21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

142. mál, landsreikningurinn 1908-1909

Magnús Blöndahl:

Eg veit nú ekki fyrir víst, hvert háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) beinir þessum prúðmannlegu orðum sínum. En eg get þó hugsað, að hann eigi við grein, sem stóð í Ísafold fyrir skömmu og átti að vera »referat« af fyrirlestri, sem eg hafði haldið þá fyrir skömmu, og ef hann leyfir sér að viðhafa þessi ummæli í minn garð út af þeim fyrirlestri, þá vil eg vísa þessum prúðmannlegu orðum hans heim til hans aftur, þar munu þau kunna bezt við sig og sóma sér bezt. Fyrirlestur þessi mun nú bráðum verða birtur orðréttur, og skal það tekið fram, að allar þær tölur, sem eg fór með í greindum fyrirlestri, eru bygðar á landsreikningunum. »Referatið« er ekki frá mér, og ber eg því enga ábyrgð á því, hvort rétt er haft eftir. Hafi eitthvað farið á milli mála, þá mun það koma í ljós, er fyrirlesturinn kemur út. Háttv. þm. gat því sparað sér frumhlaup þetta að sinni, enda óviðfeldið fyrir hann sjálfan að sýna háttv. deild jafn áþreifanlega, hve bágt hann á með að stjórna skapi sínu.