21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

142. mál, landsreikningurinn 1908-1909

Framsögum. (Ólafur Briem):

Þegar frumvarp þetta er borið saman við fjárlög frá sama fjárhagstímabili, þá sést það að upphæðirnar eru hinar sömu alstaðar, að því er tekjuhliðina snertir. En útgjöldin eru dálitið mismunandi í ýmsum liðum, bæði að því er snertir samgöngur, læknamál, kenslumál og styrk til verklegra fyrirtækja, vísinda og bókmenta. Þetta stafar af því, að breytingar hafa verið gerðar á hinum upphaflegu fjárveitingum í tvennum fjáraukalögum, einum, sem þegar hafa verið samþykt og öðrum, sem nú liggja hér fyrir. Eg skal benda á það, að tekjuafgangurinn á fjárhagstímabilinu 1908 og 1909 hefir orðið yfir 305 þús. kr., þar sem fjárlögin höfðu gert ráð fyrir rúmlega 25 þús. kr. tekjuhalla. Og þar sem aukafjárveitingar og umframgreiðslur hafa orðið nálega ½ milj. kr., og þó orðið þessi afgangur, þá sést það, að tekjurnar hafa í raun og veru vaxið um liðlega 800 þús. kr., og hefir þetta valdið því, að kalla má að fjárhagurinn hafi staðið með blóma á þessu fjárhagstímabili.

Annars ætla eg mér að geyma frekara umtal um breyttill. nefndarinnar til 2. umr.