21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

142. mál, landsreikningurinn 1908-1909

Hannes Hafstein:

Eg vil að eins benda á það, að í landsreikningnum frá 1908 er ekki komið inn á tekjudálkinn hið margumtalaða 500 þúsund króna lán, sem tekið var í árslokin 1908, heldur er látinn vera tekjuhalli, 136,450 kr. Hefði lánsupphæðin verið talin til tekna fyrir árslok eins og vera bar, þá hefði ekki orðið tekjuhalli heldur þvert á móti tekjuafgangur, 363,550 kr., sem kemur að mestu heim við fjárhagsskýrslu mína í þingbyrjun 1909. En lánið, sem var að mestu óeytt þegar eg fór frá, er ekki fært til tekna fyr en 1909 og bætir þannig úr skák, að því er »status« snertir í árslok 1909 á fyrra ári fráfarandi stjórnar.

Við skýrsluna um peningaforða landssjóðs 1908 í árslok er það að athuga, að þar eru vantaldar 200,000 kr., sem voru á leiðinni milli Íslands og Danmerkur um áramótin, og koma ekki fram fyr en í reikningnum frá 1909. Reikningurinn frá 1908 út af fyrir sig gefur því skakka hugmynd.

Hvort það er þetta, sem hefir gefið tilefni til þeirrar fáheyrðu lygaskýrslu, sem nýlega birtist í blaðinu Ísafold, um fjárhagsástandið meðan eg var ráðherra, og þar er höfð eftir einum háttv. þm., sem kvað hafa haldið fyrirlestur um þetta fyrir sjálfstæðisflokknum veit eg ekki. Það kemur ef til vill í ljós síðar. Í þetta skifti læt eg mér því nægja að stimpla þær aðdróttanir til mín, sem í þeirri skýrslu felast, sem ærulausar lygaaðdróttanir.