum 15 þúsundum, er með því héraðsbúum gefið undir fótinn að vegurinn megi vera talsvert dýr, en sérstakt tillit verður einnig að taka til þess, að vegur þessi stendur ekki beinlínis undir landstjórninni, heldur yfirfer að eins landsverkfræðingurinn vegareikninginn. Það er víst um það, að vegurinn er góður og gagnlegur, hann er nú kominn suður undir Voga-stapa og talið miklu greiðara að leggja það sem eftir er af honum, svo það er nokkuð mikið í lagt að ætla meira en 3 þúsund krónur á röstina í 5 álna breiðum vegi.

Þá er 13. gr. C I. Meiri hluti nefndarinnar gerði nákvæmlega grein fyrir því við 2. umr. fjárlaganna, hversvegna honum virtist óviðeigandi að fjárveiting þessi sé bundin við ákveðinn samning og nafn. Það er ekki heimild til að nota féð, ef samningurinn einhverra orsaka vegna fellur burt. Eg skil ekki, hvaða kapp er lagt á að koma með þessa vanhugsuðu tillögu. 11. og 12. breytingartillögu tekur nefndin aftur. Nefndinni virtist, þá er hún athugaði frumvarpið, að rétt væri að fella niður þessa liði. Síðan hefir það komið fram, sem gerir að nefndinni virðist að rétt sé að þetta standi í fjárlögunum. Það er auðvitað, að þetta fé verður ekki notað. En svona hefir staðið áður í fjárlögunum. Þannig stóð um nokkur ár fjárveiting 35 þúsund krónur til símasambands milli Íslands og Danmerkur, án þess að það væri notað. Í einhverjum tilgangi stóð það þó.

(Lárus H. Bjarnason: Hver er ástæðan?)

Nefndin getur ekki verið í vafa um að brotin hafi verið þingsköp við umræðu fjáraukalaganna í sameinuðu þingi á laugardaginn var. Ef þessir liðir eru feldir burt, er sama forseta gefið tækifæri til að gera hið sama.

Þá er 13. gr. E. IX, til að reisa vita á Bjargtöngum. Nefndin leggur til, að þessi liður sé feldur burt af þeim ástæðum, að þessi vitabygging er óundirbúin. Eigi að reisa vita á Vesturlandi, á að reisa hann á Öndverðarnesi og ætti það að vera stór viti.

Þá er 14. greinin. Þar hefir nefndin gert breytingartillögu við B III a, laun til gagnfræðaskólans á Akureyri. Þessi háttvirta deild hafði samþykt að auka við þau 400 krónum, sem launaviðbót til séra Jónasar Jónassonar, en það var felt í neðri deild. Nefndin veit ekki um ástæður fyrir því, að þetta var felt burt, og tekur fjárveitinguna upp aftur.

Þá er 16. breytingartillagan við 14. gr. VI a 4, að liðurinn falli burt, tekin aftur, þar sem nefndin hefir komið með aðra breytingartillögu viðvíkjandi þessum lið á þingskjali 957. Nefndinni virðist rétt að þar sem skólann á að byggja aftur, að þá fái hann svipaðan styrk og Reykjavíkur skóli, og leggur til að honum séu veittar 3000 krónur á ári gegn að minsta kosti 750 króna framlagi annarstaðar frá. Hér er ekki tekið fram, hvaðan sá styrkur kemur. Hann má vera hvaðan sem vill. Hvort hann er frá sýslunefndinni eða úr einhverju legati eða það er kenslugjöld námsmeyja, gerir ekkert til, að eins að féð fáist. Svo er skólanum ætlaðar 40 kr. styrkur fyrir hverja námsmey og er ekki búist við að þær verði fleiri en 35 alt árið.

Þá hefir nefndin lagt til orðabreytingu á lið B VI h. Henni virðist ekki rétt að kalla Flensborgarskóla gagnfræðaskóla, þar sem hann er það ekki í sama skilningi og hinir tveir, sem við höfum, gagnfræðaskólinn á Akureyri og gagnfræðadeildin við mentaskólann. Og aðra orðabreytingu leggur nefndin til við 15. gr. 5, að í stað Mentasafnið komi Landsbókasafnshúsið. Landsbókasafnið stendur letrað yfir dyrum húss þess sem um er að ræða, en til þess að ekki sé litið svo á, að fjárveitingin sé til safnsins sjálfs, er lagt til að hér komi til Landsbókasafnshússins.

Þá er 19. breytingartillaga við 16. gr. 26. lið, að í athugasemdinni um iðn- og kveldskólana komi 4/5 í stað 3/4. Vill meiri hluti nefndarinnar gera þessa breytingu og færir til sömu ástæður og áður, að skólunum muni ekki fært að afla sér meira fjár. Eg er ósamdóma háttvirtri nefnd. Eg álít að iðnskólar eigi ekki heimting á að fá styrk úr landsjóði, ef þeir geta ekki fengið ¼ á móti honum annarstaðar frá.

21. breytingartillaga fellur burt, þar sem hún var röng. Þessu hafði aldrei verið breytt í neðri deild.

En viðvíkjandi 20. breytingartillögu er það að segja, að neðri deild hefir felt burt styrkinn til Páls Jónssonar og sett í staðinn styrk til straumferju Helga Valtýssonar. Nefndin vill ekki fara fram á að fella styrkinn til Helga Valtýssonar, en vill ekki heldur láta fella styrkinn til Páls Jónssonar, þar sem hún lítur svo á, að atkvæðavél hans geti orðið til góðra nota og rétt sé að styðja hann til að fá einkaleyfi á henni. Hún leggur því til, að liður þessi verði tekinn upp aftur.

Þá kemur 22. breytingartillaga við 31. lið. Þegar fjárlögin fóru héðan úr deildinni, var veitt 12000 krónur á ári til viðskiftaráðunauta, eins og þessi upphæð stóð í fjárlögunum fyrir 1910 —1911. Svo hefir neðri deild breytt þessu, lækkað fjárveitinguna og bundið hana við nafn, handa einum manni. Nefndin lítur svo á, að núverandi ráðherra verði að hafa frjálst val um manninn í þessa stöðu og einnig ráða erindisbréfi hans, þar sem hann ber ábyrgð á störfum hans. En þar sem ekki fæst samkomulag um þetta, telur nefndin rétt að liðurinn sé feldur.

Loks er 23. breytingartillaga um að eftirlaun til séra Matthíasar Jochumssonar séu hækkuð úr 2000 kr. í 2400. Eg sé ekki ástæðu til að skera svo við neglur sér styrkinn til góðskálds þessa.

Þá er 2. breytt. á þskj. 957, um fjárveitingu til eftirlits með silfurbergsnámunni í Helgustaðafjalli, 1000 kr. hvort árið. Það eru meðlimir bankarannsóknarnefndarinnar í efri deild, sem hafa mælst til þess, að nefndin tæki upp þessa breytingartillögu. Eg geri ráð fyrir, að formaður rannsóknarnefndarinnar eða skrifari geri nánari grein fyrir tillögunni. Aðalástæðan er, að þeir telja silfurbergsnámuna svo dýrmæta þjóðareign, að það sé nauðsynlegt að hafa nánara eftirlit með því, hvernig náman er unnin, heldur en stjórnin getur haft aðstoðarlaust.

Þá kem eg að breytingartillögum einstakra þingmanna, og er þá fyrst brtill. á þskj. 952 frá þm. Strandamanna, um 800 kr. handa manni, er ráðinn sé af stjórninni til að afrita erlendis skjöl handa Landsskjalasafninu. Þessi tillaga kom fram í neðri deild, en var feld þar, og nefndin sér ekki ástæðu til að taka hana upp hér og ræður hv. deild til að fella tillöguna.

Þá er breytt. frá þm. Skagf., þskj. 953, um 6000 kr. til byggingar leikfimishúss úr steinsteypu á Hólum. Þessi fjárveiting stóð á frv., þegar það fór frá Ed. síðast, og var nefndin henni meðmælt. Það er ekki ástæða til að gera upp á milli skólanna á Hólum og Hvanneyri að þessu leyti, en hins vegar vill nefndin að gætt sé sparnaðar við bygging hússins.

Næst eru breytt. hv. þm. Vestur-Skaft. á þskj. 945. Nefndin hefir ekki tekið neina afstöðu gagnvart fyrri tillögunni. En um síðari breytt. um að setja upp loftskeytastöðvar í Rvík og Vestmannaeyjum, þarf ekki að fjölyrða. Nefndin er þeirri tillögu mótfallin. Eg vil líka benda á að eftir tillögunni kæmi þessi nýi liður á rangan stað á fjárlögunum, nfl. undir 13. gr. D III um reksturskostnað, í stað þess að liðurinn ætti að koma undir D II. En hvað sem því líður, ræður nefndin til að fella tillöguna.

Þá er tillaga frá hv. 1. kgk. þm., þskj. 956, um 500 kr. árlegan styrk til unglingaskóla Ásgríms Magnússonar í Reykjavík. Nefndin hefir ekki tekið neina ákvörðun um þessa tillögu.

Þá er breytingartillaga frá mér á þskj. 955. Aðaltillagan er að 14. liður 22. gr. frv. falli burt. Þar er gert ráð fyrir að sýslufélögunum í Barðastrandarsýslu og Vestur-Ísafjarðarsýslu sé gefinn eftir ¼ hluti af framlagi þeirra til símalagninga. Eg lýsti því yfir um daginn, að nefndin er mótfallin þessari eftirgjöf af þeirri ástæðu, að með slíku eru opnaðar dyr, sem erfitt getur orðið að loka aftur. Þar munu fleiri á eftir koma og biðja um hið sama, og gæti niðurstaðan orðið, að landssjóður yrði að gefa eftir öll tillög sýslufélaga til símalagninga. Og jafnvel er ekki víst, að þar yrði staðar numið, heldur má búast við að farið yrði að biðja um eftirgjöf á lánum viðlagasjóðs til ýmissa annara fyrirtækja, t. d. tóvinnuvéla o. fl. Það þarf ekki nema að benda á fjárlögin og umræðurnar um þau, til þess að sjá að þetta liggur nærri dyrum. En fari svo, að þessi eftirgjöf á 14. lið 12. gr. verði látin standa, þá eiga þeir sem hafa lagt meira til símalagninga líka kröfu til samskonar eftirgjafar, t. d. Suður-Þingeyjarsýsla. Hún hefir lagt til 33% kostnaðar við Húsavíkursímann, þar sem Vestur-Ísafjarðarsýsla hefir að eins lagt til 28%. Þessvegna kem eg með þessa varatillögu á þskj. 955. En helzt kýs eg að fyrri tillagan verði samþykt, nfl. að fella niður 14. liðinn, og þá mun eg taka varatillöguna aftur.