08.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Eiríkur Briem:

Það er að eins ein breytt., sem eg vildi minnast á, fyrri breytt. hv. þm. Vestur-Skaftf. á þskj. 954. Tillagan sýnist meinleysisleg, að eins að ferðaáætlanir gufubáta séu gerðar „eftir tillögum hlutaðeigandi sýslunefnda“. Það var áður fyrir samskonar ákvæði um áætlun fyrir bátaferðirnar í Borgarnes. Og þar varð reynslan sú, að það voru hrein vandræði að ná samkomulagi milli hlutaðeigandi bæjarstjórnar og sýslunefndar. Og svo er annað; hverjar eru þessar „hlutaðeigandi sýslunefndir“ ? Það eru t. d. margar sýslur, sem gætu komið til greina, að því er snertir Borgarnesbátinn, fyrst og fremst Mýra- og Borgarfjarðarsýsla, en auk þess margar fleiri sýslur, sem nota bátinn til muna, t. d. Dalasýsla, Strandasýsla og Húnavatnssýsla o. fl. sýslur. Hv. þm. Akureyrar talaði um það áðan, að það væri nauðsynlegt að koma á samræmi milli allra skipaferða, sem njóta styrks af landssjóði, bæði millilandaferða og strandferða. Þetta er öldungis rétt og á einnig við um þessar bátaferðir. En þetta getur verið útilokað, ef þessi till. hv. þm. Vestur-Skaftf. verður samþykt. Bæði geta skoðanirnar orðið mjög mismunandi og eins hitt, sem hv. framsm. gat um áðan, að það er nauðsynlegt að búið sé að gera áætlanir fyrir millilandaferðirnar áður en strandferðaáætlanir eru gerðar. Þetta á eins við um bátaferðirnar, en þá yrði að vinda svo bráðan bug að því að semja áætlanir þeirra, þegar hinar væru fullgerðar, að það yrði enginn tími til að leita ráða sýslunefndanna.

Af þessum ástæðum vil eg skjóta því til hv. flutningsmanns, hvort hann vill ekki taka þessa tillögu aftur.