24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

144. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Framsögum. (Ólafur Briem):

Nefndin hefir fundið fátt verulegt að athuga við frumv. þetta, að eins fáein atriði við einstakar greinir. Við 2. gr, sem snertir skrifstofukostnað við stjórnarráðið, sér nefndin ekki ástæðu til að gera neina athugasemd. Viðvíkjandi 3. gr. vill nefndin athuga, að henni hefði þótt réttara að taka kostnaðinn við prentun bankarannsóknarskýrslunnar af fé landsbankans fremur en að greiða þann kostnað úr landssjóði ásamt prentunarkostnaði stjórnartíðinda, en ekki hefir henni þó þótt ástæða til þess að koma fram með breyt.till. út af þessu: Viðvíkjandi 4. gr. er helzt nokkuð að athuga um útgjöldin til geðveikrahælisins á Kleppi. Í frumv. er farið fram á 15 þús. kr. aukafjárveitingu, og nefndin bætir þar við 6 þús. kr. Öll umframgreiðslan verður þá 21 þús. kr. Vitanlega hafa fleiri sjúklingar verið á geðveikrahælinu, en ráð var fyrir gert á fjárlögunum, og er því eðlilegt, að kostnaðurinn hafi aukist. Sá kostnaður, sem af því stafar, er um 7 þús. kr., en 14 þús. kr. hefir verið varið til sérstakra fyrirtækja þar, til túngirðingar kr. 1038.69, gasstöðvar kr. 6621.55 og vatnsæðalagninga kr. 5937.92. Nefndin hefir ekkert sérstakt að athuga við þessi mannvirki nema það, að til þeirra hefir fjárveitingarvaldið ekki veitt neitt fé. Nefndin vill leggja áherzlu á, að stjórnin ráðist ekki í slík fyrirtæki, nema fjárveitingarvaldið hafi áður átt kost á að segja sitt álit. Eftir atvikum vildi nefndin þó eigi gera neina rekistefnu út af þessu.

5. gr. grípur yfir þau mál, samgöngumálin, sem fjárveitingarvaldið hefir jafnan verið örast að veita fé til, og þar sem mest er þörf á að skera ekki mjög við neglur sér, enda er þar um mestar umframgreiðslur að ræða. Nefndin hefir þó eigi séð ástæðu til að gera neinar verulegar breytingar á þessari grein; þær 7 brtill. viðvíkjandi henni, sem nefndin hefir komið fram með, eru allar óverulegar, 4 þeirra eru að eins leiðréttingar á tilvitnunum, 3 eru lítilsháttar leiðréttingar á tölum. Um 6. gr. má segja hið sama, brtill. nefndarinnar við hana eru mestmegnis leiðréttingar á tölum, eða þær ganga í þá átt að skýra betur til hvers fjárveitingunum hefir verið varið.

Breyt.till. við 7. gr. eru aðallega til þess að leiðrétta tilvitnanir eða kveða nánar á um einstakar upphæðir.

Þá er ein viðaukatillaga í þrem liðum, er nefndin hefir komið fram með eftir ósk stjórnarráðsins. Fyrsti liðurinn er styrkur til frú Maríu Jónsson ekkju Sigurðar Jónssonar fangavarðar við hegningarhúsið að upphæð 200 kr. Annar liðurinn er kostnaður við vatnsæðalagning að Kleppi kr. 5937.92, sem áður er á minst. Og loks er þriðji liðurinn fjárveiting til síldarmatsmanns Jóns Bergsveinssonar til að kynnast síldarverkun erlendis að upphæð kr. 540.00. Það er áður búið að samþykkja á fjáraukalögunum fyrir árin 1910 og 1911 396 kr. 25 au. fjárveitingu til þessa manns. Verður hún að skoðast sem áframhald af fjárveitingu þeirri, sem hér ræðir um, og býst nefndin því við, að hún verði samþykt. Að öðru leyti er þess að geta um allar þessar þrjár síðastnefndu fjárhæðir, að þær hafa verið greiddar utan fjárlaga og því án nokkurrar heimildar af hálfu fjárveitingarvaldsins. Slíkt má ekki eiga sér stað nema mjög sérstaklega standi á, og er þetta tekið fram til viðvörunar í framtíðinni, svo að við það myndist ekki fordæmi til eftirbreytni.