27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Hannes Hafstein:

Eg heyrði að háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) bað um orðið. Vill hann ekki tala fyrst? Það er velkomið! (Jón Þorkelsson: Nei!) Ég mundi ekki eftir því fyr en eg hafði beðið um orðið, að eg á ef til vill von á svari frá honum, en hann verður þá að forláta, þó að eg svari ekki aftur, því nú verð eg »dauður«, þegar hann fær orðið.

Annars ætlaði eg að eins að svara háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) upp á það, hverjar ástæður væru fyrir áskorun kjósenda í Vestmannaeyjum um að losast við loftskeytin. Þm. sagði, að þeir hefðu ekki haft hugmynd um, að þeir ættu að komast í beint samband við landið, ekki nema við Reykjavík eina, og að þeir mundu hafa brugðist öðruvísi við, ef þeir hefðu vitað um till. háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), þar sem gert sé ráð fyrir sambandi við 3 stöðvar, þá mundi þeim aldrei hafa dottið í hug að hafa á móti þessu, því að þá hefðu þeir fengið allar sínar óskir uppfyltar. En þetta er helber miskilningur frá upphafi til enda. Þeir vilja fá talsímasamband við landið í heild sinni, og beint í land. Þessi loftskeytastöð undir Eyjafjöllum er þeim ekkert mætari heldur en loftskeytastöð einhversstaðar annarstaðar, er stæði í þráðarsambandi við suðurhluta Rangárvallasýslu. Eyjafjallastöðin yrði þeim ekki að neinum frekari notum, en stöð í Reykjavík í sambandi við símann. Aðalatriðið er það, að í hvorugu tilfellinu er hægt að tala saman, enda skilst mér svo, að þetta sé ekki gert Vestmannaeyja vegna, heldur vegna Skaftafellssýslu. Það bætir ekkert úr skák, þótt þessi litla stöð sé þarna í Landeyjunum, eða undir Eyjafjöllum, þegar alt þarf að fara fram skriflega hvort sem er. Þetta er því alt saman sagt út í loftið. Eyjaskeggjar óska allir hins sama, og till. háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) er alveg fyrir utan það sem hér um ræðir. Svo er hitt atriðið, að þetta dýra samband, sem Skaftfellingum er ætlað fyrir 20 þús. kr., og með afarmiklum reksturskostnaði á ári hverju, er ekki eftirsóknarvert, því síður fullnægjandi og stendur ekki lengi. Stöðvarnar eru sem sé áætlaðar svo veikar, að þær ná ekki að senda skeytin alla leið til Rvíkur, heldur þyrfti alltaf að senda þau fyrst til stöðvarinnar undir Eyjafjöllum og svo aftur þaðan til Reykjavíkur. Allir sjá að þetta er kák, og er mér sama, hvað agent Marconifélagsins segir hér um, það er öldungis víst, að kostnaðurinn mundi verð tiltölulega miklu miklu meiri en gagnið.

Þá ætla eg að eins að drepa á eina breyt.till. frá háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) viðvíkjandi háskólanum. Hún er þgskj. 699, og fer fram á það, að falli aðaltill. á þgskj. 670, þá bætist aftan við athugasemd um, að fjárveitingin til háskólans í fjáraukal. falli burtu, ef ekki verði veitt fé til reksturs hans í fjárlögunum fyrir 1912 og 1913. Það er óviðkunnanlegt, að lög sé látin upphefja sjálf sig, enda er þetta alveg óþarfi hér, því að ef háttv. meiri hluti fellir ekki háskólann, þá má nærri geta, að þeir hinir sömu menn, sem láta hann lifa nú, muni veita honum það fé, sem þarf á fjárlögum. Eg hefi ekki ætlað mér að styggja háttv. þm. með þessu, en eg vil skjóta því til hans, hvort hann muni ekki vilja taka þessa till., sína aftur.